Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Í glösunum er rauðáta sem safnað hefur verið úr innvolsi makríls.
Í glösunum er rauðáta sem safnað hefur verið úr innvolsi makríls.
Mynd / Síldarvinnslan
Fréttir 12. nóvember 2021

Rauða gullið og Síldarvinnslan

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nýlega var tilkynnt um styrkveitingu Matvælasjóðs til verkefnis á vegum Síldarvinnslunnar sem ber heitið Rauða gullið.

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum og er í því sambandi lögð áhersla á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Styrkurinn sem verkefnið hlaut nemur rúmlega 19 milljónum króna.

Fullvinna astaxanthínríkt lýsi úr rauðátu

Meginmarkmið verkefnisins er að fullvinna astaxanthínríkt lýsi úr rauðátu sem berst á land sem aukahráefni eða meðafli við veiðar á makríl. Rauðáturíkum hliðarstraumum verður safnað saman við fullvinnslu á makríl í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem komið hefur verið upp sérstökum söfnunarbúnaði. Prófaðar verða þrjár mismunandi vinnsluaðferðir við framleiðslu á umræddu lýsi. Í fyrsta lagi verður notast við hitameðhöndlun á hráefninu án ensíma, í öðru lagi verða ensím notuð og í þriðja lagi verður aðskiljun án hita rannsökuð. Heildarheimtur með hverri aðferð verða metnar og gerðar gæðagreiningar og stöðugleikapróf á hinu framleidda lýsi. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður framleiðsluaðferð valin.

Rannsóknir frá árinu 2016
Caption

Mikil vinna hefur verið lögð í kortlagningu á rauðátu við Ísland og mögulegri nýtingu á henni og byggði styrkumsókn Síldarvinnslunnar til Matvælasjóðs á þeirri forvinnu. Rannsóknirnar á rauðátunni hófust árið 2016 en þá hófst vinna við verkefni sem bar yfirskriftina Áhrif rauðátu við veiðar og vinnslu uppsjávarfisks.

Niðurstöður þessa verkefnis leiddu í ljós að rauðátan í makríl við Ísland er rík af fjölómettuðum fitusýrum og í henni finnst einnig áhugaverð einómettuð fitusýra. Þá kom í ljós að átan er rík af andoxunarefninu astaxanthín. Rauðáturíkir straumar sem mynduðust við vinnslu á makríl voru kannaðir og varð niðurstaðan sú að efnasamsetning þeirra var sambærileg við það sem sást í hreinni rauðátu. Hluti af verkefninu var að kanna möguleika á sölu á afurðum úr rauðátunni og kom fram að eftirspurn eftir fjölómettuðum fitusýrum, sem framleidd væri með sjálfbærum hætti, var mikil og sama gilti um andoxunarefnið astaxanthín.

Myndarlegir styrkir

Árið 2020 fékkst Evrópustyrkur frá BlueBioCofund til að greina bestu útdráttaraðferðir innihaldsefna úr rauðátu ásamt grunneiginleikum innihaldsefnanna. Niðurstöður fyrsta árs þessarar vinnu gefa til kynna að notkun hita og ensíma sé góð útdráttaraðferð á olíu úr rauðáturíkum straumum en unnið er áfram að rannsóknum.

Árið 2020 styrkti AVS- styrktarsjóðurinn einnig rauðátuverkefnið og var styrkurinn veittur til vöruþróunar á hágæða afurðum og innleiðingu þeirra á markað. Innan þessa verkefnis var áhersla lögð á að þróa tækjabúnað til að safna rauðátu úr innyflum makríls og var uppsetningu þess búnaðar lokið í ár í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hafin söfnun sýna.

Síldarvinnslan og Matís vinna saman

Síldarvinnslan og Matís hafa átt í góðu samstarfi um rannsóknir á rauðátunni og hefur dr. Stefán Þór Eysteinsson haft yfirumsjón með þeim. Áður hefur verið greint frá svonefndri uppsjávarsmiðju sem komið hefur verið upp í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og mun tækjabúnaður hennar nýtast vel við rannsóknir á átunni og fleiri rannsóknir sem efnt hefur verið til í samvinnu við austfirska uppsjávariðnaðinn. Verkefnið Rauða gullið miðar að því að bæta nýtingu á því hráefni sem berst á land og um leið auka verðmæti þess. Sindri Sigurðsson, verkefna- og þróunarstjóri Síldarvinnslunnar, segir að verkefnið sé spennandi og full ástæða til að ætla að það skili áhugaverðri niðurstöðu. „Hér er um að ræða frekari nýtingu á hráefni sem fellur frá við manneldisvinnslu. Undirstaða alls í verkefninu er ferskleiki hráefnisins. Það er ferskleikinn sem opnar dyr fyrir annars konar afurðir en þær krefjast breytinga á vinnsluferlum. Síldarvinnslan hefur átt mjög gott samstarf við Matís og menntastofnanir í gegnum árin og nýtt sér sérþekkingu og mannauð til að komast einhver skref áfram hvað varðar meðhöndlun hráefnis og aukna verðmætasköpun. Segja má að veiðar á rauðátu séu óbeinar því hana er að finna í innvolsi uppsjávarfiska. Það felast verðmæti í rauðátunni og það er mikilvægt og spennandi að finna leiðir til að hagnýta hana. Auk þess skiptir máli að taka rauðátuna út úr vinnsluferli fiskimjöls en hún leiðir beinlínis til að gæði mjöls minnka,“ segir Sindri Karl.

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...