Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Úr frystihúsi Vísis hf. í Grindavík. Um 150 manns starfa í fyrirtækinu í landi, þar af rúmlega 100 af erlendum uppruna.
Úr frystihúsi Vísis hf. í Grindavík. Um 150 manns starfa í fyrirtækinu í landi, þar af rúmlega 100 af erlendum uppruna.
Á faglegum nótum 14. október 2022

Yfir helmingur erlent vinnuafl

Höfundur: Guðjón Einarsson

Alls voru rúmlega 4.700 manns starfandi í fiskiðnaði hér á landi á árinu 2021, þar af liðlega 2.600 af erlendum uppruna, eða 56% af heildinni. Erlent vinnuafl er fyrir löngu orðið forsenda vaxtar og viðgangs þessarar atvinnugreinar eins og margra annarra hér á landi.

Samkvæmt tölum sem finna má á vef Hagstofu Íslands voru samtals um 195 þúsund manns starfandi á Íslandi á árinu 2021. Þar af voru liðlega 35 þúsund manns af erlendu bergi brotin, eða 18% af heildinni. Hlutfallið er æði misjafnt eftir atvinnugreinum, eins og gefur að skilja. Hér verður fyrst vikið að sjávarútveginum en síðan að öðrum greinum atvinnulífsins.

Nokkuð jafnt kynjahlufall

Langt er síðan farið var að leita lausnar á manneklu í fiskvinnslu með því að ráða erlent vinnuafl. Þetta fólk hefur dreifst um landið og margt af því hefur fest hér rætur. Á árinu 2021 var starfsfólk í aðalstarfi í fiskiðnaði alls 4.738 talsins, þar af 2.632 af erlendum uppruna eða 56% af heild, eins og áður kom fram. Af erlenda vinnuaflinu voru 1.296 karlar og 1.336 konur, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Langflest þessa fólks var með lögheimili á Íslandi.

Lægra hlutfall á skipunum

Í fiskveiðum er hlutfall innfluttra hins vegar mun lægra. Af einhverjum ástæðum flokkar Hagstofan fiskveiðar og fiskeldi saman og voru starfsmenn í báðum greinum alls 3.637 talsins árið 2021, þar af 524 af erlendu bergi brotnir eða 14% af heild. Af útlendingunum voru 382 karlar og 142 konur.

Undirmenn pólskir – yfirmenn íslenskir

Tökum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísi hf. í Grindavík sem dæmi um þróunina. Þar starfa nú 150 manns í landi, þar af rúmlega 100 útlendingar. Í nýlegu hátæknivæddu frystihúsi eru að heita má allir sem starfa „á gólfinu“, eins og það er kallað, erlendir ríkisborgarar, flestir frá Póllandi, en yfirmenn eru allir Íslendingar nema þrír.

Konurnar vinna við snyrtilínurnar en karlarnir eru á vélunum. Salthúsið og það sem tengist því, þar sem áður unnu eingöngu Íslendingar, er nú einnig mannað með sambærilegum hætti og frystihúsið þótt þar séu enn um 20 manns á gólfi. Ef starfsmaður hættir kemur erlendur starfsmaður í staðinn þar sem ekki fást Íslendingar í þau störf.

Frábært starfsfólk upp til hópa

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir í samtali við Bændablaðið að erlenda starfsfólkið í fiskvinnslunni hafi reynst mjög vel. Upp til hópa sé þetta frábært fólk og frábært vinnuafl. Sumir hafi verið hér áratugum saman, sem segi sína sögu. Oft þyki því vænna um starfið sitt en mörgum Íslendingum.

Margir nýti sér ódýr flugfargjöld og fari heim til Póllands í fríum, jafnvel í löngum helgarfríum.

Það síðarnefnda eigi ekki síst við um sjómennina sem rói gjarnan nokkra túra í röð og taki svo frí þess á milli. Pólverjum hefur verið að fjölga á línuskipum Vísis og eru stöður undirmanna á einu þeirra eingöngu mannaðar Pólverjum en yfirmennirnir eru íslenskir.

Lagskipt samfélag

Pétur segir vandséð hvernig hægt hefði verið að leysa mannekluna í fiskvinnslunni ef útlendingarnir hefðu ekki komið til. Hann er hins vegar hugsi yfir þeirri lagskiptingu sem orðið hafi í þjóðfélaginu öllu með tilkomu erlenda vinnuaflsins.

