Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sigríður Huld fékk eitt sinn það verkefni að mála málverk eftir gamalli ljósmynd af tveimur eldri bændum og gömlum Willys-jeppa. Það verk heitir Afarnir og segir hún að það hafi verið einkar gaman að mála það.
Sigríður Huld fékk eitt sinn það verkefni að mála málverk eftir gamalli ljósmynd af tveimur eldri bændum og gömlum Willys-jeppa. Það verk heitir Afarnir og segir hún að það hafi verið einkar gaman að mála það.
Mynd / Úr einkasafni Sigríðar Huldar Ingvarsdóttur
Viðtal 21. desember 2018

Íslenska sveitin veitir mér innblástur í listsköpuninni

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Íslenska sveitin hefur undanfarin ár veitt mér mikinn innblástur í listinni. Náttúran er engu lík, íslenski hesturinn hefur ævinlega verið mér ofarlega í huga en nú í ár hef ég í æ meira mæli unnið verk sem tengjast íslensku sauðkindinni,“ segir Sigríður Huld Ingvarsdóttir listamaður, sem býr í Uppsala í Svíþjóð en ólst upp í Hlíðskógum í Bárðardal. Hún segist vera heppin að geta haft listina að aðalstarfi, en meðal þess sem hún leggur fyrir sig er að mála myndir af dýrum fyrir fólk. 
 
Foreldrar Sigríðar Huldar ráku sauðfjárbú að Hlíðskógum í Bárðardal, þau áttu einnig nokkra hesta og örfáar kýr þegar hún var mjög ung að árum.
 
„Ég er algjört náttúrubarn og það má líka skilgreina mig sem dýrasjúka, mér leið alltaf best þegar ég var hlaupandi um berfætt í sveitinni að bralla eitthvað með hundinum eða á hestbaki og að teikna. Það voru mínar bestu stundir,“ segir hún. Og bætir við að hún hafi  frá unga aldri stefnt að því að verða listamaður, bóndi eða starfa við eitthvað sem tengist dýrum. 
 
„Mamma er mjög listræn og afasystir mín, Ragna Hermannsdóttir, var listamaður sem ég leit upp til,“ segir Sigríður Huld. 
 
Þokki átti erfitt uppdráttar í bænum
 
Að loknu grunnskólanámi hóf hún nám á listanámsbraut Verk­menntaskólans á Akureyri. Umskipti urðu í lífi fjölskyldunnar á þeim tímapunkti, en foreldrar hennar seldu jörð sína að Hlíðskógum og fluttu til Akureyrar. 
 
„Þar með fauk eiginlega bóndadraumurinn út um gluggann,“ segir hún en mjög erfitt hafi verið að flytja búferlum af æskuslóðum og setjast að á mölinni þó vissulega hafi munað um að geta áfram búið í foreldrahúsum meðan á framhaldsskólanámi stóð og fyrir það sé hún þakklát. „Við tókum nokkra hesta með okkur í bæinn og það auðveldaði mér flutninginn,“ segir hún en í hópnum var hestur hennar, Þokki.
 
„Hann átti frekar erfitt uppdráttar í bænum, bar enga virðingu fyrir girðingum, hliðum og lokuðum hurðum þannig að lögregla þurfti á stundum að hafa af honum afskipti. Úr varð að betur færi á að flytja hann aftur í Bárðardal og vinkona mín, Anna Guðný Baldursdóttir, sem nú er bóndi á Eyjardalsá, tók hann í fóstur. Ég hef því tækifæri til að heimsækja hann á sumrin og bregða mér á hestbak.“
 
Fyrsta einkasýningin í gömlu heimasveitinni
 
Eftir stúdentspróf frá VMA stundaði Sigríður Huld nám við Myndlistaskólann á Akureyri. Sumarið eftir útskrift úr skólanum bauðst hanni að hengja upp nokkur verk í Kiðagili í Bárðardal þar sem rekin er ferðaþjónusta. 
 
„Það má eiginlega segja að ég hafi haldið mína fyrstu einkasýningu í gömlu sveitinni minni,“ segir hún en sama sumar kynntist hún manni sínum, Kára Sveinbjörnssyni, sem var þá um haustið að flytja til Svíþjóðar til að stunda þar meistaranám við Uppsala-háskóla. Sjálf vann hún í verslun á Akureyri þann vetur og stundaði list sína með til hliðar. Annað kom svo ekki til greina en elta ástina út til Svíþjóðar og sótti hún um nám við The Swedish Academy of Realist Art í Stokkhólmi. 
 
„Þetta er einkaskóli, skólagjöldin há, þannig að ég seldi nánast allan fataskápinn minn og bætti við mig vinnu,“ segir hún og var himinsæl með að komast inn í skólann.
 
„Það var spennandi fyrir mig að flytja til útlanda en jafnframt svolítið stressandi líka. Kári var þegar kominn út og ég hafði heimsótt hann nokkrum sinnum, svo ég var ekki alveg ein og ókunnug í nýju landi,“ segir Sigríður Huld sem kunni strax vel við sig hjá frændum okkar Svíum. Námið var eins og draumur segir hún, en í skólanum var verið að kenna tæknina á bak við það að mála og teikna raunsætt, líkt og gömlu meistararnir gerðu. 
 
