Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Eyvindur Hrannar og Anne Clara með börnin sín tvö, Selmu og Sólón, en fjölskyldan er hæstánægð á hestabúgarðinum sínum í Danmörku.
Eyvindur Hrannar og Anne Clara með börnin sín tvö, Selmu og Sólón, en fjölskyldan er hæstánægð á hestabúgarðinum sínum í Danmörku.
Mynd / Aðsend
Viðtal 19. september 2025

40.000 íslenskir hestar í Danmörku

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eyvindur Hrannar Gunnarsson frá Auðsholtshjáleigu í Ölfusi og Anne Clara, kona hans, gera það gott á hestabúgarði sínum í Danmörku þar sem þau eru að þjálfa hesta alla daga. Auk þess er Eyvindur liðsstjóri kynbótahrossa fyrir danska landsliðið í keppnum og mótum.

Búið þeirra er ræktunarbú með íslenska hesta þar sem fimm til átta folöld koma í heiminn á hverju ári. Reiðhöll og hringvöllur eru á búinu. Eyvindur og Anne eru líka mikið í því að auka áhuga fólks erlendis enn frekar á ræktun íslenska hestsins en það gera þau m.a. með því að halda námskeið, folaldasýningar og þess háttar. Eyvindur Hrannar er ræktunarleiðtogi Danmerkur og situr í ræktunarráði FEIF (alþjóðasamtök íslenska hestsins) og var liðsstjóri danska landsliðsins á  HM 2025 í Sviss nú í sumar.

Kynntust á Kótilettunni á Selfossi 2012

„Ég hef verið liðsstjóri frá 2022 til 2025 en við vorum saman í því ég og Karen B. Rasmussen 2023 þegar Danmörk vann liðabikarinn á HM í Hollandi. Það var í fyrsta skipti í sögunni sem Danmörk vinnur þann titil. Við hjónin kynntumst 2012 þegar Anne Clara var að vinna hjá tamningamanninum Sigurði Vigni Matthíassyni og Eddu Rún Ragnarsdóttur á Íslandi en  fyrstu kynnin voru á bæjarhátíðinni Kótilettunni á Selfossi 2012. Við bjuggum á Íslandi frá 2012–2018 og fluttum út sumarið 2018. Anne Clara átti að vera að vinna í þrjá mánuði hjá Sigga og Eddu en það fór ekki betur en svo að hún endaði með að búa á Íslandi í 6 ár,“ segir Eyvindur skellihlæjandi og bætir strax við: „Það er ekkert nýtt fyrir okkur að vinna í kringum hesta en við höfum bæði unnið í hestatengdum störfum  lengi. Það sem við erum að gera núna er draumur sem við höfum átt lengi.  

Draumastaðurinn fannst 2022

En hvað eru þau Anne að gera nákvæmlega í Danmörku?

„Við keyptum jörð í Lejre fyrir rúmum tveimur árum síðan en höfðum þá búið í parhúsi í litlum bæ í Kirke Såby. Við fluttum út sumarið 2018  og fundum gott hús í rólegum bæ, en stefnan var ávallt að finna stað í framtíðinni þar sem við gætum haft hrossin heima og farið að rækta hross frá okkar eigin stað. Þennan draumastað fundum við svo loksins sumarið 2022 eftir mikla leit árin áður. Við fórum strax á fullt að endurnýja gamlar girðingar, breyta gömlu lausagöngufjósi í aðstöðu fyrir hross og ýmsar lagfæringar. Núna erum við svo langt komin með byggingu á reiðhöll sem er 61x23,8 sem við erum gífurlega ánægð með og miklir fagmenn sem við fengum í það verk frá Hal.dk. Einnig gerðum við 250 m íþróttavöll og 300 m gæðingavöll með 60x20 dressúrvöll í miðjunni, sem SKJ Maskinudlejning í Ringsted gerðu eindæma vel. Þannig að það er allt á fullu hjá okkur að búa til frábæra aðstöðu til að vinna með hross. Fyrir okkar ræktun og einnig til að halda mót og viðburði hjá okkur. Einnig erum við að fara af stað með að byggja EU-stóðhestastöð, sem við ætlum að hafa klára næsta vor,“ segir Eyvindur Hrannar.

Íslenski hesturinn vinsæll í Danmörku Þið eruð að rækta íslenska hestinn í Danmörku.

Hvernig gengur það og er mikið af íslenskum hestum þar?

„Eins og er þá erum við bæði að rækta á Íslandi og Danmörku, það er enn þá í byrjunarfasanum en við erum með tvær hryssur í ræktun á Íslandi og tvær hérna í Danmörku. Markmiðið er að rækta um 5–8 folöld á ári og það er á 3–5 ára planinu okkar að komast í þann fjölda. Danir eru stórþjóð þegar kemur að íslenska hestinum, en í Danmörku eru rúmlega 40.000 íslenskir hestar og er það næststærsta hestakynið á eftir danska heitblóðshestinum,“ segir Eyvindur og heldur áfram: „Danir eru hrifnastir af geðslaginu í okkar íslenska hesti og það er auðveldara að halda íslenskan og ekki jafn kostnaðarsamt og að halda heitblóðshestinn. Töltið og fimm gangtegundir er einnig það sem fólk fellur fyrir, sem aðgreinir hann frá öðrum hestakynjum hérna úti.“

Mikill tími fer í að velja sér graðhest

Er þetta ekki skemmtilegt og gefandi starf, að vera að snúast í kringum hesta alla daga?

„Jú, það er náttúrlega fátt betra en að sjá folöld fæðast undan uppáhaldsmerinni sinni, það er bæði skemmtilegt og gefandi. Það fer líka mikill tími í að skoða og velja sér graðhest og útkoman er alltaf spennandi. Það að eiga möguleika á að vinna með áhugamálið sitt er geggjað. Það fer líka mikill tími í þetta og þetta er krefjandi, en ekki má gleyma að þetta er gefandi starf. Nú verðum við að sjá hvað framtíðin býður upp á með okkar eigin ræktun, en auðvitað er það draumur að sjá hesta frá eigin búi standa sig vel á brautinni í framtíðinni,“ segir Eyvindur.

Stóðhesturinn Hljómur frá Auðsholtshjáleigu og Árni Björn Pálsson stóðu sig frábærlega á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Sviss í byrjun mánaðarins en hann var hæst dæmdur í elsta flokki stóðhesta. Faðir Hljóms er Organisti frá Horni og móðir er Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,76, fyrir hæfileika 8,78 og í aðaleinkunn 8,77.

Hljómur frá Auðsholtshjáleigu

Eyvindur Hrannar segir að það hafi verið stórkostlegt að sjá nýjan graðhest þeirra Anne,  hann Hljóm frá Auðsholtshjáleigu, á heimsmeistaramótinu í Sviss nú í ágúst. „Tilfinningin er alveg ólýsanleg og ótrúlega gaman þegar allt gengur upp. Nú höfum við eignast hestinn en það var ekki skyndiákvörðun, en eitthvað sem við vorum búin að hugsa lengi og plana. Nú erum við komin með úrvals ræktunarhest til að hafa á búinu okkar og rækta undan hér í Danmörku,“ segir Eyvindur stoltur.

Anne byrjaði með pony-hesta

Hvernig kynntust þið Anne Clara og var hún búin að vera að vinna við íslenska hestinn? „Anne Clara byrjaði á reiðskóla 6 ára með hesta og pony-hesta, en skipti yfir í íslenska hesta þegar hún eignaðist sinn fyrsta hest 12 ára. Þá var hún búin að fara í nokkrar hestaferðir til Íslands, og þótt hún væri ekki alveg sátt að hafa ekki fengið stóran „dressúr“- hest getur hún ekki ímyndað sér að vera með neitt annað í dag heldur en íslenska hesta. Síðan fór hún fljótt að vinna með íslenska hesta, notaði öll sumarfríin hjá þjálfaranum sínum, Tania Højvang Jensen. Hún vann svo í fyrsta skipti á Íslandi 16 ára hjá Unni Lísu Schram og Eiríki Þórkelssyni í Vorsabæ, og síðan hjá Sigga Matt og Eddu Rún hjá Ganghestum 2012, þar sem við kynntumst. Anne ætlaði að vera 6 mánuði hjá Sigga og Eddu, og planið hjá henni var síðan að fara heim í nám, en þá byrjuðum við að hittast það sumarið og fór hún sem betur fer ekki heim, heldur vann áfram þar rúmlega ár í viðbót. Þegar hún svo flutti til mín austur á Grænhól byrjaði hún að vinna á Fákaseli og var með í hestasýningum þar, fór svo í nám í HÍ og var síðustu árin að vinna hjá mæðgunum í Lindinni á Selfossi,“ segir Eyvindur Hrannar.

Duglegur í félagsstörfum í kringum hesta

Eyvindur er í alls konar ábyrgðarstöðum í Danmörku þegar kemur að íslenska hestinum.

„Já, ég hef ávallt verið aktífur í félagsstörfum í kringum íslenska hestinn. Ég var til dæmis formaður Skeiðfélagsins á Selfossi og ræktunarfélags Ölfuss heima á Íslandi, og ég fór fljótt í slík verkefni hér í Danmörku líka. Ég byrjaði í ræktunarráðinu, varð síðan valinn ræktunarleiðtogi og þannig með í stjórn Danska Íslandshesta-sambandsins. Á sama tíma var ég einnig valinn inn í „Breeding Commite FEIF“. Það er því í mörg horn að líta sem einnig er mjög gefandi og maður fær að kynnast mörgu frábæru fólki sem er með sama áhugamál og leggur mikið á sig fyrir íslenska hestinn,“ segir Eyvindur.

Saknar sundlauganna á Íslandi

En saknar Eyvindur ekki Auðsholtshjáleigu í Ölfusi og Íslands?

„Jú, jú, við söknum auðvitað fjölskyldunnar, vinanna, sundlauganna, handboltans og reiðveganna. En okkur líður líka bara mjög vel í Danmörku. Við eigum stóran vinahóp á Íslandi, sem kom í jólahlaðborð til okkur í fyrra, og bæði þau og fjölskyldan eru dugleg að heimsækja okkur og við reynum líka að koma til Íslands einu sinni til tvisvar á ári,“ segir Eyvindur Hrannar.

Að lokum, hvernig sérðu framtíð ykkar fyrir þér næstu árin í Danmörku, ætlið þið alltaf að vera þar eða koma til Íslands einhvern tímann?

„Eins og staðan er núna líður okkur bara mjög vel í Danmörku, og börnunum okkar, þeim Selmu og Sólon, líka, þannig að framtíðin verður ábyggilega áfram þar. Það er enda margt spennandi að gerast á búgarðinum okkar. En svo er aldrei hægt að segja hvað framtíðin býður upp á,“ segir hann hlæjandi.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt