Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þótt notkun sýklalyfja í landbúnaði á Íslandi sé ein sú minnsta í heimi ásamt því sem þekkist í Noregi þá er víða verið að nota mikið af sýklalyfjum sem hafa orsakað myndun ofursýkla, eins og m.a. í danskri svínarækt.
Þótt notkun sýklalyfja í landbúnaði á Íslandi sé ein sú minnsta í heimi ásamt því sem þekkist í Noregi þá er víða verið að nota mikið af sýklalyfjum sem hafa orsakað myndun ofursýkla, eins og m.a. í danskri svínarækt.
Fréttir 7. mars 2018

Áhyggjur vegna uppgangs sýklalyfjaónæmra baktería

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins (ESB) sem og fulltrúar alþjóðastofnana hafa miklar áhyggjur af aukinni tíðni kamfílóbaktersýkinga sem orðið er stórt lýðheilsuvandamál í Evrópu. Það er m.a. farið að valda miklum vanda á heilbrigðisstofnunum. 
 
Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB segir m.a. að kamfíló­baktersýkingar séu  langalgengastar þegar um er að ræða fæðuborin smit í löndum Evrópusambandsins. Einkum sé þar um að ræða smit úr kjúklingakjöti. Þar segir einnig að ýmsar aðferðir hafi verið reyndar í ESB-ríkjunum til að berjast við þennan vanda. Þar hafi verið tekið upp hert regluverk og eftirlit með framleiðendum og alla leið í gegnum sláturhús og framleiðslukeðju. Árangurinn til þess er alls ekki eins og vonast var til. Þetta er þrátt fyrir að gerð hafi verið spálíkön sem sýna að óbreytt þróun ofursýkla muni leiða til mikils efnahagsáfalls á heimsvísu samfara dauða tuga milljóna manna fram til 2050.  
 
Ofnotkun sýklalyfja hefur fætt af sér ofurbakteríur
 
Undralyfið Penicillin var fundið upp af Alexander Fleming árið 1928. Það olli straumhvörfum í baráttunni við sýkla, ekki síst við að meðhöndla sjúklinga á sjúkrahúsum. Með sýklalyfjunum hefur milljónum manna verið bjargað frá bráðum dauða og gríðarlegar upphæðir hafa sparast í þjóðfélögum um allan heim. Þessum árangri er nú alvarlega ógnað vegna ofnotkunar á sýklalyfjum. Afleiðingin verður sú að jafnvel minnsta sár á fingri getur orðið banvænt ef í það kemst sýklalyfjaónæm baktería. 
 
Grunnurinn að þessu er óhófleg notkun sýklalyfja hjá mannfólki. Einnig í landbúnaði, þar sem lyfin eru notuð sem fyrirbyggjandi aðgerð til að koma í veg fyrir sýkingar og til að auka vaxtarhraða dýra. Þetta hefur leitt til þess að bakteríur byggja smám saman upp þol gegn lyfjunum og upp hafa sprottið ofurbakteríur eða „Super Bugs“, sem erfitt er að ráða við. Þar hafa sjúkrahús æ oftar þurft að reiða sig á það sem kölluð eru síðustu úrræða lyf eins og Colostine. Það er þó ekki notað nema í neyð, m.a. vegna þess að það getur verið hættulegt fyrir nýrun.
 
Viðvörun Alþjóðaheilbrigðis­stofnun­arinnar WHO fyrir skömmu hefur því vakið mikinn óhug. Þar var verið að vara við því að þúsundir tonna af af Colostine hafi verið notað við eldi á kjúklingum á Indlandi. Nær öruggt má telja að bakteríur muni mynda ónæmi við Colostine og við smitun í fólk eru þá nær engin úrræði eftir fyrir lækna til að bregðast við. 
 
