Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Fjöldi nautgripa í Bandaríkjunum taldi 91,9 milljón skepna í ársbyrjun 2022. Cody Easterday ól upp 265.000 nautkálfa á pappír sem aldrei voru til. Þannig sveik hann út kvartmilljarð bandarískra dala. Hann var dæmdur í ellefu ára fangelsi síðastliðið haust.
Fjöldi nautgripa í Bandaríkjunum taldi 91,9 milljón skepna í ársbyrjun 2022. Cody Easterday ól upp 265.000 nautkálfa á pappír sem aldrei voru til. Þannig sveik hann út kvartmilljarð bandarískra dala. Hann var dæmdur í ellefu ára fangelsi síðastliðið haust.
Mynd / Etienne Gurardet - Unsplashþ
Utan úr heimi 11. ágúst 2023

Sagan af draugahjörðinni

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Cody Easterday var uppvís að einu stórtækasta nautgripasvindli sem sögur fara af. Hann gerði upp tilvist hundruð þúsunda gripa, gaf út falsaða reikninga og rukkaði fyrir útgjöld á framleiðslu hjarðar sem aðeins var til á pappírum. Með draugahjörðinni hafði Cody yfir þrjátíu milljarða króna af stórfyrirtækjum, aðfangakaupendum og afurðasölum í Bandaríkjunum.

Cody Easterday nýtti sér góðan orðstír ættarnafnsins til að stela meira en 244 milljónum dollara með því að skálda upp risastóra nautahjörð. Svindlið var svo umfangsmikið að það hafði áhrif á nautakjötsverð á landsvísu.

Í hlaðvarpsseríunni Ghost Herd er farið ofan í saumana á þessu furðulega máli sem skók bandarískan landbúnað síðastliðið haust. Flækjustig og umfang nútímalandbúnaðarkerfis Bandaríkjanna er talinn vera einn blóraböggull þess að svo umfangsmikil svik geti átt sér stað.

Vöxtur fjölskylduveldisins

Umsjónarmaður hlaðvarpsins er blaðakonan Anne King. Með hljóðdæmum og litríkum viðtölum og sögum teiknar hún upp rótgróið bændasamfélag í Franklín-sýslu í Kaliforníu sem framleiðir ósköpin öll af heyi, maís, kartöflum og öðrum landbúnaðarafurðum, þar sem bændurnir fara í kúrekastígvélum í kvöldverðarboð og rúnta á pallbílnum í messu.

Hún segir sögu fjölskylduveldisins með ættarnafnið Easterday. Sagan hefst árið 1958 þegar Ervin Easterday flytur með fjölskylduna á 300 ekrur af landi. Sonur hans, Gale, á að hafa elskað jörðina og landið og Karen, konu sína, og eytt óratíma í að byggja þar upp afkastamikinn jarðveg og burðugt fjölskyldufyrirtæki sem nágrannar og kollegar treystu. En búskapur er fallvölt atvinnugrein. Einfaldar breytingar á markaði, aðfangatruflanir, heimsfaraldur, veðurfar; þurrkatíð eða of mikill hiti getur kippt undan bændum rekstrargrundvellinum.

Easterday-fjölskyldan varð gjaldþrota árið 1987 eftir slæmt ár. Gale og Karen þurftu því að byrja frá grunni og sonurinn Cody ákvað að hætta í skóla svo hann gæti hjálpað til á fjölskyldubúinu.

Við það á mikið að hafa breyst. Cody var drífandi, ögrandi, var talinn snjall kaupsýslumaður og tók smám saman yfir rekstrarstjórn fyrirtækisins, þá einungis tvítugur að aldri. Hann var stórhuga og fjölskylduveldið stækkaði ört undir hans stjórn. Fjölskyldan keypti upp land sem aðrir bændur settu á sölu. Þau leigðu jarðnæði sem þau gátu ekki keypt. Framleiðslan varð stærri að umfangi og stórtækar fjárfestingar í vélum varð til þess að fyrirtækið gat unnið alla sína uppskeru inn á markað. Þau keyptu m.a. vinnslustöðvar fyrir kartöflur og lauk. Við bættust fóðurfyrirtæki, veitingastaðir, afurðavinnsla, byggingafyrirtæki og varð Easterday þannig meirihlutaeigandi í allri virðiskeðju heilmargra matvara.

Á um hálfri öld reis Easterday farms upp úr örfoka landi og varð eitt af auðugustu landbúnaðarfyrirtækjum Bandaríkjanna, veldi sem framleiðir maís, lauk, kartöflur og hveiti og eiga land sem spannar þúsundir ekra í þremur ríkjum. Frá 1 milljón dollara ársveltu í 250 milljón dollara á 20 árum. Frá sjö starfsmönnum í tæplega 200. Fjölskyldan varð veldi sem græddi á tá og fingri, þau bjuggu í glæsihýsum og ferðuðust með einkaflugvélum.

Draumasamstarfið breyttist í martröð

Easterday-veldinu óx ásmegin þegar Cody fór út í stórtækt naut- gripaeldi. Hann notaði góðan orðstír fjölskyldunnar til að koma á samstarfi við alþjóðlegan stórrisa á sviði kjötafurða, Tyson Fresh Meats. Í hlaðvarpsþáttunum Ghost Herd er sagt að fyrirtækið ráði yfir fimmtungi af markaðshlutdeild kjöts í Ameríku.

Samstarfið snerist um uppvöxt nautgripa sem svo yrðu afhentir Tyson Fresh Meats til slátrunar og afurðavinnslu. Samstarf þetta óx ört og vakti Cody athygli fyrir myndarskap við umönnun nautkálfa. Hann flaug inn fagmönnum af ýmsu tagi til að skilja betur venjur og hegðun skepnanna. Kjötið hans var jafnvel eftirsótt og selt undir vörumerkinu „Cody ́s Beef“ í Japan.

Tyson treysti Cody því fjölskyldufyrirtækið þótti heiðarlegt og traustsins vert. En síðar kom í ljós að Cody var langt frá því
að vera frómur.

Til að útskýra sakarefnið þarf að skilja viðskiptasamband afurða fyrirtækja á borð við Tyson og bænda: Bóndinn segir afurðafyrirtækinu að þeir ætli að kaupa ungkálfa. Fyrirtækið lætur bóndann fá pening til að kaupa dýrið og ala það. Þegar kálfurinn hefur vaxið upp í sláturstærð skilar bóndinn honum til fyrirtækisins. Þá er komið að skuldadögum; bóndinn fær mismuninn milli afurðaverðs og þess fjármagns sem hann hafði þegar fengið frá fyrirtækinu.

En það sem Cody Easterday gerði var að segja Tyson að hann væri með fleiri skepnur en raun bar vitni. Frá 2016 til ársloka 2020 stal hann kvartmilljarð dollara – eða sem nemur tæpum 35 milljörðum íslenskra króna með lygafléttu. Dýrin voru aðeins til á pappír en Cody rukkaði Tyson fyrir uppeldi þeirra.

Í hlaðvarpsseríunni Ghost Herd fer blaðakonan Anne King ofan í saumana á undraverðu máli sem skók bandarískan landbúnað nýlega. Serían er aðgengileg á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Afleiðing spilafíknar

Nautgripaframleiðendur stjórna ekki því afurðaverði sem þeir fá fyrir gripinn. Rétt eins og á Íslandi stýra afurðastöðvar verðinu. Í þessari sögu eru það Tyson og önnur stórfyrirtæki sem stjórna flæði kjöts á heimsmarkaði sem móta afurðaverðið.

Það sem Cody fór að stunda, samhliða því að ala upp naut á pappír, var að leika sér að nautakjötsmarkaðnum og svo fór að hann fékk áminningu og sekt vegna ósiðlegra viðskiptahátta árið 2015 og aftur árið 2019.

Hann lét það þó ekki stöðva sig og hélt uppteknum hætti og áhættuspilið snerist í höndunum á honum – hann var kominn í yfir 200 milljón dollara skuld, en það jafngildir um 27 milljarða íslenskra króna. Í dómskjölum kemur fram að Cody sé haldinn alvarlegri spilafíkn. Hann fann sig elta uppi tapið sitt í markaðsbraskinu þar sem hann sannfærði sjálfan sig um að það væri í lagi að „taka lán“ hjá Tyson.

Hann hefði kannski getað komist upp með þetta lengur ef ákveðinn heimsfaraldur hefði ekki skorist í leikinn.

