Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Það sem einkennir Ísland öðru fremur er náttúran, svo ósnortin í raun og með víðerni sín og íslensku húsdýrin. Þar eru ekki bara undir fjöll og firnindi, heldur og allt graslendið vafið náttúrulegum gróðri og íslenski hesturinn hraustur og frjósamur. Þetta skapar einstakar aðstæður á heimsvísu sem gera að hér er með hagkvæmum og ábyrgum hætti hægt að framleiða eCG/PMSG úr blóði fylfullra hryssna. Um leið eru stoðir hrossahaldsins efldar og grasi sem annars yxi til þess eins að sölna breytt í beinharðan gjaldeyri," segir Kristinn meðal annars.
„Það sem einkennir Ísland öðru fremur er náttúran, svo ósnortin í raun og með víðerni sín og íslensku húsdýrin. Þar eru ekki bara undir fjöll og firnindi, heldur og allt graslendið vafið náttúrulegum gróðri og íslenski hesturinn hraustur og frjósamur. Þetta skapar einstakar aðstæður á heimsvísu sem gera að hér er með hagkvæmum og ábyrgum hætti hægt að framleiða eCG/PMSG úr blóði fylfullra hryssna. Um leið eru stoðir hrossahaldsins efldar og grasi sem annars yxi til þess eins að sölna breytt í beinharðan gjaldeyri," segir Kristinn meðal annars.
Mynd / ghp
Lesendarýni 13. september 2022

Blóðtakan eykur nytjar af hrossum og styrkir afkomuna

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka.

Með annars ágætri umfjöllun um blóðtökur úr hryssum í Bændablaðinu þann 25. ágúst sl. birtist viðtal við þau York Ditfurth og Sabrinu Gurtner, fulltrúa þýsk- svissnesku samtakanna TSB/AWF. Málflutningur þeirra er með þeim hætti að gera verður við hann athugasemdir.

Í upphafi viðtalsins er þeim tíðrætt um einhvers konar skipulega yfirhylmun starf­ seminnar. Þeim fullyrðingum er einfaldlega vísað frá, hvorki bændur né fyrirtækið hafa beitt sér þannig. Framkvæmdastjóri Ísteka bauð þeim vissulega upp á fund en því máli öllu fylgdu miklar vífilengjur af þeirra hendi og þau hugðust koma með fjölmiðlamenn, algerlega handgengna sér, á fundinn og var þá vitaskuld sjálfhætt við hann. Ljóst var að tilgangurinn var alls ekki sá að birta raunsanna mynd af starfseminni, sem best sést á myndbandinu sem birt var í fyrrahaust.

Fullyrðingar um „járntjald“ halda ekki vatni, hvorki hvað varðar bændur né fyrirtækið. Upplýst hefur verið um framgang starfseminnar í gegnum áratugina í ræðu og riti. York og Sabrina virðast líka hafa gleymt því að framkvæmdastjóri Ísteka setti sig í samband við þau þegar þau voru hér árið 2019 að ferðast um sveitir með leynilegar myndatökur þótt enn væri bætt í tveimur árum seinna þegar þau komu upp kerfi falinna myndavéla heima á býlum bænda. Hann bauð þeim þá hvoru tveggja á fund til að fara í gegnum velferðarkerfi fyrirtækisins og að heimsækja blóðtökustað sem þau þáðu. Sér er nú hver feluleikurinn.

Í viðtalinu er líka með grófum hætti snúið út úr orðum dýravelferðareftirlitsmanns fyrirtækisins. Því er haldið fram að hann tali fyrir því að hryssurnar séu það sem þau kalla „hálfvilltar“ sem er fjarri öllu sanni. Það sem sagt var, er að hryssur þær sem eru í blóðtökum fái notið frjálsræðis umfram flest önnur hross; þetta er einmitt skilgreint svo í lokasetningu 1. mgr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra: „Enn fremur er það markmið laganna að þau [dýrin, innskot höf.] geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

Það sem átt er við hér er, að hestur fái að vera hestur, en á ekkert skylt við að viðhalda eða auka á villiatferli í neikvæðri merkingu orðsins.

Notkun viðmælenda blaðsins á hugtakinu „lært hjálparleysi“ er afar langsótt. Hugtakið er þekkt úr sálfræðinni og til dæmis notað til að skýra þunglyndi. Það byggir á rannsóknum sálfræðingsins Seligmans, en hann gerði tilraunir með hunda. Þegar þeir voru settir í aðstæður sem þeir gátu alls ekki stjórnað gáfust þeir hreinlega upp fyrir rest. Þegar þeir voru svo settir í nýjar aðstæður sem einnig voru þeim mótdrægar, gáfust þeir aftur upp og reyndu engu að breyta þó að þeir gætu það. Þarna er langt seilst og fráleitt að geti átt við um eins inngripalítinn verknað og blóðtökur úr hryssum eru.

