Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf í Eyjafirði, er afar ánægður með afraksturinn í kornræktinni í sumar.
Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf í Eyjafirði, er afar ánægður með afraksturinn í kornræktinni í sumar.
Mynd / HKr.
Líf og starf 13. september 2021

Bóndinn á Klauf með allt að 8 tonn af byggi á hektara

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf í Eyjafirði og stjórnar­maður í Bændasamtökum Íslands, hefur aldrei hefur fengið meiri kornuppskeru á hvern hektara en á þessu sumri. Her­mann hefur því full tilefni til að brosa út í bæði með frá 6 og allt upp í 8 tonn af byggi á hvern hektara samanborið við 3,5 tonn að meðaltali í fyrra.

Hermann segist hafa verið með um 20 til 25 hektara undir kornrækt síðustu ár en er nú búinn að þreskja af um 8 hekturum. Hann er samt búinn að fá meiri uppskeru af þessum 8 hekturum nú en fékkst af 25 hekturum í fyrra.

Tíðindamaður Bændablaðsins kom við hjá Hermanni þar sem unnið var við að þreskja korn laugardaginn 28. ágúst. Sagðist hann þá vart vera hálfnaður með kornskurðinn. Hafði hann þann háttinn á að velja spildur til þreskingar eftir þurrkstöðu á korninu til að það væri sem þurrast fyrir þurrkarann.

„Við erum með þurrkara hér úti á Hjalteyri sem annar ekki nema um 10-15 tonnum á dag. Sennilega munum við fá um 400 tonn sem við þurfum að fara með í gegnum þurrkarann. Vonandi helst tíðin svona þannig að við náum þessu vel þurru af ökrunum.“

Gamla þreskivélin hans Jóns Elfars Hjörleifssonar, bónda á Hrafnagili, vann sitt verk af mikilli seiglu undir dyggri stjórn Hreiðars Fannars Víðissonar.

Margfalt meiri uppskera í ár og í takti við það sem þekkist í Evrópu

„Uppskeran er margföld miðað við það sem við höfum verið með, bæði hvað varðar gæði kornsins og magn á hvern hektara. Það hefur verið um og yfir 6 tonn á hektara og hefur meira að segja farið upp í 8 tonn. Afraksturinn á síðasta ári var um 3,5 tonn á hektara að meðaltali sem þótti bara ágætt.“

Uppskeran í ár er mjög áhuga­verð hvað Ísland varðar og ekki ósvipuð því sem þekkist í Frakklandi, Þýskalandi og Póllandi. Samkvæmt tölum Evrópu­sambandsins hefur langtíma meðaltalið af byggrækt í ESB löndunum verið um 6,4 tonn á hektara, en meðaltalið var 7 tonn árið 2018 og 7,4 tonn á árinu 2019. Þá er mismunandi hvort verið er að tala um „vetrarbygg“ eða „sumar­bygg“, en vetrarbyggið gaf 9,1 tonn á hektara 2019 og hífði þá upp meðaltalið, á meðan sumarbyggið gaf ekki nema 6,6 tonn á hektara.

Mun meiri korngæði en áður

„Sem dæmi um gæði, þá er fyrsti flokkur í rúmþyngd um 600 grömm, en það hefur farið upp í 730 grömm hjá okkur. Það má því segja að þetta sé stjarnfræðilega gott,“ segir Hermann, sem er greinilega kampakátur með árangurinn.“

Mjög gaman og gefur aukinn kraft og veitir innblástur

– Það er þá gaman að vera kornbóndi í dag?
„Já, svo sannarlega og veðrið hefur leikið við okkur í júlí og ágúst með sól og blíðu upp á hvern einasta dag. Þetta er því mjög gaman og gefur manni aukinn kraft og veitir innblástur til að prófa eitthvað nýtt. Nú snýst þetta mikið um að halda þreskivélunum gangandi, en þær eru komnar til ára sinna. Sem stendur er mín vél biluð en Jón Elvar Hjörleifsson á Hrafnagili hljóp undir bagga og lánaði mér sína vél. Þannig hjálpumst við að, en þetta eru ekki afkastamiklar vélar og því þarf að hafa sig allan við.“

Byrjað að þreskja mánuði fyrr en á síðasta ári

„Við byrjuðum að þreskja 20. ágúst, nákvæmlega mánuði fyrr en á síðasta ári þegar byrjað var 20. september. Þetta sumar er búið að vera alveg með ólíkindum og við höfum heldur aldrei gert það áður að ná fullþurrum hálmi af akri um leið og verið er að þreskja – og það í ágúst!“

Það er trúlega ekki mjög algengt hér á landi að hægt sé að þreskja korn og þurrka hálm þannig að hann verði nægilega þurr til að hægt sé að rúlla honum strax eftir þreskingu.

