Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Trump skellir í lás
Mynd / Natilyn Hicks
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Höfundur: Þröstur Helgason

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.

Hugmyndin virðist vera að leita nýs jafnvægis í alþjóðahagkerfinu og þá umfram allt með hagsmuni bandarísks framleiðsluiðnaðar í huga. Starfsfólk hans hefur í stórum stíl misst vinnuna eða í það minnsta misst kaupmátt í kjölfar þess að framleiðsla á raftækjum, fötum, bílum og ýmsu öðru hefur á undanförnum áratugum flust til annarra landa þar sem vinnuafl er ódýrara. Þetta starfsfólk bandarísks framleiðsluiðnaðar var að stórum hluta kjósendur Trumps og með aðgerðinni stendur hann við loforð sín úr kosningabaráttunni um að reisa við framleiðsluiðnað landsins og endurheimta störfin.

Hagfræðingar og fréttaskýrendur virðast sammála um það eitt að ómögulegt sé að spá fyrir um langtímaáhrif tollahækkananna á hagkerfi heimsins. Áhrifamiklir miðlar á borð við Economist og Financial Times segja Trump hafa skotið sig í fótinn og fært Bandaríkin aftur um hundrað ár. Þeir benda á að augljóslega muni vöruverð hækka í Bandaríkjunum og þannig vinna gegn markmiðum aðgerðanna um að styrkja kaupmátt þeirra sem verst standa.

Taugaveiklun á mörkuðum

Flestir óttast bæði skammtíma- og langtímaáhrif aðgerðarinnar á hagkerfi heimsins og alþjóðaviðskipti. Sumir tala um dauða fríverslunar, lok alþjóðavæðingar og banahögg nýfrjálshyggjunnar. Færri halda því fram að aðgerðirnar muni endurreisa bandarískan framleiðsluiðnað, fjölga störfum og hækka laun verkafólks, hvað þá skila réttlátari skiptingu auðs í Bandaríkjunum. Fáeinir tala um að þetta muni á endanum styrkja hagkerfið vestan hafs og auka hagvöxt, en fleiri benda á þá staðreynd að hagvöxtur í Bandaríkjunum hafi á undanförnum árum verið meiri en í Evrópu og víðast annars staðar.

Hvað sem öllum spádómum líður, þá er um tímamót að ræða og umbyltingu á viðskiptum þjóða á milli sem mun líklega taka langan tíma að sjá hvert leiðir. Bretar íhuga viðbrögð en hafa þó lagt áherslu á að anda í kviðinn fyrst um sinn. Evrópusambandið vill semja við Trump um niðurfellingu gagnkvæmra tolla en úr Hvíta húsinu berast svör um að einnig þyrfti að fella niður virðisaukaskatt af vörum frá Evrópu og jafnvel greiða einhvers konar bætur aftur í tímann. Kínverjar hafa þegar hækkað tolla á innflutning frá Bandaríkjunum. Trump sagði þá hafa farið á taugum sem væru mistök. Síðast þegar heyrðist hótaði hann viðbótartollum á Kínverja.

Fyrstu viðbrögð á mörkuðum voru harkaleg. Hlutabréfavísitölur í Asíu og Evrópu féllu nokkuð í verði. Wall Street sveiflaðist og fjárfestar ausa skömmum yfir Trump. Viðskipti voru stöðvuð tímabundið í Japan og víðar. Taugaveiklunin gerir augljóslega vart við sig víðar en hjá hæstráðendum í Kína.

Heimurinn lokast æ meir

Tollar eru varnarviðbragð og mikilvægt tæki til þess að vernda viðkvæmar framleiðslugreinar sem eru til dæmis grundvöllur sjálfbærrar fæðuöflunar og fæðuöryggis meðal þjóða eins og í tilviki íslensks landbúnaðar. En spurningin er sú hvaða áhrif allsherjartollheimta Trumps hefur, ekki einungis á alþjóðahagkerfið heldur og heimspólitíkina.

Aðgerðirnar koma í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsátaka í Evrópu sem þegar hafa haft áhrif á aðfangakeðjur í álfunni. Það hefur til dæmis aukið áherslu á sjálfbæra matvælaframleiðslu þjóða og fæðuöryggi. Þjóðir horfa í auknum mæli inn á við og huga meðal annars að öryggis- og varnarmálum eins og gerst hefur hérlendis og á Norðurlöndunum. En í umræðunni má þegar sjá vangaveltur um það hvort hin langa tollatafla Trumps muni sömuleiðis auka áherslu á verndarstefnu, jafnvel þjóðernishyggju. Hættan er sú að Trump hafi komið óorði á það mikilvæga tæki sem tollar eru.

Tollar Trumps munu draga úr hagvexti í heiminum, að mati Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), en munu þeir einnig hafa áhrif á það hvernig þjóðir líta á alþjóðleg viðskipti og samvinnu? Munu þeir breyta valdahlutföllum í heimsviðskiptum? Hvaða möguleika sjá önnur stórveldi í ástandinu sem skapast?

Spurningarnar hrannast upp og hugmyndafræðileg óvissa virðist síst minni en sú viðskiptalega. Og sú tilfinning hefur styrkst að heimurinn sé að lokast æ meir.

Hörð viðbrögð í innsta hring Trumps við þessari aðgerð benda þó til þess að hann gæti þurft að gera einhverjar breytingar áður en langt um líður.

Skylt efni: bandaríkin

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f