Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Vallhumall – vænn og grænn
Á faglegum nótum 26. ágúst 2016

Vallhumall – vænn og grænn

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Sum atvik úr bernskunni muna menn betur en önnur. Ein af mínum sterkustu bernskuminningum er afskaplega illa lyktandi feiti sem borin var á útstæð barnseyru mín þegar þau höfðu sólbrunnið illa á einu af þessum sólríku sumrum Inndjúpsins um miðja síðustu öld.

Smyrslið kom úr ljósri, glerjaðri leirkrús sem staðið hafði á hlýjum stað við eldavélina um nokkra hríð. Með dúkpjötlu yfir. Fyllt af vallhumli og líklega ósöltuðu smjöri frekar en hrossafeiti eða sellýsi.

Lyktin var súr og þrá, næsta viðbjóðsleg. Kannski var þessi beiting á mig örþrifaráð og skyndilausn, því nokkru síðar kom snyrtileg glerkrús sem innihélt grænleitara og þéttara vallhumalsmyrsl með viðkunnanlegri lykt frá henni Björgu í Heydal. Hún var ljósmóðir sveitarinnar og kunni margt fyrir sér.

Það smyrsl var síðan brúkað á brenndu barnseyrun og aðrar skeinur, en þráa feitin fór í fjósið og notuð á sára spena og sviðin júgur. En hvor gerðin sem var gerði sitt. Þær tóku af sviðann og undan þeim greri hratt og vel.

Heimsborgarinn vallhumall

Vallhumallinn er ein af þeim jurtum sem hvað lengst hafa fylgt íbúum norðurslóða sem lækningajurtir. Tegundin er útbreidd svo að segja um allt Norðurhvel. Aðeins í Mongólíu og svæðunum norðan við Okotskhaf er hún ekki skráð í fyrstu flórugreiningum. En á svæðinu frá Aljútaeyjum og mótsælis austur um Norður-Ameríku, yfir Atlantshaf og þvera Evrasíu allt til Japanseyja er hana að finna jafnt á láglendi sem hálendi. Frá nyrstu ströndum niður til snjóleysismarka vetranna þegar sunnar dregur. Eftir að fólk frá Norðurhveli fór að flytjast til landa á suðurhveli hefur vallhumallinn fylgt með og fest sig á velli þar sem skilyrði hafa verið nægilega svöl fyrir hann og skarpur munur er á sumri og vetri.

Á Íslandi finnst vallhumall í öllum landshlutum. Fyrst og fremst næst byggð en líka uppi á hálendinu. Í sumum landshlutum er útbreiðsla hans fremur strjál. En vallhumallinn er ein af þeim jurtum sem virðast njóta góðs af flutningum og framtakssemi fólks. Allt rask á jarðvegi og umferð manna er honum til hagnaðar. Víða má sjá hann spretta upp á vegöxlum nýlagðra vega eða í jaðri malarnáma. Og hann hefur sest að í sumarbústaðalöndum þar sem hann áður var hvergi nærri.

Fræin eru örsmá og létt. Þau dreifast mest með vindi að vetri til eftir að frost hefur sprengt upp fræhirslur blómsveipanna og notfæra sér hjarn og skafrenning til að greiða sér leið um heiminn. Oft lenda þau þá á hjólbörðum farartækja eða festa sig við hvaða yfirborð sem er í frostinu. Hoppa svo af hvar sem verið getur. Oftar en ekki á heppilegum stað þar sem þau geta komist á legg, byrjað búskap og komið sér vel fyrir sem ný vallhumalsbreiða.

Tækifærissinninn

Vallhumallinn er mikill tækifærissinni. Á mögrum mel eða malargrunni getur hann haldið sér við í áratugi, vaxið hægt en örugglega en teygir ekki mikið úr sér á hæðina þegar hann blómgast, kannski bara tíu til fimmtán sentímetra. Lendi hann í feitri mold sparar hann ekkert við sig. Ein lítil fræplanta að vori getur þar náð yfir fjórðung úr fermetra upp úr miðju sumri og blómgast á 50 til 70 sentímetra háum stilkum. Í þurru valllendi er hann einhvers staðar þar á milli. Vallhumallinn skríður út með jarðrenglum og þar sem hann lendir í tíðum slætti setur hann allan kraft í jarðrenglurnar og þenst út til allra hliða með undraskjótum hætti. Það vita þeir sem hafa fengið hann í grasflötina í garðinum sínum. En hann er sólelskur og gefst fljótt upp þar sem hávaxnari og blaðstærri gróður vex yfir hann.

