Vilja borga afurðastöðvum fyrir geymslu neyðarbirgða
Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.
Í henni er lagt til að atvinnuvegaráðherra verði falið að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2026 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.
Í tillögunni er komið fram með hugmynd að fyrirkomulagi með inngripi ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum og framleiðendum til að tryggja birgðahald.
„Á sama tíma og afurðastöðvar/ framleiðendur fengju greitt geymslugjald fyrir ákveðið magn afurða mættu þeir ekki afsetja þær vörur á markaði á sama tíma.“
Þingsályktunartillagan er endurflutt en hún hefur tvisvar áður verið lögð fram.