Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Göngum til liðs við gróðurinn
Lesendarýni 9. apríl 2019

Göngum til liðs við gróðurinn

Höfundur: Signý Jónsdóttir
Með straumum vinds og sjávar nam melgresisfræ land og tók að vaxa hér rétt eftir síðustu ísöld eða þegar jöklar hófu að hopa. Því má segja að melgresi sé ein af landnámsplöntum íslensku flórunnar. 
 
Fyrr á tímum var melgresi nýtt frá rót til fræja. Nytjahlutir voru ofnir úr löngu rótarkerfinu, stráin voru nýtt til einangrunar og fullþroska korn nýtt í matseld. Því má halda því fram að melgresi og nýting þess sé hluti af íslenskum menningararfi sem vert væri að halda til haga og jafnvel endurvekja. Nú til dags er melgresi nánast eingöngu nýtt til landgræðslu en það vex og dafnar á sandauðnum og er mikilvæg brú á milli svartra sanda og samfelldrar gróðurþekju. 
 
Ísland er að stórum hluta þakið svörtum sandi þar sem lítill sem enginn gróður vex, en þegar við mannfólkið settumst að hér á þessari eyju úti í ballarhafi var Ísland þakið gróðri. Með ágangi okkar manna hafa vistkerfin hrunið vegna ósjálfbærrar landnýtingar, hamfara svo sem eldvirkni og veðurfars eða samblands allra þessara þátta og gróðurþekjan hefur því snarminnkað. Nú þegar höfum við glatað heilu landsvæðunum en til þess að ekki fari verr þurfum við að grípa inn í af enn meiri krafti svo að landið okkar og jarðvegur spænist ekki upp á komandi árum.
 
Til þess að vindurinn feyki ekki sandinum/jarðveginum út í buskann þarf hann bindingu og þar kemur gróðurinn til skjalanna, hann bindur jarðveg. Gróður er afar takmarkaður á sandauðnum landsins og þær eru því vindinum auðveld bráð. Aðgerðir til að hefta sandfok og binda jarðveg eru því afar brýnar. Jarðvegur er okkur lífverum hér á jörðinni einstaklega mikilvægur. Hann sér okkur fyrir næringu og veitir okkur skjól. Jarðvegur geymir sögu og býður okkur upp á útivist, afþreyingu og miðlar vatni. Jarðvegur vinnur fyrir okkur það mikilvæga verk að varðveita næringarefni og binda niður kolefni sem finnst í andrúmsloftinu. Þegar sandur eða önnur jarðefni takast á loft og fjúka getur mikil eyðilegging átt sér stað. Sandurinn eyðir grónu landi í kring og smátt og smátt kæfir hann gróðurinn og sandauðnirnar stækka. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum að bretta upp ermar og koma í veg fyrir fekari skaða en þann sem þegar er orðinn. Þó að sandauðnirnar færi okkur sérstæða náttúrufegurð og víðáttumikla auðn sem heillar marga þá eru þær okkur frekar til ama en hitt. Þær takmarka meðal annars fjölbreytt dýra- og gróðurlíf, eyða öðrum gróðri og minnka loftgæðin.
 
Kjöraðstæður fyrir vöxt og viðgang melgresis er sandur. Þegar melgresi sest þar að lifir það þar um nokkurt skeið þar til aðrar plöntur nema þar land og þegar fram í sækir víkur melgresið  fyrir öðrum gróðri. Gróðurinn bindur jarðveginn og smátt og smátt byggist upp jarðvegur þar til gróðurþekja hylur landið. Það hefur í för með sér að jarðvegur hefst síður á loft, mengar síður og eyðir ekki öðrum gróðri. Dýralíf dafnar bæði ofan jarðar og neðan. Fuglalíf verður fjölbreyttara og ýmiss konar skordýr og örverur setjast þar að. Landgræðslan hefur nýtt melgresi til uppgræðslu í meira en hundrað ár með góðum árangri. Hún hefur samt ekki undan.
 
Nú er kominn tími til að við endurgjöldum móður jörð og bætum fyrir áganginn með því að komast í snertingu við okkar eigið land. Hvað með að safnast saman á sandinum með fræ í skjóðu sem skjóta rótum með hækkandi sól? Göngum til liðs við gróðurinn og hjálpum jarðveginum að græða sín sár sjálfur með hjálp melgresis. Hugum að sjálfbærri framtíð með það að leiðarljósi að endurheimta jörð og jarðveg. 
 
Signý Jónsdóttir, 
nemandi við vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands

Skylt efni: vöruhönnun | melgresi

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...