Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þorkell Guðbrandsson og Guðrún Jónasdóttir á sólpallinum við Furumel.
Þorkell Guðbrandsson og Guðrún Jónasdóttir á sólpallinum við Furumel.
Viðtal 26. ágúst 2024

Vaknaðu Brandur, Melur er kominn á sölu

Höfundur: Bryndís Sigurðardóttir

„Brandur, Brandur, vaknaðu maður, Melur er kominn á sölu.“ Það var Olli, Þorkell Guðbrandsson, sem þarna var að koma úr partíi í sláturtíðinni í Borgarnesi og æstur reyndi að vekja stóra bróður, Guðbrand Guðbrandsson, til lífsins þegar hann uppgötvaði að jörðin sem þeir bræður hefðu verið að sverma fyrir væri loksins orðin föl.

Þetta var haustið 1971 og Olli aðeins 19 ára en svo sannarlega til í að verða bóndi. Brandur, sem orðinn var 24 ára, var ráðsettur heimilisfaðir í Borgarnesi, kvæntur æskuástinni sinni, henni Jónu Jóns, og á þessum tíma voru komin tvö lítil börn í kotið, þau Áslaug og Úlfar. Það varð uppi fótur og fit og pabbi gamli, Guðbrandur Magnússon, fengin í samningagerð við Guðrúnu Guðmundsdóttur á Mel, sem var komin um nírætt og bjó þar ásamt Aðalsteini Péturssyni, syni sínum, en hann var kominn yfir sjötugt og fluttu þau bæði á Dvalarheimilið í Borgarnesi.

Skemmst er frá því að segja að samningar við þau mæðgin tókust, enda Guðbrandur eldri annálaður samningamaður, og á vordögum 1972 fluttu þeir bræður ásamt búaliði í gamla íbúðarhúsið á Mel, það var um það bil 87 fermetrar. Frá rúmruskinu góða sem áður er nefnt hafði einn ungi bæst í hópinn hjá Brandi og Jónu því Guðrún Steinunn skaust í heiminn 14. maí 1972, nóttina fyrir daginn sem þeir tóku við Melnum. Olla hafði tekist að krækja í 16 ára bráðfallega yngismey, Guðrúnu Jónasdóttur, sem að mestu hafði slitið barnsskónum á Grenjum í næstu sveit, steinsnar frá Álftá þar sem Olli hafði alist upp frá fimm ára aldri. Kunnugir gera sér svo grein fyrir að Melur er svo líka í sömu sveit.

Nýju bændurnir á Mel. Þarna er hundurinn Glámur, með hjónin Guðbrand Guðbrandsson og Jónu Jónsdóttur sér á vinstri hönd og hárprúði ungi maðurinn er Þorkell Guðbrandsson. Dökkhærða barnið er Áslaug Guðbrandsdóttir og það ljóshærða Úlfar Guðbrandsson

Þröng á þingi en samkomulagið gott

Ráðsetta fjölskyldan, Brandur og Jóna, fengu aðstöðu í gamla eldhúsinu á Mel og stærra herbergið á efri hæðinni. Þar var pláss fyrir þau hjón og þrjú börn en sennilega hefur herbergið þó ekki verið stærra en 15 fermetrar. Fyrir unga parið var útbúið lítið eldhús á neðri hæðinni og svo fengu þau minna herbergið á efri hæðinni fyrir sig, þar var hægt að koma fyrir tvíbreiðu rúmi sem var 120 cm og með naumindum var hægt að koma fyrir barnarúmi líka, sem kom sér vel því frumburður þeirra hjóna, Guðbrandur, kom í heiminn í desember ári seinna.

Tíu mjólkandi

Fjósið á Mel var ekki stórt og í fyrstu aðeins pláss fyrir átta mjólkandi kýr og allar voru þær handmjólkaðar en fljótlega var hægt að bæta við tveimur kusum þegar úr vatnsmálum leystist en þannig háttaði til að í fjósinu þurfti að vera söfnunartankur fyrir vatn þegar brunnurinn gaf illa.

„Þarna voru þær Melkorka, Dimma, Fífa frá Fíflholtum og svo tvíburarnir Blíðrós og Sumarrós,“ segir Olli dreyminn en í þá daga fengu gripirnir nafn en ekki bara númer eins og nú tíðkast. Fljótlega var hafist handa við byggingu á nýju 30 kúa fjósi með mjaltakerfi og var það tekið í notkun árið 1975. Þá hafði reyndar færst enn meira fjör í leikinn því Olli og Guðrún höfðu bætt við einum dreng, Jónasi, sem fæddist í mars 1975.