Fjölskylda, frændur og frækinn kappi

Vallhumallinn er af körfublómaætt líkt og fífill og baldursbrá. Hann er einn af 170 tegundum sem viðurkenndar eru í fjölskyldu hans og dreifðar um allt Norðurhvel. Fræðiheiti hans er Achillea millefolium. Ættkvíslarheitið er dregið af nafni hetjunnar Akkilesar sem Hómer skrifar um í Illionskviðu.

Akkiles þessi var ódrepandi hvar sem í hann var stungið, að undanskildum hælnum sem Þetis móðir hans hafði haldið um þegar hún dýfði honum á bólakaf í fljótið Styx til að gera hann ódauðlegan.

Þá var hún nú líka búin að stinga stráknum í eld til að herða hann en var trufluð við þá iðju af Pelevsi föður hans. En þótt Akkiles hafi verið mikil hetja og kunnað ýmislegt fyrir sér um lækningar, hann hafði grætt sár hermanna sinna með vallhumli þegar þeir komu særðir úr bardögum, þá urðu endalok hans þau í Trójustríðinu að París bogamaður Hektors hæfði hann í viðkvæma hælinn með ör sinni. Meira þarf ekki um það að segja. En viðurnefnið „millefolium“ vísar til fjaðurskiptra blaðanna sem hverju og einu má skipta upp í „þúsund“ flipa. Og af viðurnefninu er komið nafnið „meLLifólía“ – með hörðum ellum – sem grasalæknar notuðu helst um vallhumalinn þegar hann var tekinn fram til lækninga. Annars er nafnið vallhumall gamalt í íslensku og líklega er jarðhumall enn eldra því það á sér hliðstæðu bæði í norsku og sænsku. Annars á vallhumallinn alþýðunöfn, ýmist eitt eða ótalmörg, á þjóðtungum alls fólks sem til hans þekkir og oft vísa þau til lækningamáttar hans. Önnur tegund úr sömu ættkvísl og vallhumallinn finnst líka hér á landi. Það er silfurhnappurinn, Achillea ptarmica. Hann hefur mjóslegin, heilrennd blöð og færri en stærri hvítar blómkörfur. Hefur líklega slæðst hingað með grasfræi og náð að sá sér út og haldast við á nokkrum stöðum í röku og frjóu landi. Af lækningamætti hans fara engar sögur.

Þjóðtrú, gagn og átrúnaður

Langt mál væri að telja upp allar þær dyggðir og þjóðsögur sem tengjast vallhumlinum. Óneitanlega er margt til af því tagi. Í Frakklandi kallast vallhumallinn Jósefsurt af mörgum. Það tengist því að Jesús Kristur hafi strokið sár Jósefs föður síns með vallhumalsblöðum einhverju sinni þegar hann hafði skaðað sig á smíðatólunum.

Af sömu sögu hefur nafnið „smiðajurt“ komið fram í nokkrum málum. Og á meðan gangur himintungla, áhrif stjörnumerkja og elimentin fjögur þóttu sannferðug undirstöðuvísindi fyrir lækniskúnst og grasaþekkingu var sagt að vallhumallinn væri í annan endann tengdur nautsmerkinu og fengi þaðan jarðsamband og festu, en í hinn endann vogarmerkinu sem gæfi honum eiginleika loftsins með leiðandi orku vindsins og feykti þannig burtu öllum vanda.

Þegar sumir sögðu að vallhumallinn væri rakur og hlýr fyrir andlega velsæld manna, þá héldu aðrir því fram að hann væri þurr og svalandi. Austur í Kína sameinuðust elimentin tré og málmur í vallhumlinum. Og þar skiptu miklu máli þeir spádómar sem lesnir voru eftir því hvernig vallhumalsstönglar féllu þegar þeim var kastað á ákveðinn hátt. Indversku ajúrvedafræðin bjuggu svo yfir mögnuðum útleggingum á eðli og áhrifum vallhumals. Í nokkrum Evrópulöndum þótti það, og þykir víst enn, góð ávísun á gott samlyndi, langlífi og mikið barnalán ef brúðhjón báru á sér vallhumalsblóm þegar þau voru pússuð saman.