„Þetta er strangt nám og mikið handverk, það var bannað að notast við ljósmyndir, heldur átti að vinna allt út frá raunveruleikanum, en markmiðið var að kenna nemum að mála hlutina eins og maður sér þá.“
 
Kenndi hér og þar í tvö ár
 
Fljótlega eftir útskrift úr skólanum var starfsemi hans flutt til suðurhluta Svíþjóðar, Simrishamn á Skáni. Þannig háttaði til að einn nemandinn hafði ekki tök á að flytja með, svo sá hinn sami réð Sigríði Huld sem sinn einkakennara. Næstu tvö ár eftir brautskráningu sinnti hún kennslu og fór á nánast hverjum degi á milli Uppsala og Stokkhólms, sem er um eins og hálfs tíma ferð en gat einnig unnið að sínum eigin verkum samhliða. Einnig fór hún suður á Skán og kenndi við skólann sem og kenndi hún á kvöldnámskeiðum í Stokkhólmi. 
 
„Eftir tveggja ára þeyting milli staða ákvað ég að nóg væri komið, tók pásu í kennslunni og hef helgað mig listinni heima hjá mér í Uppsölum,“ segir hún.
 
Sigríður Huld hefur öll sín ár í Svíþjóð farið heim til Íslands yfir sumarið og unnið í versluninni Bakgarðurinn sem nú er við hlið Jólagarðsins í Eyjafjarðarsveit. Síðastliðið sumar ferðaðist hún með 56 kíló með sér, en þá hélt hún tvær sýningar á verkum sínum hér á landi. 
 
„Listin er mitt aðalstarf, ég er mjög heppin að hafa svo góðan stuðning að það gangi upp að ég einbeiti mér alfarið að henni,“ segir hún. „Það er ekki sérlega auðvelt að byggja upp starfsferil sem myndlistarkona, í því liggur mikil vinna og gróðinn er ekki ýkja mikill fyrsta kastið. Fæstir gerast listamenn til að verða ríkir. Það er gríðarleg vinna á bak við það að starfa við listsköpun og að mörgu þarf að hyggja, þetta er stanslaus vinna. Það er ekki bara listsköpunin sjálf, heldur þarf einnig að huga að markaðssetningu, eiga samskipti við viðskiptavini, verðleggja verkin sín, sækja um styrki og sýningarrými, það er af nógu að taka. Þetta er raunar eins og að reka fyrirtæki, mikið hark en algjörlega þess virði. Stundum er þetta frekar einmanalegt starf, ég eyði löngum stundum ein á minni vinnustofu, ég hugsa að ef við hefðum ekki fengið okkur hund fyrir tveimur árum væri ég líkast til orðin enn skrítnari en ég er!“ segir Sigríður Huld.
 
Íslenska sveitin veitir innblástur
 
Hún segir að undanfarin ár hefði íslenska sveitin veitt sér mikinn innblástur í sinni listsköpun. 
 
„Það var ekki fyrr en ég flutti til útlanda að ég uppgötvaði að mitt uppeldi var aðeins öðruvísi en gengur og gerist hér um slóðir. Þegar ég fór að rifja upp atburði úr minni æsku fannst fólk eins og ég hefði alist upp í ævintýraheimi á öðrum tíma. Sveitin fyrir norðan var svo gjörólíkur heimur miðað við stórborgir nútímans að á milli var himinn og haf,“ segir Sigríður Huld. Hún bætir við að náttúran á Íslandi sé engu lík og að íslenski hesturinn hafi alltaf verið ofarlega í huga sér. Hún hefur mikið nýtt sér góðvild vinkvenna sinna sem hafa setið fyrir á myndum, lánað hesta sína og sig sjálfar í módelstörfin. 
 
„Ég hef undanfarið unnið mikið með ljósmyndir og hef teiknað og málað ófáar myndir af hestum fyrir fólk, það er mikið um pantanir af því tagi hjá mér. 
 
„Ég reyni eftir bestu getu að mála einmitt það dýr sem myndin er af, stundum fæ ég reyndar fleiri en eina mynd að vinna með. Það hefur komið fyrir að eigandi dýrsins hafi brostið í grát þegar hann fær myndina í hendurnar, það held ég að séu einlægustu viðbrögð sem listamaður getur fengið.“
 
Sigríður Huld fékk eitt sinn það verkefni að mála málverk eftir gamalli ljósmynd af tveimur eldri bændum og gömlum Willys-jeppa. Það verk heitir Afarnir og segir hún að það hafi verið einkar gaman að mála það. Verkið fékk hún lánað til að hafa á sýningu í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík á liðnu sumri en gömlu mennirnir bjuggu í Svarfaðardal og margir sem þekktu þá.
 
Dáleiðandi að mála ullina
 
„Eftir að ég málaði þetta verk fékk ég þá hugmynd að fara í gegnum öll gömlu myndaalbúmin hjá foreldrum mínum. Það sem greip mig við þá iðju voru gamlar myndir af sauðfé, nostalgían helltist yfir mig og löngun til sveitarinnar. Upp frá því hef ég málað margvísleg verk þar sem sauðfé er í aðalhlutverki, en ég leitast alltaf við að ná fram tilfinningunni fyrir andrúmsloftinu í mínum verkum,“ segir Sigríður Huld. Henni datt eitt sinn í hug að taka upp gæruskinn sitt, smellti því á vinnuborðið og málaði eftir því. 
 
„Ég hafði áður notast við gærur, en þá sem aukaatriði í portrettmyndum af konum, til að fá smá valkyrjuþema inni í myndirnar. Það er næstum dáleiðandi að mála ullina. En eins og oft gerist leiðir eitt af öðru og nú er ég komin með heila seríu af myndum sem ég kalla Gærur, en þetta er  mín leið í átt að meira abstrakt raunsæi í mínum verkum,“ segir hún.
 
Áhugasamir geta kynnt sér verk Sigríðar Huldar nánar á heimasíðu hennar www. www.huldfineart.com, en hana er einnig að finna á Facebook og instagram.

11 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt