Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Förka lífgasverið í Færeyjum. Færeyskir bændur eru almennt sáttir við meltuna sem þeir fá frá lífgasverinu, að sögn Sigerts Paturssonar, formanns Bóndafélags Færeyja.
Förka lífgasverið í Færeyjum. Færeyskir bændur eru almennt sáttir við meltuna sem þeir fá frá lífgasverinu, að sögn Sigerts Paturssonar, formanns Bóndafélags Færeyja.
Mynd / Bakkafrost
Fréttir 16. júní 2025

Vænn valkostur fyrir bændur og loftslagsbókhald Íslands

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Raunhæfir kostir til lífgasframleiðslu gætu skilað á bilinu 3-5% af markmiðum Íslands um samdrátt í samfélagslosun.

Orkídea og Eimur, samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun, efndu til ráðstefnu um lífgas- og áburðarframleiðslu úr hliðarstraumum landbúnaðar í byrjun mánaðarins. Kynnt voru grunnatriði lífgas- og áburðarframleiðslu, hráefni, rekstur, kostir, ávinningur og áhætta, sem og skipulag og reynsla nágrannaþjóða af lífgasframleiðslu.

Landsvirkjun, ásamt fleiri bakhjörlum, kom að stofnun Orkídeu og Eims. Riðið var á vaðið með Eim á Norðurlandi og það gekk svo vel að innan fárra ára var Orkídea stofnuð á Suðurlandi, Blámi fyrir vestan og loks Eygló á Austurlandi. Þessi verkefni hafa tekist vonum framar, sagði Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, í opnunarávarpi.

Ýmsir valkostir

„Fimmtán prósent orkunotkunar á Íslandi eru enn knúin jarðefnaeldsneyti og við þurfum að koma þessu hlutfalli á næstu árum og áratugum helst niður í núll. Íslendingar, eins og aðrar þjóðir, hafa skuldbundið sig til að lækka það sem kallað er samfélagslosun. Við vitum að þessi orkuskipti eru fram undan, en ekki nákvæmlega hvernig þau verða. Við vitum að rafvæðing er á fleygiferð. Rafvæðing er bein notkun raforku og við förum í hana þar sem það er hægt. En það er ljóst að það er ekki alls staðar. Sums staðar þarf að leita annarra lausna. Það gæti verið framleiðsla og notkun á vetni, á fjölbreyttu rafeldsneyti og innflutningur eða framleiðsla á lífeldsneyti, líforku eða lífgasi,“ sagði Haraldur.

Hann sagði lífgasver stuðla að orkuskiptum í landbúnaði og geta orðið hagkvæmur hluti af aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Þríþættur ávinningur sé fyrir losunarbókhald landsins, s.s. bætt meðferð búfjáráburðar, minni urðun á lífúrgangi og samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis. Raunhæfir kostir til lífgasframleiðslu gætu skilað á bilinu 3-5% af markmiðum um samdrátt í losun.

„Það sem er sérstaklega skemmtilegt við líforkufyrirtækin er að við erum ekki bara að minnka samfélagslosun eða auka verðmætasköpun, heldur erum við líka að leysa stórt vandamál sem er hvað við eigum að gera við úrganginn,“ sagði hann enn fremur.

Dýrmætar afurðir

Í kynningu Sveins Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra Orkídeu, og Ottós Elíassonar, framkvæmdastjóra Eims, kom m.a. fram að lífgasver stuðli að sjálfbærni í landbúnaði og séu löglegur farvegur fyrir lífrænan úrgang, en á slíku sé hörgull. Þau framleiði verðmætar afurðir.

Ávinningur bænda sé m.a. aukinn fyrirsjáanleiki í rekstri, tryggara framboð og verðöryggi á orku, lífkoltvísýringi og lífrænum áburði. Bændur fái meltu í stað mykju, næringarríkari áburð sem sé auðleystari fyrir nytjaplöntur. Melta sé auðgeymdur áburður sem minnki kolefnisspor og lyktarmengun. Viðbótarnæring sé frá öðrum lífrænum leifum, sem spari innkaup á tilbúnum áburði. Þá verði framboð á lífkoltvísýringi til garðyrkju á hagstæðari kjörum en nú sé í boði og úrgangslosun garðyrkjubýla verði umhverfisvænni.

Á Íslandi liggi tækifærin hjá stórum úrgangshöfum lífúrgangs, svo sem sveitarfélögum, afurðastöðvum í kjöti og mjólk, hjá fiskvinnslum og í land- og sjóeldi á laxi. Sömuleiðis hjá bændum hvað varðar húsdýraáburð, garðyrkjuúrgang, heyfyrningar og fleira. Aukinn fyrirsjáanleiki geti orðið í rekstri á þeim svæðum þar sem lífgasver eru starfrækt. Þau geti dregið úr fjárfestingaþörf hjá kúabændum sem séu t.d. að horfa á stækkun á fjósi og úr þörf fyrir haughús.

Bændur ánægðir með Förka

Þá steig formaður Bóndafélags Færeyja, Sigert Patursson, í pontu og lýsti reynslu færeyskra bænda af Förka lífgasverinu í Færeyjum. Meðal kosta taldi hann vera minna illgresi, hraðari virkni og minni jarðvegsskemmdir. Sömuleiðis þá ótvíræðu kosti sem væru við minni flutningsþörf áburðar og að fá rafmagn og hita. Hann sagði gallana helsta þá að í meltunni væri minna lífrænt kolefni og að gróðurinn ætti til að sviðna.

Förka hóf starfsemi árið 2020 og vinnur um 100 þúsund tonn af lífrænum úrgangi frá klakstöðvum Bakkafrosts og bænda víðs vegar um Færeyjar. Framleiddur er hiti fyrir um 400 heimili og rafmagn fyrir um 1.900 hús. Þá eru framleidd um 40 þúsund tonn af áburði fyrir bændur.

Fundurinn ályktaði í lok viðburðarins að lífgas- og áburðarvinnsla hefði í för með sér fjölþættan ávinning fyrir umhverfi, atvinnulíf, stjórnvöld og samfélagið í heild. Þau lífgasverkefni sem hefðu verið í þróun hafi lagt mikið til skilnings á þeim áskorunum og tækifærum sem til staðar séu á Íslandi og yfirfærslugildi þeirra sé umtalsvert.

„Til að hægt sé að raungera þann ávinning sem af þeim hlýst, þarf öflugt samstarf milli atvinnuvegaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við samtök bænda, sveitarfélög og afurðastöðvar,“ sagði jafnframt í ályktuninni.

Skylt efni: lífgasver

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu
Fréttir 14. júlí 2025

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu

Landsáætlun stjórnvalda og bænda um útrýmingu á sauðfjárriðu var nýlega endurútg...