Ciprofloxacin í affallsvatni lyfjafyrirtækja á Indlandi
 
Þá má sjá í frétt MaiOnline frá 6. desember síðastliðinn að ofnotkun sýklalyfja sé nú að stofna lífi milljóna manna í hættu. Þar kemur fram að affallsvatn frá 90 lyfjaframleiðendum nærri Hyderabad á Indlandi innihaldi nægilega mikið af hinu mikilvirka sýklalyfi Ciprofloxacin, að ógni nú þegar lífi 44.000 manna á svæðinu. Þá er haft eftir Erikl Solheim, umhverfissérfræðingi hjá Sameinuðu þjóðunum, að affall frá landbúnaði, mannabústöðum og iðnaði hafi valdið því að algengt sé orðið að sýklalyf finnist í jarðvegi, ám og setlögum. Þessi lyf séu stöðugt að hafa áhrif á þróun lyfjaónæmra baktería. 
 
Staðan á Íslandi hefur sparað heilbrigðiskerfinu gríðarlegar upphæðir
 
Á Íslandi hafa fjölmargir gert lítið úr áhyggjum lækna á borð við Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlækni sýklafræðideildar Landspítalans, og bænda varðandi afléttingu á hömlum til að flytja inn hrátt kjöt. Fram að þessu hefur einungis verið heimilað að flytja inn  frosið kjöt, en það kann nú að vera að breytast vegna nýs tollasamnings við ESB og niðurstöðu EFTA-dómstóls er varðar innflutning á hrárri matvöru.
 
Það er þrátt fyrir almenna vitneskju um að á Íslandi líkt og í Noregi eru einstakar aðstæður vegna sáralítillar notkunar á sýklalyfjum í landbúnaði. Því hefur verið auðveldara að berjast við sýkingar sem upp hafa komið í fólki, þar sem lítt eða ekki hefur þurft að bregðast við ofurbakteríum. Það þýðir að heilbrigðiskerfið hefur ekki þurft að leggja út í gríðarlegan kostnað sem getur verið því samfara að berjast við smit frá lyfjaónæmum bakteríum. Þetta hafa sérfræðingar við Landspítalann m.a verið að benda á árum saman. Hvert ár sem hægt er að fresta því að hingað berist ofurbakteríur, m.a. með innflutningi á hráu kjöti, eggjum eða ógerilsneyddum mjólkurvörum, getur sparað ríkinu gríðarlegar upphæðir í rekstri sjúkrahúsa. 
 
Þótt íslenskir hagsmunaaðilar í innflutningi og þeirra með­reiðarsveinar hafi gjarnan slegið því fram í fjölmiðlum að um sé að ræða hræðsluáróður bænda í sinni hagsmunagæslu, þá líta fjölþjóðlegar stofnanir greinilega ekki svo á. Heldur að málið sé raunverulega grafalvarlegt.  
 
Miklar áhyggjur hjá WHO
 
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO birti í fyrsta sinn í byrjun síðasta árs lista yfir sýklalyfjaónæma sýkla. Þar er talað um 12 ættir baktería sem séu mesta ógnin við heilbrigði manna. Í áhættuflokki 1 eru nefndar Acinetobacter baumannii, Pseudomonas aeruginosa og Enterobacteriaceae. Í áhættuflokki 2, og skilgreindar sem mikil hætta, eru nefndar bakteríurnar; kamfílóbakter, salmonella, Neisseria gonorrhoeae, Helicobacter pylori, Staphylococcus aureus og Enterococcus faecium. Í áhættuflokki 3 undir meðaláhættu eru nefndar Streptococcus pneumoniae, Haemophilus influenzae og Shigella spp.
 
Í september 2017 sendi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO viðvörun um að heimsbyggðin væri að verða uppiskroppa með nothæf sýklalyf. Þar sagði að ekki væri nógu mikið gert í þróun nýrra sýklalyfja sem nothæf væru í baráttunni við skæðustu sýklana. 
 
Bráðavandi sem er að eyðileggja áratuga árangur í læknisfræði
 
„Sýklalyfjaónæmi er bráðavandamál um allan heim sem mun stefna árangri í lyfjanotkun í mikla hættu,“ sagði dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, aðalframkvæmdastjóri WHO. 
 
