Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildarfundi NautBÍ.
Á Kvíabóli búa þau Haukur Marteinsson og Ingiríður Hauksdóttir og stunda þar mjólkurframleiðslu ásamt framleiðslu nautakjöts auk gras- og kornræktar.
Í rökstuðningi með viðurkenningunni kemur fram að árangur búsins hafi vakið eftirtekt, kýrnar mjólki með miklum ágætum og meðalnyt hafi verið yfir 7 þús. kg undanfarin ár, eða vel yfir meðaltali landsins.
„Árangur í framleiðslu nautakjöts hefur ekki verið síðri en þar hefur búið skipað sér í fremstu röð þrátt fyrir að framleiðslan byggi einkum á alíslenskum gripum. Sem dæmi eru 97 gripir sem fargað hefur verið á síðustu 12 mánuðum með ríflega 290 kg fallþunga við 590 daga aldur sem er fyllilega sambærilegt við árangur búa sem byggja sína framleiðslu á holdablendingum,“ sagði Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda, þegar hann veitti þeim Hauki og Ingiríði viðurkenninguna.
Hægt verður að fylgjast með búskapnum á Kvíabóli á Instagram Bændablaðsins næstu daga en viðtal við Ingiríði og Hauk má nálgast HÉR.