Einstakt tíðarfar en það vantar úrkomu fyrir grassprettuna

Hermann segir að þótt tíðarfarið hafi verið einstakt fyrir kornræktina, þá hafi heyskapur oft verið meiri. Þar hafi vantað úrkomu til að fá meiri grassprettu.
„Það er allt orðið skraufþurrt og sem dæmi þá er ég með kvígur á beit hér í fjallinu og maður þarf að fara að brynna þeim þar sem vatn er eiginlega allt að verða búið í fjallinu. Þannig að ef það fer ekki að rigna bráðum gætum við lent í svolitlu veseni þar sem vatnsból gætu farið að þorna upp.“

Aukin arðsemi fæst með kornrækt á Íslandi

Mikill áhugi er fyrir aukinni ræktun á fóðurkorni hér innanlands, sérstaklega fyrir kýr og svín. Íslenskt veðurfar er hins vegar æði misjafnt og lítt hægt að stóla á útkomuna eins og auðveldara er þar sem meginlandsloftslag ríkir.

Hermann segir að framleiðsla á fóðurkorni sé tvímælalaust hagkvæm fyrir íslenska kúabændur. Samkvæmt rekstrargreiningu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins séu hagkvæmustu búin að eyða 20 krónum í kjarnfóðurkaup til framleiðslu á hverjum mjólkurlítra.

„Allt kornið sem við framleiðum nýtum við sjálf í kjarnfóður, við seljum ekkert frá okkur. Ég tók það saman fyrir okkar bú að kostnaðurinn í kjarnfóðurkaup hjá okkur er 16 krónur á hvern mjólkurlítra. Síðan seljum við líka hálm auk þess sem jarðræktarstuðningurinn dekkar kostnaðinn við kornræktina. Þetta er því klárlega að borga sig og menn þurfa að fara að skoða þetta betur.
Auðvitað er þetta gríðarleg vinna og menn þurfa virkilega að vera á tánum til að kornrækt hér á landi gangi upp. Það tekur líka alltaf nokkur ár að ná tökum á þessu. Ef menn hafa smá þolinmæði og gefast ekki upp þó illa geti árað, þá borgar þetta sig,“ segir Hermann.

Betri yrki skapa mikla möguleika

„Við erum alltaf að fá betri og betri yrki sem gefa okkur meiri uppskeru og eru tryggari og fyrr tilbúin á haustin. Kornrækt nú er því ekkert eins og hún var fyrir svona 15 árum síðan þegar kornið var ekkert að þroskast fyrr en í lok september og lagðist á hliðina í smá rigningum og vindi.

Yrkin eru því alltaf að skána en það þarf þó auðvitað að halda áfram að bæta þau. Þarna eru miklir möguleikar, bæði í byggi og hveiti sem og höfrum og repju. Við höfum því öll þau tækifæri sem við viljum, við þurfum bara viljann til að framkvæma því þetta er allt mikil vinna.“

Grettir Hjörleifsson, bóndi á Syðra-Laugalandi, er stór verktaki sem þjónustar bændur í Eyjafirði. Hann var mættur á akurinn hjá Hermanni á stórri Fendt dráttarvél til að rúlla hálminum.

Eykur tvímælalaust sjálfbærni og sparar gjaldeyri

– Þú vilt þá meina að kornrækt geti spilað stóran þátt í að auka sjálfbærni í íslenskum kúabúskap?
„Það er engin spurning. Þú sérð til dæmis hálminn sem við erum að rúlla hér. Við getum aukið verðmæti hans gríðarlega ef við bara nennum því. Við eru að flytja inn undirburð undir kýr í landinu fyrir hundruð milljóna króna á hverju ári. Ef við myndum fullvinna þennan hálm, þá getum við bæði sparað gjaldeyri og aukið tekjurnar af kornræktinni. Möguleikarnir eru því óendanlegir,“ segir Hermann Ingi Gunnarsson.

Skylt efni: kornrækt | bygg | Klauf

Búverk og breyttir tímar
Líf og starf 19. september 2024

Búverk og breyttir tímar

Búverk og breyttir tímar er ný bók eftir Bjarna Guðmundsson, áður prófessor við ...

Tjöldin dregin frá
Líf og starf 18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Áhugaleikhúsin fara nú að hefja leikinn enda haustið að skella á. Mikið verður u...

Korkubikarinn féll í hlut nýliðans Kríu
Líf og starf 17. september 2024

Korkubikarinn féll í hlut nýliðans Kríu

Helgina 24.–25. ágúst sl. fór Landskeppni Smalahundafélags Íslands, SFÍ, fram að...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 16. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að taka sig taki og gæta þess að velta sér ekki um of upp úr ra...

Nýting hrats og hýðis
Líf og starf 16. september 2024

Nýting hrats og hýðis

Heilmikið fellur til árlega af ávaxta- og grænmetshýði og nú sérstaklega berjahr...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Nú eru síðustu hátíðir sumarsins, eða öllu heldur haustsins, að líta dagsins ljó...

Ullarvika á Suðurlandi
Líf og starf 11. september 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi er nú haldin í þriðja sinn. Að Ullarvikunni standa Feldfj...

Sandlóa
Líf og starf 11. september 2024

Sandlóa

Sandlóa er ein af tveimur lóutegundum sem verpa hér. Stóru frænku hennar, heiðló...