Covid felldi svikamyllu Codys

Heimsfaraldur Covid kom hörmulega niður á íbúum Bandaríkjanna en tala látinna þar er komin yfir milljón manns.

Eitt af fyrstu stóru hópsmitum landsins var rakið til kjötpökkunarstöðvar Tyson. Hafði það veruleg áhrif á framleiðslukeðjuna alveg niður til frumframleiðenda. Því þegar kálfur fæðist er þegar ákveðið hvaða dag honum verður slátrað. Ferlið er líkt og færiband sem gengur eins og klukka, sem er hönnuð svo kjötvinnslan geti unnið stöðug allt árið við fulla framleiðslugetu. Tyson fékk undanþágur til að halda áfram framleiðslu sinni þegar flest önnur fyrirtæki þurftu að hægja á í heimsfaraldri. En uppi varð fótur og fit vegna hópsmits og þá þurftu stjórnendur að skoða birgðahaldið sitt í aðfangakeðjunni. Haustið 2020 skoðuðu þeir hversu margir nautgripir væru í bókunum á búgarði Cody Easterday. Verðmætin voru skráð um 300 milljón dollara af nautgripum. Það var mun stærri hjörð en þeir bjuggust við.

Því var maður sendur á vettvang til að athuga með gripina en sá greip í tómt. Miðað við fjölda rétta sem hjarðir voru geymdar í var engin leið til að stemma fjöldann af. Að kvöldi mánudagsins 30. nóvember 2020 hringdi útsendarinn í framkvæmdastjóra Tyson.

Hvernig getur svo stór aðili, sem framleiðir 2% af kjöti fyrir Tyson, einnig verið að svindla stórfellt á viðskiptavini sínum? Tyson og Easterday voru bundnir viðskiptaböndum. Tyson vildi stöðugt framboð af nautakjöti og Easterday útvegaði það. En nú var viðskiptasambandið í uppnámi. Tyson-menn flugu drónum yfir landareign Codys og töldu nautgripi í þeirra uppeldi. Reyndin var að 265.000 skepnur sem þeir voru að greiða Easterday fyrir voru ekki sjáanlegar.

Cody játaði um leið og upp komst um svikin. Stuldurinn nam 244.031.132 dollurum og ljóst að fjölskylduveldið færi í gjaldþrot. Cody Easterday var dæmdur í ellefu ára fangelsi í október síðastliðnum og situr nú bak við lás og slá.

Frjór jarðvegur í heilagar hendur

Þessi merkilega frásögn Anne King um draugahjörð Easterday dregur einnig fram afar athyglisverða vinkla er varðar jarðnæði. Með falli fjölskylduveldisins misstu þau einnig tangarhaldið af verðmætu ræktunarlandi.

Í Ghost Herd er fjallað um eignarhald á landbúnaðarsvæðum Bandaríkjanna. Kemur þar m.a. fram að 40% landbúnaðarlands sé í eigu fólks sem er yfir 65 ára að aldri og talið er að um þriðjungur ræktarlands Bandaríkjanna muni skipta um eigendur á næstu 15 árum.

Easterday var skipað að selja 9.000 hektara land á hinu gjöfula svæði Columbia basin. Svæðið var ekki eingöngu verðmæt eign vegna jarðgæða, heldur einnig vegna vatns. Jörðinni fylgdu nefnilega forgangsvatnshlunnindi. „Vatnsréttindi stjórna vestrænum heimi. Ef þú átt þau, þá græðir þú,“ segir Anne m.a. í þáttunum.

Verðmæti landbúnaðarlands mun eingöngu aukast næstu árin, sér í lagi land með aðgangi að vatni, og þetta hafa eignamiklir aðilar skilning á. Þannig er Bill Gates, einn af ríkustu mönnum jarðar, stærsti einstaki eigandi landbúnaðarlands í Bandaríkjunum, en hann á um 100.000 hektara um víða veröld.

En milljarðamæringar á borð við Bill eru ekki einir um hituna. Kynnt er til sögunnar Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Trúarstofnunin reynist vera ein af fimm stærstu einstöku eigendum landbúnaðarlands í Bandaríkjunum. Staðhæft er að kirkjan eigi 2% af Flórídaríki.

Og viti menn, kirkja bauð hæst í uppboði á landi Easterdays og er nú eigandi þess verðmæta lands á svæði sem kallað hefur verið eitt af matarkistum heimsins.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...