Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mest sykurneysla en minnst borðað af grænmeti á Íslandi
Fréttir 1. febrúar 2017

Mest sykurneysla en minnst borðað af grænmeti á Íslandi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Embætti landlæknis hefur staðið fyrir norrænni könnun á mataræði, hreyfingu og holdafari hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Meira er borðað af sykurríkum vörum hér en á hinum Norðurlöndunum og minnst er neysla á grænmeti og ávöxtum á Íslandi.

Í skýrslu vegna könnunarinnar kemur fram að fleiri fullorðnir á Norðurlöndunum borða óhollan mat samkvæmt könnuninni 2014 miðað við 2011. Hlutfall Norðurlandabúa sem borða óhollan mat hefur aukist úr 18% árið 2011 í 22% árið 2014. Ef eingöngu eru skoðaðar tölur fyrir Ísland þá er aukningin meiri hér á landi, fer úr 19% í 25%.

Íslendingar borða minnst af grænmeti

Á Íslandi er meira borðað af sykurríkum matvörum, súkkulaði, sælgæti, kökum og gosdrykkjum, en á hinum Norðurlöndunum. 

Íslendingar borða minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og hefur neyslan hér ekki breyst á tímabilinu. Sömuleiðis borða Íslendingar minnst af heilkornabrauði og hefur neyslan minnkað milli ára. Fiskneysla er aftur á móti mest á Íslandi.

Fullorðnir Íslendingar feitastir

Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum.

Jákvæð þróun í mataræði barna

Niðurstöður varðandi mataræði barna á Norðurlöndunum eru jákvæðari en hjá fullorðnum. Tæplega 15% norrænna barna flokkast með mataræði sem telst óhollt. Hlutfallið á Íslandi er sambærilegt við hin Norðurlöndin.

Félagslegur ójöfnuður í mataræði hefur þó aukist meðal barna á Norðurlöndum. Þannig teljast tvöfalt fleiri börn foreldra með minnstu menntun borða óhollt.

Börn hreyfir sig of lítið

Sex af hverjum tíu norrænum börnum hreyfa sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu árið 2014 líkt og 2011. Finnsk og íslensk börn hreyfa sig helst í samræmi við ráðleggingarnar. Norrænar stúlkur uppfylla síður ráðleggingarnar en drengir.

Íslensk og finnsk börn borða mest af sykurríkum fæðutegundum. Íslensk og norsk börn borða aftur á móti minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og íslensk og sænsk börn borða minnst af heilkornabrauði og minnkaði neysla á heilkornabrauði hér á landi á tímabilinu. Íslensk börn borða aftur á móti mest af fiski.

Fullorðnir hreyfa sig lítið

Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18 til 24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast.

Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga.

Skylt efni: lýðheilsa | Íslendingar

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.