Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 30. október 2019
Vilja stuðning við smáframleiðslu og verndun vistkerfa
Höfundur: smh
Good food Good farming (Góður matur, góður landbúnaður) er grasrótarhreyfing sem starfar í Evrópu og stendur fyrir árveknidögum í október í kjölfar kosninga til Evrópuþings í vor.
Nýs þings bíður endurskoðun sameiginlegrar landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP) og vill hreyfingin með aðgerðum sínum á árveknidögunum hafa áhrif til betri vegar fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu í Evrópu.
Smáframleiðsla og dreifbýlisuppbygging
Þetta er annað árið í röð sem þessi Evrópuhreyfing lætur að sér kveða, en hreyfingin samanstendur af 300 evrópskum samtökum sem nú standa fyrir uppákomum í meira en 15 löndum um alla Evrópu. Slow Food Europe er í þessum hópi og tekur þátt í skipulagningu meira en 15 viðburða vítt og breitt um Evrópu í þágu málstaðarins.
Í tilkynningu frá Slow Food Europe kemur fram að tilgangurinn með þessu samstillta átaki sé að krefjast þess að við stefnumótun fyrir matvælaframleiðslu í Evrópusambandinu verði innleiddar nýjar áherslur sem styðji við smáframleiðslu bænda og dreifbýlisuppbyggingu, verndun jarðvegs, vatns, vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni.
Slow Food-snigillinn.
Skilaboðum komið til þingmanna í Strasbourg
Á árvekniviðburðunum var skilaboðum safnað saman frá þátttakendum í formi póstkorta, þar sem óskum um betri landbúnaðarhætti og matvælaframleiðslu er komið á framfæri. Þeim var síðan dreift til þingmanna Evrópuþingsins á fundi þeirra í Strasbourg síðastliðinn þriðjudag.
Þess er að vænta að Evrópuþingið og þjóðþing Evrópusambandslandanna muni á næstunni taka afgerandi ákvarðanir um framtíð hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu.