Ljósmyndasýning á Eyrarbakka
Síðustu helgi var opnuð ljósmyndasýning í Gömlu kartöflugeymslunni við Búðarstíg á Eyrarbakka.
Á sýningunni eru ljósmyndir sem Magnús Karel Hannesson tók árið 1993 af laxveiði í net fyrir landi Óseyrarness, sem liggur að Ölfusá neðanverðri. Ljósmyndirnar sýna þann andblæ og eftirvæntingu sem ríkti á veiðistaðnum á góðum sumardegi fyrir rúmum þrjátíu árum síðan og varpa ljósi á aldagamla veiðiaðferð sem lagðist af aðeins örfáum árum eftir að myndirnar voru teknar.
Sýningin var hluti af Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka 20.–22. júní og verður aftur opin laugardaginn 28. júní kl. 13–15 og sunnudaginn 29. júní kl. 13–16.
