Vænlegt lífgas- og áburðarver
Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árnessýslu er gert ráð fyrir rekstrarafgangi sem þykir nægilegur til að mæta fjármagnskostnaði.
Grunnhugmyndin er að verksmiðjan taki við nautgripamykju frá kúabændum og garðyrkjuúrgangi ylræktar í Reykholti í Bláskógabyggð og nágrenni sem hráefni, sá efniviður er síðan settur í gegnum loftfirrta gerjun (e. anaerobic digestion).
Afurðirnar sem koma út úr því eru koltvísýringur til nota á ylræktarstöðvum og melta, sem er talin vera mun betri áburður en mykja. Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemina.
Koltvísýringur, áburður, rafmagn og hiti
Fyrra rekstrarlíkan gerði ráð fyrir um fimm prósenta rekstrarafgangi sem þótti ekki nægilegt til að geta greitt vaxtakostnað eða laðað fjárfesta að verkefninu. Í nýju viðskiptaáætluninni er gert ráð fyrir að meginafurðir verksmiðjunnar verði koltvísýringur og áburður, auk rafmagns og hita. Ávinningur garðyrkjubænda af innleggi sínu er vistvæn gjaldfrjáls losun á sínum úrgangi og hagstæð kjör á rafmagni og sérstaklega koltvísýringi.
Ávinningur kúabænda er betri búfjáráburður, sem hefur verið tæmdur af gróðurhúsalofttegundum. Þar sem nánast engin áburðarefni tapast í ferlinu verður jafnmikið sem fæst til baka, auk þeirra næringarefna sem bætast við úr garðyrkjunni.
Fimmtíu þúsund tonna hráefni
Í þeirri sviðsmynd sem nú er gengið út frá í viðskiptaáætlun Orkídeu verður úrganginum safnað saman frá garðyrkjustöðvum í Reykholti, Laugarási og á Flúðum og frá um 30 kúabúum að hámarki í um 35 kílómetra radíusi frá verksmiðjunni.
Horfið er frá þeirri sviðsmynd að framleiða metangas í verksmiðjunni en í staðinn verði koltvísýringur eina gastegundin sem út úr verksmiðjunni kemur sem markaðsvara, auk áburðarins. Áður hafði danska ráðgjafarfyrirtækið NIRAS unnið fýsileikaskýrslu um rekstrarhæfni slíkrar verksmiðju þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að rekstrartekjur myndu standa undir rekstrarkostnaði en ekki fjármagnskostnaði. Var þá gert ráð fyrir kostnaðarsamri metanvinnslu auk þess að reiknað var með minna hráefni í þeirri sviðsmynd.
Allt að 50 þúsund tonn af ylræktarúrgangi og kúamykju mun fara í gegnum verksmiðjuna á ári. Þar af eru um þrjú þúsund tonn það sem fellur til á ylræktarstöðvum á Reykholti, Flúðum og í Laugarási.
Þjóðhagslega hagkvæmt verkefni
Orkídea er samstarfsvettvangur um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.
„Við ætlum að senda þessa viðskiptaáætlun í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið til skoðunar og umræðu um mögulega þátttöku ríkisvaldsins í verkefni af þessu tagi, sem við teljum að geti orðið mjög þjóðhagslega hagkvæm,“ segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu.
– Sjá nánar um verkefnið í fréttaskýringu á síðum 20–22. í Bændablaðinu sem kom út í gær.