En ekkert af þessu hefur verið sannað tölfræðilega. Aftur á móti fer víst enginn í grafgötur um lækningamátt vallhumalsins. Hann hefur mikið verið rannsakaður í nútímanum og með jákvæðum niðurstöðum. Þannig að það sem hefur verið almenn vitneskja og reynsla í nokkur þúsund ár hefur átt við rök að styðjast. Enn eru gerð græðismyrsl og smáskammtapreparöt úr vallhumli. Nokkuð úrval af slíkum afurðum fást í apótekum.

Vallhumall er ein af þeim urtum sem óhætt, einfalt og aðgengilegt er að nota til heimabrúks. Vallhumalsolíu geta allir búið til með því að troða vallhumli, blómum og blöðum, eins og kemst í víða glerkrús. Fylla svo á með góðri ólífuolíu eins og rúmast í ílátinu og láta standa við stofuhita, gjarna í sól, í nokkra daga. Síðan geymt á köldum stað til að grípa í og bera á skrámur, þurra, sviðna eða sára húð hvenær sem þurfa þykir. Þurrkaðan vallhumal, blöð og blóm, er öllum óhætt og flestum hollt að nota sem jurtate.

Í gömlum sem nýjum, íslenskum grasnytjabókum kemur vallhumall ætíð við sögu. Gott dæmi er hér tekið úr Grasnytjum séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Hann hefur bersýnilega þekkt vallhumal og notað hann, þótt hann geri ekki alveg glögg skil á honum og reinfangi. Ég leyfði mér að gera athugasemdir þar sem mér fannst viðeigandi að benda á þetta inni í texta hans. Annað segir sig sjálft.

 

Úr Grasnytjum Björns Halldórssonar, prests í Sauðlauksdal, 1783
 
Vallhumall
Millefolium, Tonacetum, Achillea, Supercilium Veneris,
 Syngenesia, Polygamia superflua.
 
Norska: Jordhumle.
Danska: Röllike, garbe.
Þýska: Tausendblad, Schaf-Garbe.
 
Þessi jurt er ein besta læknisjurt til að græða sár og að stilla allt blóðlát innvortis og útvortis, einkum seyðið af henni. Hún hreinsar blóð brúkuð sem te, læknar innantökur, uppsölu og hlandstemmu.
 
Útvortis við lögð, græn og marin, bætir hún höfuðverk, item haul og fleiri eymstur. Þurkuð og steytt í duft hreinsar hún og læknar öll sár. Í munni tuggin læknar hún sárt tannhold og kverkar.
 
Ný rótin, þá henni er í nasir stungið, segja menn gjöri nasablóð eða að minnsta kosti veki dreyra.
Seyði af vallhumli drekka konur, sem kenna sér léttasóttar í Svíaríki. Þar er og svo vallhumall brúkaður til að troða utan með líkum manna í kistum að þau rotni seinna og nálykt verði minni af þeim. [Hér ruglar Björn saman reinfangi og vallhumli. Það er reinfangið sem þetta á við – sem hann skrifar reyndar í upphafsfyrirsögn „Tonacetum“ / HH].
 
Þessi jurt, soðin í smjöri, læknar vel sár, útbrot og geitur barna. Nokkrir á meðal Svía brúka hana í humals stað til ölgerðar og segja menn það verði áfengt.
 
Kláðfellt (= kláðasýkt/HH) fé er gott að þvo í seyði þessarar jurtar. Þó er betra að leggja vöndul af henni, soðinn í vatni og heitan, við þann kláðfellda lim. [Hér ruglar hann enn saman reinfanginu – það drepur kláðamítlana, ekki vallhumallinn /HH].
 
Flest innanmein kúa og ásauðar læknar hún sé hennar seyði hellt ofan í fénaðinn.
 
Sá sem hefur ofetið eða ofdrukkið að kvöldi drekki vel sterkt seyði þessarar jurtar sem te að morgni og hefur hann gott af því, líka hinn sem hafði uppþembing af óhollri eða megnri fæðu, þá sem maginn kunni ekki melta.
 
Fellt að nútíma rithætti - HH
Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...