Eins og sumarstúlkan fékk að kynnast var erfitt með vatnið á Mel, þurfti hún stundum að fara á Dontanum með mjólkurbrúsa á Dontakerrunni og ausa vatninu með fötu upp úr ánni í brúsana. En þessi sumarstúlka er sú stúlka sem ber ábyrgðina á þessum skrifum.

Því réðust bræðurnir í það haustið 1975, þegar nýja fjósið var tekið í notkun, að leggja vatnsveitu ofan frá Svarfhólsmúla. Veitan varð upphaf að Vatnsveitu Hraunhrepps sem var síðan árið 1980 plægð áfram niður um alla sveit. Var það gríðarlega góð framkvæmd, því að þótt Mýrarnar séu blautar var mjög erfitt með neysluvatn á bæjunum. „Þetta er það eina sem er utan kvóta,“ er haft eftir Brandi á Mel um barneignir og niður hlóðust börnin, Bjargey Anna fæddist 1976 og Gunnhildur í febrúar 1978 hjá Brandi og Jónu og þá var orðið nokkuð ljóst að til aðgerða þurfti að grípa.

Brandur og Jóna tóku á leigu næstu jörð, Staðarhraun, sem var ríkisjörð og hafði verið í eyði í nokkur ár og þar engar nýtilegar byggingar. Árið 1978 var byrjað að byggja íbúðarhús fyrir þeirra fjölskyldu og fluttust þau að Staðarhrauni fyrir jólin 1979, áfram ráku þau samt saman félagsbúið á Mel. Fljótlega var byrjað á fjárhúsbyggingu á Staðarhrauni og flutti Brandur með kindurnar 1985 en fáum árum seinna með kýrnar og sameiginlegum búrekstri þessara samheldnu fjölskyldna þar með lokið. „En það var alltaf afar gott samkomulagið hjá okkur og aldrei féll styggðaryrði milli Guðrúnar og Jónu, en við bræður vorum ekki alltaf sammála, eins og gengur með bræður,“ segir Olli. „Börnin voru dugleg að leika sér saman,“ segir Guðrún og þau eru sammála um að lífið hafi verið gott þó þröngt hafi verið setið á Mel.

Það eru þrír kílómetrar á milli bæjanna, Mels og Staðarhrauns, og hlupu börnin oft þar á milli eftir að Brandur og Jóna fluttu. Jóna lést eftir skammvinn veikindi árið 2020, Guðbrandur brá þá búi og flutti í Borgarnes.

Það er mörg búmannsraunin. Hér eru þau hjón, Guðbrandur og Jóna, í búreikningum á Staðarhrauni.

Ætlaði ekki að búa í sveit

Guðrún, sem er þriðja yngst þrettán systkina og alin upp í sveit, ætlaði nú ekkert að verða bóndi. „En ég hélt að hann yrði svo leiður ef ég vildi ekki koma í sveitina,“ segir hún og þar með voru örlög hennar ráðin. Olli, sem eins og Guðrún á mörg systkini, er næstyngstur af tólf. Foreldrar Guðrúnar voru Jónas Gunnlaugsson frá Hrísdal í Miklaholtshreppi og Guðveig Guðmundsdóttir frá Flesjustöðum í Kolbeinsstaðahreppi en foreldrar Olla og Brands voru Bjargey Guðmundsdóttir frá Syðstu-Görðum í Kolbeinsstaðahreppi og Guðbrandur Magnússon frá Hallkelsstaðahlíð í sömu sveit.

Nýbygging á Mel

Árið 1984 var tilbúið nýtt íbúðarhús á Mel enda gamla húsið orðið ansi lélegt og þá var lag að stækka fjölskylduna. Gunnar fæddist árið 1979 og engin ástæða til að hætta barnaframleiðslunni enda bráðgerir drengir þessi þrír sem voru fæddir voru fyrir, Guðbrandur, Jónas og Gunnar. 1983 fæðist Rögnvaldur, 1985 Þórey, 1989 Þóroddur, 1991 Ágúst og 1993 kom svo Eva Sóley. Nú voru börnin orðin átta og ákvörðun tekin um að nóg væri komið. Svona í framhjáhlaupi má nefna að á Staðahrauni hjá Brandi og Jónu voru líka komin á þessum tíma átta börn, til viðbótar við þau sem áður voru upptalin voru Jón Guðlaugur, Hugrún Lukka og Jóhannes mætt og allt er þetta fyrirmyndarfólk.

