Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Landgræðsluverðlaunin 2021
Fréttir 18. maí 2021

Landgræðsluverðlaunin 2021

Höfundur: Vilmundur Hansen

Árni Bragason landgræðslustjóri afhenti nýlega Landgræðsluverðlaunin 2021. Þau eru afhent einstaklingum, félagasamtökum og sveitarfélögum sem hafa þótt sýna góðan árangur við landgræðslu og landbætur og voru fyrst afhent 1990.

Verðlaunahafar þetta árið eru Skútustaðahrepppur, Bláskógaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni og bændur á Stóru-Mörk III undir Vestur-Eyjafjöllum.

Skútustaðahreppur – Sveitarfélag með virka umhverfisstefnu

Í umhverfislegu tilliti er náttúrufar í Skútustaðahreppi einstakt. Meirihluti sveitarfélagsins er í óbyggðum og nær það upp á miðjan Vatnajökul.

Íbúar í Skútustaðahreppi eru upp til hópa miklir áhugamenn um umhverfismál og landvernd. Framsæknar sveitarstjórnir liðinna ára og áratuga beittu sér í umhverfismálum og hafa nú íbúar í Skútustaðahreppi tekið forystuhlutverk á ýmsum sviðum umhverfismála. Sveitarfélagið hefur sett sér metnaðarfulla og virka umhverfisstefnu.

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri, segir að verkefnið „Bændur græða landið“ (BGL) hafi fest rætur í sveitarfélaginu og skilað miklum árangri. Þá hafi samstarf við Landgræðsluna í fjölmörg ár haft mikið að segja og m.a. hjálpað bændum að stýra sauðfjárbeit á skilvirkan hátt. Hér má líka nefna Landbótasjóð sem hefur stutt marga til landbóta.

Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega í Skútustaðahreppi á liðnum árum. Sveitarstjórnarmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að álag á vistkerfi Mývatns væri of mikið og fráveitumálum þyrfti að koma í betra horf. Ákveðið var að fara svonefnda „svartvatnsleið“ og byggður tankur fyrir svartvatn á Hólasandi. Verkefninu má lýsa á þann hátt að ákveðið hafi verið taka á brott vandamál og breyta yfir í tækifæri.

Í tengslum við sameiningaviðræður Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hefur verið lögð enn þyngri áhersla á umhverfismál og tengingu þeirra við loftslagsmál. Í þessu sambandi má nefna dreifingu á heyrúllum og lífrænum áburði.

Undanfarin misseri hefur verið mikil vakning í umhverfismálum á svæðinu sem hefur leitt ​ þess að enn fleiri tækifæri hafa verið greind. Nefna má söfnun á öllum lífrænum úrgangi í héraði og nýtingu hans til uppgræðslu og/eða ræktunar. Aftur eru Mývetningar að breyta vandamáli í tækifæri.

Þótt víða hafi gríðarlega mikið áunnist í að hefta uppblástur eru verkefnin ærin víða um land. Úr ljósmyndasafni Landgræðslunnar

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekur við Landgræðsluverðlaununum 2021.
F.v.  Sigurður Böðvarsson, Dagbjört Bjarnadóttir, Sveinn Margeirsson sveitarstjóri, Árni Bragason landgræðslustjóri,  Halldór Þorlákur Sigurðsson, Helgi Héðinsson oddviti, Elísabet Sigurðardóttir.

Bláskógaskóli og Menntaskólinn á Laugarvatni – Langimelur

Verkefnið við Langamel hófst árið 2016. Umhverfisnefnd ML frétti af verkefni Landverndar um vistheimt með skólum og vildi vera með í því. Nefndin ákvað að taka fyrir uppblásið svæði sem næst skólanum og fékk leyfi til að hefja uppgræðslu á Langamel. Langimelur er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Laugarvatni, við gamla Lyngdalsheiðarveginn og vegarslóði er upp að honum.

Svæðið er að hálfu innan skógræktargirðingar og því ákjósanlegt til að rannsaka áhrif beitar báðu megin girðingar. Nemendur í jarðfræði settu upp tilraunareiti með hjálp Landverndar og nemendur unnu með þá í nokkur ár.

Árið 2018 sást greinilega að svæðinu í kringum reitina hafði hrakað mikið yfir veturinn. Umhverfisnefndin ræddi þá Hrein Óskarsson og Trausta Jóhannson í Skógrækt ríkisins um að hjálpa til við að skipuleggja hertar aðgerðir á öllu svæðinu. Eins var grunnskólanum á Laugarvatni boðið að koma í samstarf um þetta stóra verkefni og hefur Guðni Sighvatsson verið þar fremstur í flokki.

