Sameining til skoðunar
Könnunarviðræður um hugsanlega sameiningu eru að fara í gang milli Dalabyggðar og Húnaþings vestra.
Um miðjan desember sl. samþykktu sveitarstjórn Húnaþings vestra og Dalabyggðar að skipa fulltrúa í verkefnishóp til að skoða fýsileika formlegra viðræðna milli sveitarfélaganna um sameiningu. Hópurinn á að skila niðurstöðum fyrir 30. apríl nk.
Markmið hópsins er að kanna hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Viðræðurnar munu m.a. fela í sér mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, skipulagi og starfsemi og mat á væntum breytingum við mögulega sameiningu. Verkefnishópnum er falið að leita eftir sjónarmiðum íbúa í ferlinu.
Á næsta ári, 2026, er gert ráð fyrir að sveitarfélög telji minnst 1.000 íbúa. Í Húnaþingi vestra búa nú um 1.260 manns og í Dalabyggð 660. Haustið 2024 voru sveitarfélög 62 talsins en voru flest 229 talsins árið 1950. Miðað við núverandi íbúatölur allra sveitarfélaga má gera ráð fyrir að vel á þriðja tug sveitarfélaga þurfi að hugsa sinn gang í sameiningarmálum hvað líður.
Árétta bæði sveitarfélög að í óformlegum sameiningarviðræðum felist engin skuldbinding af þeirra hálfu. Reiknað er með að ef farið verði í formlegar viðræður gætu þær hafist næsta haust og íbúakosning færi þá fram snemma á næsta ári. Kosið yrði í sameinuðu sveitarfélagi samhliða sveitarstjórnarkosningum 2026.