Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Albert Baldursson Fergussonfélagi, hér að störfum við traktor
Albert Baldursson Fergussonfélagi, hér að störfum við traktor
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Höfundur: Anna Heiða Baldursdóttir, sérfræðingur á Landbúnaðarsafni Íslands.

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp safni af landbúnaðarverkfærum við Bændaskólann á Hvanneyri, samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu landbúnaðarins.

Til varð Búvélasafnið sem lengi vel var lítið gert með þar til árið 1987 þegar það var opnað í smáum stíl. Safnið fékk dálitla geymslu og sýningaraðstöðu í húsnæði Bændaskólans þar sem nokkrar vélar voru til sýnis. Með átaki nokkurra einstaklinga, eins og Bjarna Guðmundssonar, fyrrum safnstjóra, óx safninu fiskur um hrygg næstu áratugina. Árið 2007 varð Búvélasafnið að Landbúnaðarsafni Íslands þar sem við tóku nýjar áherslur, þar sem litið var til landbúnaðar í heild sinni í stað einungis búvéla og verkfæra.

Frá grunnsýningu.

Safnið varð svo viðurkennt safn árið 2014 sem þýddi aukna ábyrgð og skyldur á sviði varðveislu, rannsókna og miðlunar á sögu landbúnaðar. Það sama ár flutti safnið ásamt Ullarselinu yfir í Halldórsfjós þar sem ný grunnsýning var opnuð og stendur enn. Flutningarnir gjörbyltu sýningarmálum og aðstöðu safnsins til að taka á móti gestum en fjöldi þeirra sem sækja safnið heim hefur verið vaxandi. Þróunin síðustu ár hefur verið sú að safnið hefur bætt við faglega þætti starfseminnar með auknum rannsóknum og miðlun þeirra. Dæmi um þetta er umfjöllun Bjarna Guðmundssonar um meðal annars heyverkun, jarðrækt og sögu Mjólkurskólans á Hvanneyri. Enn fremur hefur verið gert átak í skráningu safnkostsins til að gera hann aðgengilegan almenningi á menningarsögulega gagnagrunninum Sarpur. Að lokum má einnig nefna sýninguna Konur í landbúnaði í 100 ár (2018) og opnun Gestastofu fyrir friðland fugla í safninu (2019), sem dæmi í fjölbreyttari miðlun safnsins.

Í dag er nóg um að vera á Landbúnaðarsafninu. Síðustu tvö ár hefur safnið unnið að verkefninu Saga laxveiða í Borgarfirði sem hlaut öndvegisstyrk frá Safnasjóði Íslands sem og aðra styrki frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands og nokkrum borgfirskum veiðifélögum.

Verkefnið er viðamikið og snýr að því að safna, varðveita, rannsaka og miðla sögu laxveiða í héraðinu. Unnið er að því að afla muna, ljósmynda, frásagna og annarra gagna sem mun vera miðlað í gegnum meðal annars útgáfu greinasafns, viðtala, kennsluefnis og að lokum sýningu sem fyrirhugað er að opni í upphafi ársins 2025. Árið í ár verður því viðburðaríkt í undirbúningi nýrrar sýningar en einnig er stefnt að því að hafa nokkra aðra viðburði á vegum Landbúnaðarsafnsins. Þar má nefna að nú í sumar mun safnið, í samstarfi við Fergussonfélagið, hafa þrjá opna daga þar sem Fergussonfélagar sinna viðhaldi véla og miðla fræðslu til gesta safnsins. Tilgangurinn er að auka upplifun fólks á safninu með því að hafa á svæðinu sérfróða menn sem geta miðlað af reynslu og þekkingu sinni á vélunum. Með þessu er einnig hugmyndin að auka við tengingu safnsins við Fergussonfélagið sem hefur sinnt viðhaldi safnkostsins í sjálfboðaliðastarfi sem er gríðarlega mikilvæg búbót fyrir safnið og safnkost þess.

Landbúnaðarsafn Íslands er opið fimmtudaga–laugardaga á milli kl. 13–17 en á sumrin (15. maí til 15. september) er safnið opið alla daga kl. 11–17. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu safnsins (www.landbunadarsafn.is).

Verið velkomin á Hvanneyri!

Feðgar frá Ferjukoti með lax.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 13. janúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn stígur gætilega til jarðar þessi fyrstu skref ársins, uppfullur forv...

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...

Álft
Líf og starf 8. janúar 2025

Álft

Álft er stærsti fuglinn okkar. Fullorðin álft getur orðið 10 kg og vænghafið 2,2...

„... Heimsins þagna harmakvein ...“
Líf og starf 7. janúar 2025

„... Heimsins þagna harmakvein ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Jóhannesi úr Kötlum.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...