Stuðlagil fékk hæsta styrkinn
Alls hlutu 28 verkefni styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en heildarupphæð til úthlutunar nam rúmum 553 milljónum króna.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra úthlutaði styrkjunum á dögunum og hlaut verkefni til áframhaldandi uppbyggingar við Stuðlagil á Jökuldal hæsta styrkinn, eða um 90 milljónir. Stuðlagil er fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi og er markmið uppbyggingarinnar áframhaldandi náttúruvernd og bætt öryggi ferðamanna sem heimsækja Stuðlagil Grundarmegin.
Næsthæsti styrkurinn fer til uppbyggingar við Staðarbjargarvík við Hofsós, eða rúmar 62 milljónir, þar sem markmiðið er að bæta aðgengi ferðamanna að mikilli náttúrufegurð og jarðmyndunum.
Aukið öryggi og bætt aðstaða
Þriðji hæsti styrkurinn, að upphæð rúmra 36 milljóna, fór í verkefnið Fjarðabyggð Búðarárfoss í gerð malarstíga og dvalarsvæða. Auk þess verður lagður grunnur að næsta stigi framkvæmda með gerð verkteikninga og verklýsingar að pallastíg og útsýnispalli. Markmið verkefnisins er að auka öryggi og bæta aðstöðu fyrir göngufólk.
Í umfjöllun á vef atvinnuvegaráðuneytis kemur fram að verkefnin sem hlutu styrki snúi venju samkvæmt að fjölbreyttri uppbyggingu, meðal annars á sviði öryggismála, náttúruverndar og innviðauppbyggingar. Af þeim verkefnum sem fá styrk eru 26 af 28 verkefnum skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis sem eru unnar heima í héraði á forsendum heimafólks.
Fæstir erlendir ferðamenn á Austurlandi og Vestfjörðum
Í úthlutuninni að þessu sinni var lögð áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils. Gæðamat sjóðsins tók mið af þeirri áherslu. Af þeim 28 verkefnum sem hlutu styrk eru 10 á Austurlandi og 4 á Vestfjörðum en fæstir erlendir ferðamenn gista á þessum landsvæðum. Yfirlit um verkefnin 28 má finna í gegnum vef atvinnuvegaráðuneytisins.
Markmið Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.