Ömurleg skilaboð
Hver þjóð er sér ber að baki nema sér bændur eigi, segir Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda, hér í blaðinu.
Ungir bændur boða til baráttufundar fyrir lífsnauðsynlegum breytingum á skilyrðum landbúnaðar þann 26. október næstkomandi. Yfirskrift fundarins er „Laun fyrir lífi ungra bænda og íslenskra sveita“ og er það ekki að ástæðulausu. Í hópi framsögumanna verða bændur sem eru við það að gefast upp á störfum sínum vegna ómögulegra lífsskilyrða.
Þar á meðal er Þórólfur Ómar Óskarsson, sem sér fram á að hætta sínum kúabúskap vegna þess að hann hefur ekki fjárhagslegt rými til að reka búið sitt og lifa eðlilegu lífi. Hann segir lánakjör og vexti íþyngjandi fram úr hófi auk þess sem hann hafi fórnað fjölskyldulífinu og vanrækt sjálfan sig vegna álags í starfi. Hann ráðleggur engum að fara í landbúnað eins og staðan er í dag. Þetta eru ömurleg skilaboð.
Víða um land er ungt fólk sem lagði landbúnaðarframleiðslu fyrir sig í þeirri von að vera til sóma, leggja lið við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðarfestu á landsbyggðinni, sem er einmitt á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Þetta er háskólamenntað búvísindafólk sem er þó að reka sig á það að vera starfandi skuldum vafið í sjálfboðavinnu við að afla okkur fæðu. Þau vilja gera vel en er um megn að lifa mannsæmandi lífi.
Í samþykktri Landbúnaðarstefnu til ársins 2040 er teiknuð upp sú framtíðarsýn að eðlileg nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verði tryggð. Í samþykktri Matvælastefnu til ársins 2040 er ályktað að tryggja eigi hér fæðu- og matvælaöryggi með því að vera í fremstu röð ríkja í gæðum framleiddra matvæla. Framleiðsla á að vera arðbær og tryggja byggðafestu í samfélaginu. Dæmin sýna hins vegar annað.
Þórólfur segir að stöðug uppbyggingar- og viðhaldsþörf sé nauðsynleg til að halda uppi eðlilegri framleiðslu. Bent hefur verið á að atvinnugreinin þurfi aðgang að þolinmóðu fjármagni á lágum vöxtum til að geta mætt aðbúnaðarþörf. Nútímalandbúnaður kallar á nauðsynlega uppfærslu aðbúnaðar.
Eigi landbúnaðar- og matvælastefna að ná fram að ganga þarf nýliðun og fjölgun í atvinnugreininni. Ef tilgangurinn er aukin framleiðsla íslenskra landbúnaðarvara þarf fólk að sjá tilgang í að leggja fyrir sig slíka framleiðslu. Afkoma í greininni þarf því að vera viðunandi. Sú er ekki raunin í dag.
Svo er ekki nóg að gera kröfu um að bændur taki hér til hendinni og framleiði heilnæman mat fyrir þjóðina. Það er til lítils að leggja í þá vegferð ef afurðunum er svo haldið frá neytendum. Sorglegt er að þurfa að segja frá fækkun grænmetisframleiðenda samhliða fregnum um aukið ákall neytenda eftir íslenskum matvörum.
Stjórn Bændasamtakanna hafa boðað nýjan fjármálaráðherra og matvælaráðherra til neyðarfundar um stöðu landbúnaðarins. Segir í tilkynningu að farið verði yfir þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í landbúnaði og leitað eftir svörum frá stjórnvöldum, hvort halda eigi áfram landbúnaðarframleiðslu hér á landi.
Bæði landbúnaðar- og matvælastefnan leggja áherslu á að hér á landi verði framleidd heilnæm matvara í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni og verðmætasköpun er höfð að leiðarljósi. Vonandi eru það ekki orðin tóm.