„Samfélagið er að verða svona alls staðar. Íslendingarnir eru í stjórnunarstöðunum og svo ráðum við til okkar vinnufólk. Vegna menningarmunar verða oft algjör skil milli þessara hópa. Það er ákveðin hætta á hnignun ef við lærum bara að stjórna en lærum aldrei að vinna okkur upp frá grunni. Það er breyting frá því sem áður var,“ segir hann.

Aðrar starfsgreinar

Fiskiðnaðurinn er sú grein þar sem hlutfall erlendra starfsmanna er hvað hæst. En hvað með aðrar starfsgreinar? Á meðfylgjandi töflu sem byggð er á tölum Hagstofunnar má sjá nokkrar þær helstu sem treysta að umtalsverðu leyti á erlent vinnuafl. Hér er valið að birta tölur fyrir árið 2019, síðasta árið fyrir Covid-19, sem gefa ætti raunsannari mynd af „eðlilegu“ ástandi og því sem koma skal en árið 2021.

Á árinu 2019 voru störf rúmlega 201 þúsund, þar af tæp 39 þúsund mönnuð af útlendingum, eða 19% af heild. Það þýðir með öðrum orðum að fimmti hver starfsmaður var af erlendum uppruna.

Ferðaþjónusta og byggingariðnaður

Af einstökum starfsgreinum var fjöldinn mestur í því sem Hagstofan kallar einkennandi greinar ferðaþjónustu en í þeim störfuðu alls tæplega 28 þúsund manns, þar af rúmlega 10 þúsund af erlendum uppruna eða 36% af heild. Þar af störfuðu um 7.000 manns af erlendum uppruna á veitinga- og gististöðum, sem var 46% af vinnuafli þessara staða. Sama hlutfall var í matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu þótt erlendir starfsmenn væru þar færri. Þá má einnig sjá á töflunni að nálægt þriðji hver starfsmaður í byggingariðnaði og mannvirkjagerð var erlendur á árinu 2019. Upptalningin á töflunni er ekki tæmandi. Í sumum greinum er hlutfall útlendinga mjög lágt, eins og t.d. í fjármála- og vátryggingastarfsemi, eða aðeins 2%.

Fækkun vegna heimsfaraldurs

Heimsfaraldurinn gerði það að verkum að starfandi fólki af erlendum uppruna fækkaði milli áranna 2019 og 2021 úr 38.900 í 35.200. Fækkunin varð mest í veitinga- og gistiþjónustu, eins og gefur að skilja, eða úr 7.000 manns í 4.800 manns (því má skjóta inn að árið 2008 voru útlendingar í ferðaþjónustu innan við 2.000 talsins). Einnig varð fækkun í byggingariðnaði og flutningastarfsemi á Covid-tímanum en fjölgun varð í verslunargeiranum og í fræðslu- og velferðarkerfinu.

Almennt verkafólk ríkjandi

Ekki tókst við samantekt þessa að finna sundurliðaðar upplýsingar um það hversu stór hluti erlenda vinnuaflsins gæti flokkast sem almennt verkfólk en af töflunni má ráða að það sé nokkuð ríkjandi. Það segir líka sína sögu að í Eflingu, næststærsta verkalýðsfélagi landsins, sem hefur 25-30 þúsund manns innan sinna vébanda, eru 53% félagsmanna af erlendum uppruna, þar af 21% frá Póllandi. Ekki er þar með sagt að allir sem hingað koma til að vinna séu ófaglærðir. Töluverður fjöldi útlendinga með sérmenntun er hér í störfum við sitt hæfi, þótt einnig séu dæmi um að fólk kvarti undan því að fá ekki menntun sína viðurkennda eða metna eða sé sniðgengið vegna vankunnáttu í íslensku eða af því einu að bera erlent nafn.

Breyttur vinnumarkaður

Íslenskur vinnumarkaður hefur tekið gríðarlegum breytingum í seinni tíð. Í lok þenslutímabilsins sem lauk með hruninu 2008 voru 22.500 manns af erlendum uppruna í starfi á Íslandi, eða 12,5% af heildarvinnuaflinu. Árið 2019 voru þeir orðnir 38.900, eða 19% af heildinni eins og fram hefur komið.

Á þessum tólf árum hafði þeim sem sagt fjölgað um 16.400, eða um 77%. Þótt nokkuð hafi dregið úr fjölda bæði innfæddra og innfluttra í starfi í heimsfaraldrinum skráir Hagstofan samt 35.200 manns af erlendu bergi brotið á vinnumarkaðnum á árinu 2021, eða 18% af heild.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...