„Án aukinna fjárfestinga í rannsóknum og lyfjaþróun, þá munum við verða neydd aftur til þess tíma þegar fólk þurfti að óttast um líf sitt vegna smits sem upp gat komið við minni háttar uppskurð.“  
 
Benti WHO á að um 80% af sýklalyfjum sem seld eru í Bandaríkjunum séu ekki notuð til að meðhöndla sjúkdóma í fólki, heldur við eldi dýra. Af nær 2 milljörðum kg af kjúklingakjöti sem selt er í verslunum í Bandaríkjunum hefur einungis um 5,9% verið framleitt án sýklalyfja.
 
Í Bretlandi var sett í gang áætlun fyrir nokkrum árum um að draga úr notkun sýklalyfja í landbúnaði um 20%. Markmiðið var sett við að sýklalyfjanotkunin yrði komin niður í 50 mg á hvert framleitt kíló af kjöti á yfirstandandi ári 2018. Tölur sýna að strax á árinu 2016 hafði tekist að koma sýklalyfjanotkuninni niður í 45 mg á kg, sem samt er gríðarlega mikil notkun.  
 
Um 2 milljónir Bandaríkjamanna smitast árlega af ofursýklum
 
Samkvæmt frétt á vefsíðu Natural News frá því í janúar sl., sýna tölur frá Bandaríkjunum að nærri 2 milljónir Bandaríkjamanna smitast nú árlega af lyfjaónæmum ofursýklum. Þar af látast um 23 þúsund manns sem ekki er hægt að bjarga með lyfjagjöf. Líkur eru taldar á að dánartalan vegna ofursýklasmits muni hækka umtalsvert á næstu árum. 
 
Gríðarleg sýklalyfjanotkun framhjá eftirlitskerfum
 
Ekki er skrítið að erfiðlega gangi að berjast við notkun sýklalyfja á heimsvísu ef marka má skýrslu sem gefin  var út um ofnotkun sýklalyfja í Sádi-Arabíu 2016. Að þeirri skýrslu stóðu m.a. sérfræðingar konunglega háskólans í Sádi-Arabíu, KSU, konunglegi lyfjaháskólinn KSUMC og lyfjadeild barnastofnunar Sádi-Arabíu og fleiri. Þar kemur fram að misnotkun á sýklalyfjum við meðhöndlun á fólki í landinu sé um 41–92%, einkum við meðhöndlun á börnum. Þar er einnig vitnað í alþjóðlegar tölur um notkun á sýklalyfjum sem seld eru fram hjá opinberu eftirlitskerfi, þ.e. meira og minna á svörtum markaði. Þar er að vísu ekkert minnst tölur frá Sádi-Arabíu, en vísað í tölur víða um heim. Þar kemur fram að í Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Belgíu, Austurríki, Írlandi og í Bretlandi sé slík notkun án lyfseðla um 3% af heildarnotkuninni. Á Spáni, Ítalíu Möltu og Grikklandi sé notkunin fram hjá eftirliti 19%. Í Póllandi, Litháen og í Rúmeníu er hún sögð vera 30%. Í Slóvakíu, Slóveníu og í Króatíu er hún sögð vera 6%. Þá er sýklalyfjanotkunin án framvísunar opinberra aðila sögð vera 44% í Tyrklandi, 40% í Jórdaníu, 36% í Kína, 18% á Indlandi og 62% í Víetnam. Þá er slík notkun sögð vera 100% í Súdan og í Nígeríu, svo einhverjar þjóðir séu nefndar. 
 
Mikill misskilningur og vanþekking
 
Liew Kong Cheng, viðskiptaþróunar­stjóri á sviði landbúnaðar, matvæla og drykkjarvara hjá viðskipta- og fjárfestingaráði Ástralíu og Hsu Li Yang, verkefnisstjóri við lyfjaónæmisverkefni Saw Swee Hock-skólann í alþýðuheilsufræði hjá háskólanum í Singapúr, segja að ofursýklamálið sér stórlega misskilið. Í grein á vefsíðu Brink Asia, segja þeir að skortur á fræðslu og upplýsingum valdi því að stór hluti fólks átti sig ekki á þeirri hættu sem stafar af ofnotkun sýklalyfja og þróun ofursýkla. Það sé þrátt fyrir að á fundi háttsettra manna innan Sameinuðu þjóðanna 21. september  2016 hafi verið tekin merkileg ákvörðun um að gera áætlun um baráttuna. Síðan hafi þjóðir innan SÞ unnið hörðum höndum við að mynda áætlun undir heitinu „Global Action Plan on Antimicrobial Resistance“.
 