Hitt er svo annað og jákvæðara mál sem Sabrina ræðir í næstu málsgrein, að hryssurnar séu bandvanar og fúsar til að fara inn í og dvelja þá stund sem þarf í blóðtökubásnum. Um þetta eru allir sammála, a.m.k. að hryssurnar séu nægjanlega meðfærilegar til að auðvelt sé að setja á þær tökumúl. Enginn sem fæst við hross vill þurfa að slást við þau. Að forðast hvers konar átök er hvoru tveggja í senn góð hestamennska og svo mikið léttara á allan hátt. Þetta sjónarmið kom ríkt fram í máli blóðbændanna sem rætt var við í Bændablaðinu. Hagur Ísteka, bændanna og dýralæknanna sem verkefninu sinna af því að allt gangi átakalaust fyrir sig á blóðtökustað er ótvíræður. Síðastliðinn vetur og yfirstandandi blóðtökutímabil hefur enda verið nýttur til að kortleggja skapgerðareinkenni hryssna með það fyrir augum að finna sem fyrst þá gripi sem ekki hafa æskilegt lundarfar.

Ekkert bendir til að hross þrífist verr í blóðstóðum en öðrum stóðum nema að síður sé. Er þá sama hvort litið er til folaldanna eða mæðra þeirra. Einnig skýtur skökku við að viðmælendur blaðsins haldi því fram að lyfjaefni framleitt með lífrænum og vönduðum hætti sé á einhvern hátt lakara en kemísk efni, enda hefði maður talið þau almennt séð fremur hallari en hitt undir lífræna framleiðslu.

Grunnefniviður framleiðslunnar byggir á aðstæðum stóðanna, sem eru að miklu leyti lífrænar. Vinnsla fyrirtækisins á lyfjaefni fullnægir svo öllum gæðakröfum lyfjaefnaframleiðslu. York og Sabrinu er tíðrætt um lyfjameðferð sem þau kalla staðgengla eCG/ PMSG meðferðar. Vissulega eru á markaði fjöldamörg lyf sem notuð eru í tengslum við frjósemi í skepnum en blekking að halda því fram að eitthvert þeirra geti komið í stað eCG/PMSG. Engin þessara sameinda býr yfir sömu eiginleikum og eCG/PMSG gerir, eiginleikum sem gera lyfið bæði fjölhæft og langverkandi í öllum tilfellum umfram það sem þessi 36 lyf sem þau vísa til gera. Leikmönnum er fullljóst að 36 mishaglega smíðaðir árabátar hafa sjaldnast roð í hraðskreiða skonnortu.

Í lokin þetta; þau York Ditfurth og Sabrina Gurtner leggja ríka áherslu á hve vel þau vilji bændum og raunar Íslendingum almennt. Þau taka í því sambandi til umræðu framtíð Íslands sem ferðamannalands og telja hagnýtingu íslenska hestsins og hinnar einstöku náttúru landsins sem gerir unnt að halda stór stóð, m.a. til blóðtöku, ógna framtíð landsins sem ferðamannalands.

Þó að ferðaþjónusta skipti miklu máli í íslensku efnahagslífi eru stoðirnar fleiri. Hagsæld Íslands byggir fyrst og fremst á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, nýsköpun í krafti aukinnar menntunar og framsækni á öllum sviðum.

Ferðaþjónustan er prýðileg viðbót en til að hún dafni þarf að vera til staðar kvikt atvinnulíf á íslenskum forsendum, blómlegar sveitir og þar fram eftir götunum. Ferðamenn hafa þá eitthvað að skoða og fræðast um. Þeim er ekki bara þjónað í umhverfi sem helst mætti líkja við uppsetta sviðsmynd.

Það sem einkennir Ísland öðru fremur er náttúran, svo ósnortin í raun og með víðerni sín og íslensku húsdýrin. Þar eru ekki bara undir fjöll og firnindi, heldur og allt graslendið vafið náttúrulegum gróðri og íslenski hesturinn hraustur og frjósamur. Þetta skapar einstakar aðstæður á heimsvísu sem gera að hér er með hagkvæmum og ábyrgum hætti hægt að framleiða eCG/PMSG úr blóði fylfullra hryssna. Um leið eru stoðir hrossahaldsins efldar og grasi sem annars yxi til þess eins að sölna breytt í beinharðan gjaldeyri.

Skylt efni: Ísteka | blóðmerahald

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...