Ekkert er vitað um stöðu fráveitumála á Þingvöllum
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vinnur nú að áhugaverðu verkefni í samstarfi við fleiri stofnanir og undir forystu Umhverfis- og orkustofnunar, sem kallast „Icewater“ en það gengur út á að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Icewater-verkefnið hlaut nýlega um 3,5 milljarða í styrk frá „LIFE áætlun“ Evrópusambandsins og er þetta einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er hluti af verkefninu og fékk fjármagn sem gengur út á skráningu á ástandi fráveitumála við hús á verndarsvæði Þingvallavatns, en um það gilda strangari reglur en almennt gerist til að tryggja eins og kostur er þetta einstaka náttúrufyrirbæri sem vatnið er og m.a. tryggja tærleika þess til framtíðar.
Um 100 hús eru nær vatnsbakkanum en 50 metra og hafa eigendur þessara húsa fengið bréf þar sem farið er fram á skráningu upplýsinga um ástand fráveitu og ef þarf að fara í úrbætur þá er bent á leiðbeiningar þar að lútandi. Nú í ágúst verður svo haft samband við lóðarhafa í 50 til 500 metra fjarlægð frá vatninu. Margrét Rós Sigurjónsdóttir er verkefnisstjóri verkefnisins fyrir hönd Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Hún svaraði nokkrum spurningum.
Hver eru helstu markmiðverkefnisins?
„Þegar kemur að Þingvallavatni er markmiðið að fá yfirsýn yfir fráveitumál á svæðinu og sjá til þess að reglum um fráveitu á svæðinu sé fylgt og þannig tryggja áframhaldandi vernd vatnsins. Þingvallavatn er auðvitað ómetanleg perla í íslenskri náttúru og bæði friðað og á heimsminjaskrá UNESCO. Umferð í kringum vatnið hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og bústöðum í kringum vatnið fjölgað mikið og því mikilvægt að fráveita á svæðinu sé bæði rétt skráð og fullnægjandi,“ segir Margrét Rós.
Hvernig vinnið þið verkefnið og hvernig gengur samstarfið við eigendur sumarhúsanna?
„Kröfur til fráveitumannvirkja á svæðinu jukust fyrir nokkrum árum og var þá haft samband við alla lóðarhafa á svæðinu og þau beðin að skrá fráveitu við bústaðina sína svo hægt væri að fá yfirsýn og skilja umfang þeirra framkvæmda sem þörf væri á að fara í. Móttökur þá voru ekki alveg jafngóðar og vonast var eftir og skráðu því miður ekki nógu margir sína fráveitu. Nú eru liðin nokkur ár síðan þetta var og hafa lóðarhafar því haft töluverðan tíma til að skoða sín mál. Nú erum við aftur farin af stað í átak og var sent bréf á alla þá sem eiga bústað í 0–50 metra fjarlægð frá vatninu í júní og við höfum fengið svar frá nokkrum,“ segir Margrét Rós og bætir við: „Mér finnst lóðarhafar almennt taka vel í þetta því þeir vilja að sjálfsögðu varðveita einstaka náttúrufegurð á svæðinu og gera sitt besta í þessum málum. En auðvitað er ákveðið rask og kostnaður við að skipta í nægjanlega góð hreinsimannvirki en þau sem við höfum talað við skilja vel mikilvægið. Fram undan er svo að hafa samband við sumarbústaðaeigendur, sem eiga hús lengra en 50 metra frá vatninu.“
Hvernig er staðan á fráveitumálum á svæðinu almennt séð?
„Fyrst og fremst er hún ekki þekkt. Þar sem mikið af fráveitumannvirkjunum eru nokkurra áratuga gömul er því miður ekki til skráning um þær fráveitur og yfirsýnin því mjög lítil. Það sem við þó vitum er að það eru fjölmargar rotþrær á því svæði þar sem má í raun ekki hafa rotþrær heldur verður að hafa annars konar hreinsivirki. Við vitum líka að á mörgum stöðum eru hreinsivirki, þá oftast rotþrær, og vatnsból mjög nálægt hvert öðru, eða jafnvel nálægt vatnsbóli nágrannans, sem er heldur ekki gott.“
Hvað er skemmtilegast við verkefnið?
„Það er að fá að hafa marga bolta á lofti og leita lausna á alls konar hindrunum sem koma upp í svona umfangsmiklum verkefnum og að verða sérfræðingur í fráveitumálum í leiðinni. Líka að fá að eiga samskipti við sumarbústaðaeigendur og finna lausnir á þeirra vandamálum, það er sérstaklega gefandi. Rúsínan í pylsuendann er svo að fá að hafa varanleg og jákvæð áhrif á framtíð Þingvallavatns. Icewater-verkefnið er til sex ára en sá hluti sem snýr að Þingvallavatni á að standa yfir í eitt ár. Vonandi næst góður árangur á þeim tíma og verður bæði skilað skýrslu til Evrópusambandsins og svo verður útbúið fræðsluefni um hvernig hægt sé að vinna svona verkefni sem heilbrigðiseftirlit eða aðrar stofnanir annars staðar á landinu geta vonandi nýtt sér,“ segir Margrét Rós.