Aðstandur verkefnins fengu styrk frá sveitarfélaginu til að byrja uppgræðsluna. Svæðinu var skipt upp í aðgerðarsvæði og í maí 2019 var hafist handa við að setja niður birki á fyrsta hlutann ásamt því að sá grasfræi og hvítsmára og gefa áburð. Verkefnið fékk styrk frá Landsbankanum til áframhaldandi aðgerða 2020 og 2021.

Hingað til hafa nemendur plantað 1420 birkitrjám, gefið 425 kg af áburði, sáð 50 kg af gras- og smárafræjum og sett 1 gamla heyrúllu í rofabarð.

Áframhaldandi aðgerðir halda áfram í maí 2021 og um ókomna framtíð ef fjármagn fæst til verkefnisins.

Þótt víða hafi gríðarlega mikið áunnist í að hefta uppblástur eru verkefnin ærin víða um land. Úr ljósmyndasafni Landgræðslunnar

Árni Bragason afhendir Heiðu Gehringer frá Menntaskólanum á Laugarvatni, Guðna Sighvatssyni frá Bláskógaskóla og hópi nemenda Landgræðsluverðlaunin.

 

Bændur Stóru-Mörk III, sannir landgræðslubændur

Bændur í Stóru-Mörk III undir Vestur-Eyjafjöllum og bændur á Merkurbæjunum voru afar afkastamiklir á árunum eftir Þjóðargjöfina við að græða upp víðfeðm rofabörð á jörðum sínum í samstarfi við Landgræðsluna og Merkurbændur þar jafnan fremstir í flokki. Þeir beittu sér einnig fyrir gerð varnargarða við Markarfljót en það hafði um margra áratuga skeið brotið land jarðanna í Mörk.

Þeir tóku virkan þátt í samningaferlinu um beitarfriðun Almenninga, sem hófst 1985 og lauk 1990 með samningi við Landgræðsluna. Þar með var allt Þórsmerkursvæðið beitarfriðað. Merkurbændur hvöttu einnig sveitarstjórn til að leggja framlag á móti Landgræðslunni vegna uppgræðslu og gróðurbóta á þessum afréttum. Framlagið sýndi vel áhuga heimafólks á vernd og endurheimt landkosta og gerði það m.a. Landgræðslunni kleift að beitarfriða allt Þórsmerkursvæðið með því að girða á landi þeirra úr Jökulsárlóni og í Markarfljót.

Bændur í Stóru-Mörk III voru einnig í framvarðasveit Merkurbænda sem í kjölfar öskufalls úr Eyjafjallajökli árið 2010 hófu uppgræðslu í samstarfi við Landgræðsluna á jökuláraurum í Merkurnesi og allt inn að Gígjökli. Uppgræðslan batt gjóskuna og kom þar með í veg fyrir að askan bærist yfir byggðirnar beggja megin við Markarfljótið. Bændurnir á Merkurbæjunum, í samstarfi við Landgræðsluna, girtu varnargirðingu í heimalandi þeirra úr Markarfljóti og upp í fjalllendið til að friða þessar uppgræðslur fyrir beit og gera þær öflugri til að takast á við næsta öskufall og náttúruhamfarir. Nú er víði- og birkigróður að nema þarna land sem gerir viðnámsþrótt landsins enn öflugri.

Landgræðslustjóri afhendir bændum Stóru-Mörk III landgræðsluverðlaunin 2021

Bændur í Stóru-Mörk III taka við verðlaunagripnum.
F.v. Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir, Eyvindur Ágústsson, Ragnheiður Elín Eyvindsdóttir, Ragna Aðalbjörnsdóttir, Ásgeir Árnason og Árni Bragason landgræðslustjóri. Dímon í baksýn.

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út
Fréttir 5. júní 2023

Árlegt rit Sögufélags Eyfirðinga komið út

Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971 með það fyrir augum að safna, skipule...

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði
Fréttir 5. júní 2023

Framtíð jarðvangs hangir á bláþræði

Sveitarfélögin á Suðurlandi geta ekki rekið Kötlu jarðvang án þátttöku ríkisins ...

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur
Fréttir 5. júní 2023

Enginn tannlæknir á Hvolsvelli lengur

Íbúar á Hvolsvelli og í sveitunum þar í kring eru nú án tannlæknis.

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...