Það var í nógu að snúast hjá húsfreyjunni á Mel, með átta börn sem gæta þurfti að og þá erum við að tala um allar vaktir, nútildags þriðju, fjórðu og jafnvel fimmtu. Það er verkefni að láta átta grislinga lesa og reikna, passa upp á sundföt og íþróttaföt, eiga til útigalla, ullarsokka og endurnýja vettlinga sem alltaf eru að týnast. Koma þeim í skólarútu, búa um í heimavist þegar það átti við og snýta og skeina eftir þörfum, svo ekki sé talað um að næra allan hópinn svo vel sé.

Hugsanlega ekki framtíðin sem hin unga Guðrún Jónasdóttir sá fyrir sér þegar hún fylgdi kærastanum á Mel. „Ég hefði kannski viljað læra trésmíði,“ segir hún aðspurð um hugsanlega drauma um menntun en ekki er að sjá nokkra eftirsjá. Guðrún er mikil hagleikskona, prjónar, skreytir kerti, smíðar úr silfri og hér á árum áður saumaði hún á börnin.

Þegar um hægðist og börnin komin til manns fór Guðrún að vinna á leikskóla í Borgarnesi við góðan orðstír en hætti störfum árið sem hún varð 67 ára og fannst kominn tími á annað en brauðstritið. Olli hefur um árabil unnið á vinnuvélum meðfram bústörfum og tekur enn í vélarnar þegar vantar í nágrenninu.

Melur um það leyti þegar nýju eigendurnir tóku við búrekstrinum og fluttu með manni og mús.

Byggðu nýtt hús í skóginum

Nú eru þau hjón sest í helgan stein, Þórey dóttir þeirra hefur ásamt manni sínum, Sigurjóni Helgasyni frá Austvaðsholti í Landsveit, tekið við búskapnum á Mel. Þorkell og Guðrún hafa byggt annað hús fyrir sig í skógarlundi í landi Mels sem þau fluttu í árið 2009. Þar hafa líka synir þeirra, Jónas og Rögnvaldur, byggt sér hús og búa þar með fjölskyldum sínum.

Það er því mikill samgangur og oft glatt á hjalla hjá Melsurum eins og þau kalla sig, enda barnabörnin 22 og barnabarnabörnin orðin tvö. Jólaboðið og þorrabót Melsara er haldið á heimili þeirra Guðrúnar og Olla en hápunkturinn eru Melsleikar sem haldnir eru á hverju sumri. Hlaupið í skarðið, Yfir og aðrir gamlir og góðir útileikir eru teknir til kostanna og Melsarar taka viðburðinn alvarlega, skipt er í tvö lið og þau merkt með sérhönnuðum bolum og í lokin eru afhentir bikarar fyrir góða frammistöðu og reyndar líka skammarverðlaun þegar það á við. Verðlaunagripir skreyta hillur þessarar elstu kynslóðar Melsara en þar má líka finna skammarverðlaun.

Ánægð og hlakka til næstu ára

„Við erum mjög sátt hérna í skóginum, okkur hefur verið gefið afskaplega mikið,“ segja þau. Húsið þeirra heitir Furumelur og sitt til hvorrar handar eru synirnir Rögnvaldur á Reynimel og Jónas á Birkimel með sínar fjölskyldur og stutt til Þóreyjar.

„Lífið hefur verið okkur gott, ég mæti á fjalirnar þegar leikfélagið kallar,“ segir Olli en hann hefur verið afar liðtækur hjá leikfélaginu og sama má segja um afkomendur þeirra sem kunna vel við sig á sviði. „Svo er ég í tveimur kórum,“ segir hann og augljóslega „helsáttur“ eins og unga fólkið segir. Guðrún hefur nú nógan tíma í handverkið og opinberar draum sinn um húsbíl svo hægt sé að ferðast um landið. Hver skyldi nú hafa séð það fyrir að þessir ungu bræður, Olli og Brandur, sem upp úr miðri síðustu öld fylgdu draumum sínum, hefðu síðan þá margfaldað sig mörgum sinnum og framleitt matvæli fyrir landann í ómældu magni? Ef þeir, og spúsur þeirra, geta ekki horft stolt um öxl, hver getur það þá?

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt