Veiðitímabil rjúpu ákveðið
Rjúpu má veiða frá 24. október. Landinu er skipti í sex veiðisvæði þar sem fjöldi veiðidaga er misjafn. Verndarsvæði verður á Reykjanesi, líkt og undanfarin ár.
Skemmst varir veiðitímabilið á Suðurlandi, en síðasti veiðidagurinn þar er 11. nóvember. Flestir veiðidagar eru á Austurlandi þar sem tímabilinu lýkur 22. desember. Heimilt er að veiða rjúpu frá föstudögum til og með þriðjudögum, en grið skulu gefin tvo daga í viku. Nánari upplýsingar má sjá á vef Stjórnarráðsins.
Fyrirkomulag rjúpnaveiði í ár byggir á þeim grunni sem lagt var upp með í samvinnu hagaðila við gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpnastofninn sem undirrituð var síðastliðið haust. Lagt er upp með að það hafi jákvæð áhrif á bæði rjúpnastofninn og alla hagaðila. Í fréttatilkynningu er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengni um náttúru landsins. Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.
