Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Silagangur og sprettur
Leiðari 7. október 2022

Silagangur og sprettur

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Ungum hjónum sem höfðu styrk, kjark og getu til að vinda kvæði sínu í kross, segja upp störfum sínum og taka við búrekstri, líður að sögn miklu betur eftir að þau gerðust bændur. Þau Arnþór og Birna Rún gefa lesendum innsýn inn í lífið í sveitinni í þessu tölublaði. Þrátt fyrir að standa í stórræðum, skuldsetja sig með umfangsmiklum kaupum og skuldbinda sig mjólkurframleiðslu telja þau viss forréttindi felast í líferninu. Þau fá að starfa við og umgangast skepnur. Þau hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og öðrum hugðarefnum sínum.

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Úti í samfélaginu kunna að leynast mun fleiri einstaklingar sem glaðir myndu gerast bændur. Alls konar fólk. Fólk sem hefur metnað, jafnvel menntun til, hefur hugmyndir, hugsjónir og gríðarlega orku til að láta gott af sér leiða í matvælaframleiðslu þjóðarinnar.

Ýmislegt stendur þó í vegi fyrir þeim sem vilja spreyta sig á landbúnaði, hvort sem það er takmarkað aðgengi, skortur á fjármagni eða óvissa um hvort áhættan borgi sig, í ljósi þess að pólitísk ákvarðanataka í málaflokknum er sjaldnast hugsuð til lengri tíma. Of oft virðist stirt og svifaseint kerfið letja annars framtakssama einstaklinga.

Því fyrst þarf viðbragð við ótal óskum. Svo þarf stofnun starfshóps, svo þarf hugmyndir, svo þarf gagnaöflun og tillögur að leiðum. Svo þarf ákvörðun um hvaða leið skuli farin. Svo þarf tillögur að drögum og svo þarf nefnd, annað umsagnarferli, frekari umræður. Svo þarf nefndarálit, þar á eftir vel orðaða viljayfirlýsingu og kannski eyrnamerkt fjármagn. Svo þarf að vinna út frá því önnur skjöl. Glíma við efasemdir. Kannski hætta við. En á endanum er svo frumvarp jafnvel samþykkt, sem segir okkur að einhver ákvörðun um eitthvert framtak hafi verið tekin. En hvað svo? Þessir æðimörgu verkþættir verða of mörgum mætum málum að aldurtila.

Svo er það velviljinn. Um margt hefur verið talað í mörg ár, margir hafa talað fyrir einhverju framsýnu og frábæru. Ef fólk hefði bara hlustað þá, segja sumir snúðugir. Ef hafist hefði verið handa þá. Þá væri nú sviðsmyndin önnur.

Hins vegar sýndi sig nýlega að hlutirnir þurfa ekkert að vera svona. Snemmsumars þegar við blasti neyð í matvælaframleiðslu þá var settur saman starfshópur til að bregaðst við. Hann fékk meira að segja heitið spretthópur því vinnan skyldi ganga hratt fyrir sig. Á nokkrum dögum var unnið skjal, út frá því var tekin ákvörðun og núna í byrjun mánaðarins urðu bændur varir við ákvörðunina í bókhaldinu sínu. Af hverju var þetta undantekning?

Á meðan áhugi fólks er jafn mikill og raun ber vitni er lag að hefjast handa við að styðja og greiða leiðina fyrir framtak fólks sem hefur styrk, kjark og getu til að standa undir meiri matvælaframleiðslu. Gera stórhuga og kraftmiklu fólki kleift að framkvæma. Við þurfum á því að halda.

Verð á gasi í Evrópu hefur hækkað og ein sú þjóð sem flytur út hvað mest grænmeti á heimsvísu, Hollendingar, eru að horfast í augu við krísu. Ljóst er að grænmetisframleiðsla þeirra mun ekki byggjast á gasupphituðum gróðurhúsum í vetur. Fyrir nokkrum árum fannst fólki eflaust galin tilhugsun að Íslendingar myndu flytja út agúrkur. Nú er það staðreynd.

Hér á landi er fólk sem hefur bæði drift og kjark til að láta ýmislegt raungerast. Það sem þarf er pólitísk ákvörðun og fleiri spretthópar.

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...