Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hringferð Bændasamtakanna
Leiðari 8. september 2022

Hringferð Bændasamtakanna

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Árlegri hringferð stjórnar og starfsfólks Bændasamtakanna er nú lokið.

Gunnar Þorgeirsson,
formaður Bændasamtaka Íslands

Efnt var til ellefu funda dagana 22.-26. ágúst og vil ég þakka þeim rúmlega 300 bændum sem gáfu sér tíma frá bústörfum innilega fyrir komuna á fundina og fyrir skoðanaskiptin og samtölin um það helsta sem snýr að hagsmunum bænda. Á fundunum komu fram fjölmargar ábendingar og sjónarmið sem hafa nú verið tekin saman og mun stjórn vinna með þær í framhaldinu, bæði þeim málum sem þarf að leysa sem fyrst og eins önnur atriði sem nauðsynlegt er að hafa í farteskinu við endurskoðun búvörusamninga á næsta ári. Einnig vil ég þakka starfsfólki Bændasamtakanna fyrir skipulagningu og þátttöku á fundunum en það var ekki síður gagnlegt fyrir starfsfólk samtakanna að heyra beint frá bændum um þeirra helstu viðfangsefni sem bændur fást við á hverjum degi.

Dagur landbúnaðarins

Fyrir hartnær 20 árum síðan samþykkti Búnaðarþing að koma á Degi landbúnaðarins og miða að því að hann yrði að árlegum viðburði. Stjórn Bændasamtakanna það ár var falið að skipa undirbúningsnefnd til að vinna að málinu og stefna að því að „Dagur landbúnaðarins“ yrði haldinn í fyrsta skiptið árið 2004. Litlar heimildir eru til um vinnu undirbúningsnefndarinnar og hvort að dagurinn hafi yfir höfuð verið haldinn líkt og til stóð, en eitt er víst, Dagur landbúnaðarins, verður nú haldinn þann 14. október og þá í fyrsta skiptið, þrátt fyrir að dagur landbúnaðarins sé allt árið! Dagskráin verður metnaðarfull og verður fundurinn opinn öllum á meðan húsrúm leyfir. Meginstef fundarins verða umhverfis- og loftslagsmál og fæðuöryggi þjóðarinnar, en hvernig tryggjum við frumframleiðslu í landbúnaði í sátt við umhverfið með tryggri framleiðslu til framtíðar? Starfsfólk samtakanna hefur unnið ötullega að skipulagningu fundarins og verður dagurinn auglýstur á þann hátt að tryggt sé að fólk viti af Degi landbúnaðarins, eða líkt og Áskell Þórisson, fyrrum ritstjóri Bændablaðsins, ritaði: „Ef vel tekst til getur dagur af þessu tagi eflt stéttarvitund bænda en fullyrða má að aukin þekking meðal bænda á málefnum hver annars geti skipt sköpum varðandi framtíðina.“
Þann sama dag verður opnuð stórsýningin Íslenskur landbúnaður í Laugardalshöll en sýningin stendur yfir þá helgina, 14.-16. október nk., og fá félagsmenn í Bændasamtökum Íslands frían aðgöngumiða á sýninguna.

Að pissa í skóinn sinn

Talsverð umræða hefur verið undanfarið um afkomu bænda á grunni frumframleiðslu og fara menn mikinn um hvernig hægt sé að minnka verðbólgu í landinu. Í þeim efnum hefur því m.a. verið haldið fram að með því að afnema uppboð á tollkvótum sem boðnir eru upp ársfjórðungslega, megi kveða niður verðbólgudrauginn. Það er leið okkar Íslendinga að bjóða upp tollkvóta og eins og staðan er í dag er mun meiri eftirspurn eftir heimildum til innflutnings en hefur verið síðastliðin tvö ár. Þetta er aðferð sem flest ríki stunda en ekki séríslenskt fyrirbæri líkt og haldið er fram í fréttum. Í öllum vestrænum heimi standa ríki með frumframleiðslu á eigin landbúnaðarvörum og eru stolt af því. Það vekur furðu að einungis er rætt um úthlutanir á þessum vörum sem falla undir tollkvóta í landbúnaði. Þá velti ég fyrir mér verðlagningu á ávöxtum þegar það eru engir tollar á þeim afurðum? Og hvað með pasta sem bera heldur enga tolla hér á landi? Síðan er mikið rætt um af hverju tollar séu ekki felldir niður af frönskum kartöflum þar sem sú framleiðsla hér á landi stöðvaðist í ágústmánuði síðastliðnum? Þurfum við að slökkva á öllum tollum án þess að fá nokkuð í staðinn? Ég tel mikilvægt að við endurskoðun tollasamningsins við ESB þá verði þetta notað sem skiptimynt fyrir aðrar vörur svo við getum fengið ívilnanir í staðinn inn til ESB því þar líta menn á tolla sem verðmæti í alþjóðaviðskiptum. Að lokum má síðan spyrja hvers vegna sé lagður 26% tollur á tyggjó þegar við erum ekki að framleiða tyggjó á Íslandi? Enn og aftur, reynum að skapa okkur raunverulega samningsstöðu þegar kemur að endurskoðun tollasamninga.

Fjögurra daga vinnuvika verður ekki hjá bændum

Árið 2019 var vinnuvika hins almenna launamanns stytt úr 40 stundum í 36 stundir. Í sameiginlegri kröfugerð VR og Sambands íslenskra verslunareigenda er nú gerð krafa um fjögurra daga vinnuviku. Þá má velta því fyrir sér hvort að aukin framleiðsla á mat hérlendis muni þá rata inn í laun til bænda? Frumframleiðslan mun aldrei standa undir þessum kostnaðarauka ef á að reikna sanngjörn laun fyrir vinnu sem fram fer á framleiðslustiginu. Ætlum við að hækka vöruverð í samræmi við þær kröfur sem unnið er að í launþegahreyfingunni? En eflaust má líta svo á að þarna sé komin lausn að leikskólavanda sveitarfélaganna.

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...

Landbúnaðarland
Leiðari 30. nóvember 2023

Landbúnaðarland

Jude L. Capper prófessor sagði í erindi sínu á afmælisráðstefnu RML að misvísand...