Nám í skapandi sjálfbærni á háskólastig
Námi í skapandi sjálfbærni á Hallormsstað verður frá og með næsta hausti haldið úti í samstarfi við Háskóla Íslands. Nemendur munu innritast í Háskóla Íslands og fá háskólaeiningar fyrir staðnám í skapandi sjálfbærni á Hallormsstað.
Á Hallormsstað hefur frá árinu 2019 verið byggt upp nám í skapandi sjálfbærni þar sem náttúran og samfélagið mynda vettvang náms og nýsköpunar. Í náminu er unnið með staðbundnar auðlindir á sjálfbæran og skapandi hátt.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir skólann leggja mikla áherslu á að starfa í þágu alls landsins og með þessu fyrsta staðbundna háskólanámi á Austurlandi sé stigið nýtt og mikilvægt skref í þeim efnum.
„Það skapar í senn tækifæri fyrir heimafólk og nemendur annars staðar á landinu að nema í því fallega og hvetjandi umhverfi sem finna má á Hallormsstað og í Hallormsstaðaskóla. Sjálfbærni er einn af lykilþáttum í stefnu Háskóla Íslands og með þessu nýja og spennandi námi eru nýttar ólíkar greinar vísinda, lista og handverks til að mennta fólk til að skapa ný tækifæri fyrir íslenskt samfélag í sátt við íslenska náttúru.“
Þegar árstíðirnar kenna
Skapandi sjálfbærni er eins árs, 60 ECTS eininga grunndiplóma á Menntavísindasviði HÍ. Náttúran sjálf gegnir lykilhlutverki í náminu sem sameinar fræðilega þekkingu og verklega færni með áherslu á skapandi nálgun, sjálfbærni og tengingu við samfélag, sögu staðarins og umhverfi. Kennslan skiptist í sex námskeið sem kennd eru í fimm vikna lotum og þróast í takt við árstíðirnar – haustið hefst með söfnun og vinnslu, veturinn dregur fram handverkið og rætur sjálfbærni og vorið leiðir í ljós lausnamiðaða hugsun og skapandi úrvinnslu.
Frá hausti til vors – ferðalag í sex námslotum
Í lýsingu á námsleiðinni segir: „Haustið hefst á námskeiðinu Lifað af landinu, þar sem lögð er áhersla á nytjasöfnun, nýtingu staðbundinna hráefna og siðfræði náttúrunýtingar. Í Skapandi sjálfbærni vinna nemendur að sjálfbærum lausnum og dýpka skilning á hugtökunum sjálfbærni og skapandi hugsun. Haustmisserinu lýkur með námskeiðinu Sjálfbært samfélag þar sem fjallað er um menningararf, handverk og samfélagslega nýsköpun og hvernig fortíð mótar sjálfbærnileiðir nútímans.
Fyrsta námskeið vormisseris er Lausnamiðuð sjálfbærni þar sem nemendur greina áskoranir nútímans og þróa hagnýtar lausnir. Síðan tekur við Skapandi ferli og nýting auðlinda þar sem áhersla er lögð á meðhöndlun og sköpun úr fjölbreyttum auðlindum á sjálfbæran hátt. Námsárinu lýkur á námskeiðinu Arftakar framtíðar sem eflir nemendur í að verða virkir þátttakendur og leiðtogar í mótun sjálfbærrar framtíðar.“
Opið fyrir umsóknir
Opið er fyrir umsóknir á hi.is/hallormsstadur og rennur umsóknarfrestur út 5. júní 2025.