Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Svört fluga settist á Passíusálmana
Skoðun 19. febrúar 2016

Svört fluga settist á Passíusálmana

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í tilefni þess að verið er að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar á Rás 1 er gaman að rifja upp eftirfarandi sem átti sér á vetrarvertíð 1892 þegar menn ætluðu að leggjast til svefns í sjóbúð á Stokkseyri.

Kvöld eitt fóru allir að sofa nema tveir menn. Ekki leið á löngu áður en þeir tóku eftir því að einn af félögunum fór að láta illa í svefni og umla óskemmtilega. Þeir vöktu manninn og spurðu hvað hann hefði verið að dreyma. Hann sagði sig hafa orðið fyrir einhverjum undarlegum ófögnuði. Skömmu seinna varð annar maður fyrir svipuðu og veinaði eymdarlega. Sjá þeir svo að maður sem svaf við dyragaflinn var sestur upp í rúmi sínu. Allt í einu skipti hann litum, andlitið blánaði og þrútnaði og var eins og hann kýlist saman með hræðilegum hljóðum og eymdarveinum.

Eftir nokkra stund rankaði hann við sér og sagði að sér hefði fundist einhver voðalegur þungi koma yfir sig og að hann hefði misst allan mátt og ekki getað hreyft sig og misst meðvitund.

Næstu nótt tóku verbúðarmenn sig til og fóru að lesa upp úr Passíusálmunum í von um að það yrði þeim vörn. En það dugði ekki því þá kom svört fluga og settist á bókina og urðu menn þá svo hræddir að þeir skelltu henni aftur og hættu lestrinum.

Þeim datt þá það snjallræði í hug að fá lánaða kirkjuklukkuna úr Stokkseyrarkirkju. Hengdu þeir klukkuna upp um kvöldið og urðu einskis varir um nóttina.

Verbúðarmenn urðu nú fegnari en orð fá lýst og hugðust sloppnir við drauginn og skiluðu klukkunni daginn eftir. Næstu nótt varð aðsóknin enn verri og höfðu þeir engan frið fyrir djöfulgangi og ólátum næstu fimm nætur. Eftir það var þeim ekki vært í búðinni lengur og flúðu inn í bæ og lögðu búðarvistina niður. Eftir að þeir fluttu sig gerðist svo reimt í næstu sjóbúð að allir þurftu að flýja úr henni. Hélst reimleiki svo við í ýmsum búðum látlaust í fimm til sex vikur.

Lýsingum á fyrirbærinu bar ekki saman og svo virðist sem það hafi getað breytt sér í allra kvikinda líki. Nokkrir verbúðarmenn sögðu fyrirbærinu bregða fyrir eins og bláleitum gufuhnoðra sem hraktist til og frá, einnig fannst mörgum eins og kynlegur þytur, þungur, snöggur og kaldur fylgdi því. Fyrirbærið sást oft liggja á gluggum og var þá eins og flykki með mörgum öngum sem vildi komast inn.

Hvað sem öllum útskýringum leið voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að losna við þennan fjanda sem allra fyrst og það áður en hann færi að sækja inn í bæ. Nú voru góð ráð dýr því hvorki kirkjuklukkan né Passíusálmarnir virtust duga á drauginn.

Um vorið fréttist að fjölfróður og úrræðagóður maður væri í þorpinu. Leituðu Stokkseyringar til hans og báðu hann að koma þessum fjanda niður.

Maðurinn fékkst við drauginn góða stund og kvað yfir honum mergjaðar vísur og stefndi honum norður í Drangey. Ekki hefur þessarar aðsóknar orðið vart á Stokkseyri eftir þetta en það hefur löngum þótt reimt í Drangey.

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...