Menningarmunur veldur vanda
 
Þá segja þeir Cheng og Yang að menningarlegur munur ólíkra svæða eins og í Asíu og á Vesturlöndum valdi því að erfiðara verður að eiga við vandann. Það eigi líka við innan stofnana eins og WHO. Fólk skilji jafnvel ekki hvað sýklalyfjaónæmi þýði fyrir heilsu þess. Þótt könnun sýni að 56% sem telji sig vita eitthvað um málið, þá haldi 31% að það sé líkami fólks sem verður ónæmur fyrir sýklalyfjum, en skilur ekki að málið snúist um sýkla sem það geti smitast af og ekki er hægt að vinna á með lyfjum. Þetta valdi m.a. áhyggjum af framgöngu sýklalyfjaónæmra baktería (Antimicrobial resistance AMR) á svæði í Suðaustur-Asíu þar sem búa um 650 milljónir manna. 
 
Um 3,2 milljónir smituðust af ofursýklum í Taílandi 2010
 
Segja þeir félagar að í einni rannsókn hafi verið áætlað að í Taílandi einu hafi árið 2010 um 3,24 milljónir manna verið lagðar á sjúkrahús vegna ofursýklasmits. Af þessum fjölda hafi 38.481 látist vegna þess að engin úrræði voru lengur til staðar til að berjast við sýklalyfjaónæmu bakteríurnar. Kostnaðurinn vegna þessa hafi margfaldast á svæði sem hafi svipaðan íbúafjölda og Evrópa og Norður-Ameríka samanlögð. 
„Þarna getur orðið hörmungar­ástand fyrir heilsufar almennings í framhaldinu,“ segja þeir Liew Kong Cheng og Hsu Li Yang. 
 
Ofursýklar geta kostað 10 milljónir manna lífið á hverju ári um 2050
 
Í skýrslu Alþjóðabankans 2016 og í skýrslu O‘Neill sama ár, var áætlað að áhrif vegna sýlalyfjaónæmra baktería á fjármálakerfi heimsins muni nema sem svarar um 100 billjónum dollara árið 2050 [100 trillion á ensku]  eða 100.000.000.000.000 dollara, samkvæmt okkar talnakerfi. Það þýðir um 3,8% af vergri landsframleiðslu heimsins. Þá er einnig gert ráð fyrir að sýklalyfjaónæmar bakteríur, eða ofursýklar, drepi um 10 milljónir manna árlega ef ekkert verði að gert.
 
Gert er ráð fyrir að í Evrópu muni á hverju ári deyja af völdum ofursýkla um 390 þúsund manns, eða sem svarar ríflega allri íslensku þjóðinni. 
 
Efnahagshrun og gríðarlegt mannfall
 
Alþjóðabankinn segir að jafnvel þótt áhrif sýklalyfjaónæmu bakteríanna  verði tiltölulega mild, þá geti það samt þýtt kostnað upp á um 1,1% af landsframleiðslu heimsins árið 2050. Í ofanálag þýði þetta samdrátt í efnahagsvexti heimsins sem geti í besta falli orðið um 1% en í versta falli um 5,6%. Sem dæmi var samdrátturinn mestur í efnahagshruninu 2008 til 2009 um 4,1%. Afleiðingarnar af óheftri þróun ofursýklavandans yrðu því efnahagslega mun verri fyrir heimsbyggðina en síðasta efnahagshrun og mannfallinu mætti líkja við ástandið í stórstyrjöld.
 
MAST fjallar um kamfílóbaktersýkingar
 
Í frétt Matvælastofnunar 12. febrúar sl. segir m.a. að á Íslandi hafi komið upp faraldur kamfílóbaktersýkinga í fólki á árunum 1998–1999 eftir að sala fersks kjúklingakjöts [íslensks] var leyfð í verslunum. 
 
