Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sýklalyfjaónæmi ógnar nútíma læknisfræði
Fréttir 16. júlí 2015

Sýklalyfjaónæmi ógnar nútíma læknisfræði

Höfundur: Hörður Kristjánsson

„Sýklalyfjaónæmi er gríðarlegt vandamál sem ógnar nútíma læknisfræði,“ segir Kristján Orri Helgason læknir í nýjasta hefti Læknablaðsins. Hann er sérfræðingur í sýklafræði og smitsjúkdómum á Landspítala Íslands.

Sýklalyfjaónæmi skapast m.a. af ofnotkun á sýklalyfjum í matvæla­framleiðslu en einnig af ofnotkun sýklalyfja hjá mannfólkinu, m.a. á sjúkrahúsum. Saman er þetta að valda stórkostlegum vanda sem mikið hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu á undanförnum misserum og árum.

Grín gert að málinu í pólitískum tilgangi

Viðbrögðin við þessum fregnum hafa verið æði misjöfn. Jafnvel leyfa menn sér að gera grín að stöðunni í einhverju undarlegu pólitísku keiluspili og hagsmunapoti. Á það sérstaklega við hvað varðar kjötinnflutning, þar sem Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, hefur varað við innflutningi á hráu kjöti.

Vanþekking og skilningsleysi á málinu kom m.a. greinilega fram í ræðu við hátíðlega athöfn er haldin var til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta kvenforseta heimsbyggðarinnar, á Arnarhóli sunnudaginn 12. júní. Þar uppskar „brandari“ eins ræðumanns um hræðslu við útlenskt kjöt mikinn hlátur og lófatak.

Hröð útbreiðsla er sérstaklega ógnvekjandi

Kristján Orri Helgason er ekki að skafa utan af hlutunum í vandaðri grein sinni í Læknablaðinu, en þar segir hann: „Sérstaklega ógnvekjandi er hversu hröð útbreiðsla hefur orðið um allan heim á þeim bakteríum sem eru ónæmastar, það er karbapenemasa-myndandi þarmabakteríum (Carbapenemase-producing Enterobacteriaceae), aðallega E. coli og Klebsiella pneumoniae. Þessar Gram-neikvæðu bakteríur eru meðal algengustu og alvarlegustu orsaka blóðsýkinga og spítalasýkinga um allan heim.

Vaxandi ónæmi, meðal annars vegna breiðvirkra beta-laktamasa (BBL, ESBL), takmarkar meðferð­ar­möguleika og nú er svo komið að síðasta vígi sýklalyfjanna, karbapenem-lyfin, er að falla.“

Oft virka engin sýklalyf

Kristján kom einnig inn á lyfjaþróunina í sinni grein og þar er staðan dapurleg.

„Sumar þessara fjölónæmu baktería eru orðnar alónæmar og í þeim tilvikum eru engin sýklalyf sem virka. Bráð vöntun er á nýjum sýklalyfjaflokkum með virkni gegn Gram-neikvæðum bakteríum, en í áratugi hafa lyfjafyrirtæki ekki séð fjárhagslegan ávinning af þróun sýklalyfja. Það eru því nær 30 ár síðan nýr flokkur sýklalyfja kom fram.

Okkur finnst orðið sjálfsagt að það séu alltaf til sýklalyf sem virka á sýkingar, en nú horfum við til framtíðar sem snýr aftur til fortíðarinnar, þegar sjúklingar dóu úr einföldum sýkingum.

Sú framþróun sem hefur orðið í mörgum greinum læknisfræðinnar byggist að miklu leyti á því að hægt sé að meðhöndla bakteríusýkingar sem koma í kjölfar sérhæfðra meðferða (til dæmis skurðaðgerða, krabbameins­lyfjameðferða, líf­færaflutninga). Í sumum löndum eru slíkar lífsgefandi meðferðir að verða lífshættulegar vegna sýklalyfjaónæmis, en dánartíðni vegna sýkinga af völdum karbapenemasa-myndandi þarma­baktería er yfirleitt á bilinu 30–60%.

Nýlega greindist sjúklingur í fyrsta sinn á Íslandi með karba­penemasa-myndandi bakteríu.

Sjúklingurinn veiktist í útlöndum og dvaldi á sjúkrahúsi þar. Ónæmar bakteríur flytjast með sjúklingum milli landa og ef ekkert er að gert dreifast þær innan og á milli spítala. Þetta er sérstaklega líklegt að gerist í löndum þar sem sýkingavarnir eru fjársveltar og þar sem sýklalyfjanotkun er stjórnlaus, en slíkt ástand gerir jarðveginn frjóan fyrir útbreiðslu fjölónæmra baktería.“

Óhófleg sýklalyfjanotkun er meginorsök

Kristján Orri kemur víða við í grein sinni í Læknablaðinu og lýsir hann m.a. stöðunni í útlöndum. Síðan segir hann: „Óhófleg sýklalyfjanotkun er meginorsök sýklalyfjaónæmis og við þurfum því að gæta að sýklalyfjunum okkar, annars missum við þau. Víðast hvar erlendis í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er skipulögð „sýklalyfjagæsla“ (antibiotic stewardship) orðin sjálfsögð og sumstaðar lögbundinn þáttur í starfi spítala. Þessi starfsemi virðist hins vegar hafa átt erfitt uppdráttar hér á landi, stundum verið kölluð „sýklalyfjalöggan“ og þannig fengið á sig neikvæðan stimpil.

Til að sýklalyfjagæsla verði skilvirk þarf skýrt umboð frá stjórn spítalans til að setja saman þverfaglegt teymi sem samanstendur meðal annars af læknum og lyfjafræðingum og það þarf að helga fjármagn og mannauð í þessa vinnu. Ítarlegar leiðbeiningar eru til um þetta. Nú eru síðustu forvöð að koma þessu í lag, því annars verður það of seint,“ segir Kristján Orri Helgason í grein sinni.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...