Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, segir breiða sátt vera um að styðja við íslenskan landbúnað.
Á degi landbúnaðarins sl. haust sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og nú utanríkisráðherra, að Íslendingar vildu öflugan íslenskan landbúnað. Þorgerður var ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs árið 2017. Hún sat fyrir svörum í panel á degi landbúnaðarins 11. október sl.
Spurð um hvað hefði helst komið henni á óvart þegar hún tók við landbúnaðarmálunum á sínum tíma, svaraði hún því til að ráðherrastarfið 2017 hafi verið mest gefandi starf sem hún hefði nokkru sinni sinnt.
„Það sem kom mér ánægjulega á óvart er þessi breiða sátt sem er um að styðja við íslenskan landbúnað. Við viljum öflugan íslenskan landbúnað. Það er ekki bara um sveitir landsins heldur þvert yfir allt landið. Við þurfum að nýta þann meðbyr, skilning og þá sátt sem er um þessa frábæru atvinnugrein,“ sagði hún.
Bóndinn fær síðustu krónuna
Þorgerður Katrín sagði bændur starfa ötullega og að síðasta krónan fyrir afurðirnar væri jafnan greidd til bóndans sjálfs. „Hann fær síðustu krónuna þegar allir aðrir eru búnir að fá sitt, s.s. milliliðirnir,“ sagði hún og rifjaði upp umræðu á fundi ungra bænda nokkru áður, um hinn mikla fjármagns- og launakostnað í greininni, sem alltaf væri hærri hér en annars staðar.
Að hennar mati væri stóra viðfangsefnið hvernig unnt sé að taka vel á móti ungum bændum og efla nýliðun.
„Ef ég ætti að forgangsraða af öllu því sem kemur inn í ráðuneyti landbúnaðarmála, þá væri það að ýta undir nýliðun og skapa þannig umgjörð til að styðja við unga bændur, og það mun kosta stuðning.
Síðan er hitt, sem við þurfum náttúrlega að velta fyrir okkur, að oft og tíðum finnst mér meiri tími af hálfu bænda, eða Bændasamtakanna, fara í pólitískt lobbí sem þarf á að halda heldur en í rauninni hvað bændur eru að gera heima á sjálfum búunum.
Við þurfum að fókusera meira á og veita bændum þetta frelsi af því að þeir eru bestir til að meta hvað þeir eiga að framleiða eða vilja framleiða,“ sagði Þorgerður Katrín enn fremur. Í því samhengi yrði að horfa á þau tækifæri sem væru í íslenskum landbúnaði.
Efling nýsköpunar og ungra bænda
„Ég vil sjá meiri nýsköpun. Það er einhver ástæða fyrir því að hún er ekki meiri, þrátt fyrir að hún sé þó töluverð, það er ekki spurning, en við getum séð enn meira.
Ég hef margítrekað sagt að mestu sóknarfærin af atvinnugreinum, auk ferðaþjónustu þar sem fullt er að gerast, eru í landbúnaði ef við höldum rétt á spilunum. Þá eigum við ekki að vera hrædd við að gera ákveðnar breytingar til að ýta undir nýsköpun og unga bændur þannig að við tökum betur utan um þessa grein,“ sagði Þorgerður Katrín.