„Eftir samstillt átak eftir­lits­aðila og framleiðenda gegn kamfílóbakter hefur tíðni kamfílóbakters haldist lág hérlendis og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmynd í baráttunni gegn þessum algenga sjúkdómsvaldi.
 
Innan Evrópu er nú rætt um hvernig ná megi betri stjórn á hættum tengdum sjúkdómsvaldinum. Í meðfylgjandi skýrslu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) um aðgerðir gegn kamfílóbakter (Campylobacter) í kjúklingum er gerð grein fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum í framleiðslu kjúklingakjöts í Evrópu. Allt kapp er lagt á að fækka kamfílóbaktersmiti í kjúklingum, en bein tengsl eru á milli kamfílóbaktersýkinga í fólki og smits í framleiðslu kjúklingakjöts. Niðurstöður voru fengnar úr skoðunarheimsóknum í þremur ríkjum ESB og tveimur EFTA-löndum, en Ísland var annað þeirra.“
 
Ísland og Noregur í sérflokki
 
„Einungis Ísland og Noregur (EFTA-lönd) hafa ástundað frystingu á menguðu kjúklingakjöti sem fyrirbyggjandi aðgerð í baráttunni gegn kamfílóbakter. Frosið kjúklingakjöt er verðminna en ófrosið og hafa því aðgerðir gegn kamfílóbakter í kjúklingum fyrst og fremst beinst að því að verja fuglana gegn smiti með góðum smitvörnum á búunum. Kappkostað er að framleiðendur geti sent frá sér ómengaða fuglahópa til slátrunar. Ekki er lögð áhersla á sértækar aðgerðir umfram góða starfshætti í sláturhúsum til að fyrirbyggja kamfílóbaktermengun. Í baráttu sinni við kamfílóbakter reyna EFTA-löndin fyrst og fremst að fyrirbyggja smit í fuglana þannig að minni aðgerða sé þörf á síðari stigum framleiðslunnar.
Hin Evrópulöndin sem könnunin náði til telja hins vegar óvinnandi veg að fyrirbyggja kamfílóbaktersmit í kjúklingum á búum. Leggja þau höfuðáherslu á áhættuminnkandi aðgerðir í slátruninni þ.e.a.s. á síðari stigum framleiðslunnar.“
 
Reyna nýjar baráttuaðferðir en án árangurs
 
„Stöðugt er verið að þróa og prófa nýjar aðferðir til að draga úr kamfílóbaktermengun eftir slátrun, svo sem meðhöndla kjöt með heitri gufu eða hátíðnibylgjum/hljóði (ultrasound), eða snöggri yfirborðsfrystingu (crust freezing). Þrátt fyrir að hafa bætt sláturaðferðir sínar hafa Evrópulöndin ekki náð settum markmiðum um lægri tíðni kamfílóbakter í kjúklingum.
 
Markaðurinn kallar eftir fersku kjúklingakjöti en innan ESB er frysting kjöts frá smituðum eldishópum talin vera efnahagslega óframkvæmanleg. Bólusetningar á kjúklingum gegn kamfílóbakter hafa einnig verið prófaðar en ekki borið tilætlaðan árangur. Önnur leið getur verið að bólusetja kjúklinga með bakteríudrepandi veirum (bacteriophages) rétt fyrir slátrun en sú aðferð er dýr og getur valdið áhyggjum meðal neytenda.“
 
Íslenska aðferðin að frysta smitað kjöt hefur reynst árangursríkust
 
„Í stuttu máli blasir við að ríki ESB hafa ekki fundið viðunandi lausnir til að ná stjórn á kamfílóbakter í kjúklingum og ekki náð að lækka tíðni smits í fólki. Frysting á kamfílóbaktermenguðu kjöti, eins og tíðkast hefur hér á landi í nær tvo áratugi, hefur til þessa reynst langárangursríkasta aðgerðin í baráttunni gegn þessum sjúkdómsvaldi,“ segir í frétt MAST.

6 myndir:

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.