Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður deildar kúabænda og varaformaður Bændasamtaka Íslands.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður deildar kúabænda og varaformaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / Aðsend
Fréttir 13. maí 2022

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum

Höfundur: smh

Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljóts­dalshéraði, var kjörin formaður deildar kúabænda innan Bændasamtaka Íslands (BÍ) á Búgreinaþingi í byrjun mars.

Hún var kjörin í stjórn BÍ á síðasta Búnaðarþingi og síðan var samþykkt samhljóða á stjórnarfundi BÍ 19. apríl að hún yrði varaformaður samtakanna á kjörtímabilinu. Blikur eru á lofti varðandi framboð og verð á aðföngum fyrir evrópska bændur í ljósi stríðsátaka í Úkraínu – og íslenskir nautgriparæktendur fara ekki varhluta af því. Herdís segir að allir framleiðendur finni fyrir auknum verðhækkunum og kúabændur séu misvel í stakk búnir til að bregðast við ástandinu.

Þann 1. apríl var tilkynnt um ákvörðun verðlagsnefndar búvara um verðbreytingar á annars vegar lágmarksverði til bænda og hins vegar heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða. Afurðaverðshækkun til bænda var um 6,6 prósent, en vörurnar hækkuðu um 4,4 prósent. Skiptar skoðanir eru meðal kúabænda um hvort hækkunin til þeirra hafi verið nægileg, til að halda í við verðhækkanir á aðföngum og launakostnaði. Herdís, sem situr í verðlagsnefndinni, segir að flestir bændur sem hún hafi rætt við séu ánægðir með þá hækkun sem þeir fengu 1. apríl, þótt óánægjuraddir heyrist einnig.

Verðákvörðun tekur mið af kostnaðarbreytingum á aðföngum

„Verðlagsnefnd búvöru er skipuð og starfar eftir ákvæðum búvörulaga. Nefndin ákveður lágmarksverð til bænda og heildsöluverð á mjólk og ákveðnum mjólkurvörum svo sem smjöri, osti og dufti. Við verðákvörðun á lágmarksverði 1.flokks mjólkur til bænda er stuðst við svonefndan verðlagsgrundvöll kúabús sem er reiknaður fjórum sinnum á ári og tekur meðal annars mið af kostnaðarbreytingum á aðföngum til mjólkurframleiðslu. Nefndin starfar samkvæmt lögum og verðleggur út frá reiknuðum hækkunum í verðlagsgrunninum,“ útskýrir Herdís.

„Við síðustu verðákvörðun vó hækkun á áburðarkostnaði langmest en sá liður hafði þá hækkað um 87 prósent. Auk þessa hafa önnur aðföng hækkað mikið, svo sem kjarnfóður, olía, varahlutir og allt sem viðkemur viðhaldi. Tryggingar og fasteignagjöld, laun og þjónusta; svo sem dýralæknaþjónusta og sæðingar. Kostnaður við allan flutning hefur einnig farið hækkandi.

Þær hækkanir sem hafa verið gerðar á mjólkurvörum eru gerðar til þess að mæta auknum framleiðslukostnaði og fara ekki beint í vasa bænda líkt og mætti stundum lesa úr umræðunni,“ segir Herdís.

Aukinn kostnaður kemur fram í verðlagi

Verðhækkanir á matvörum og sérstaklega mjólkurvörum hafa nokkuð ratað inn í þjóðfélagsumræðuna að undan­förnu. Herdís segir að fulltrúar afurðastöðva séu betur til þess fallnir að svara til um verð á mjólkurvörum almennt. „Eins og önnur fyrirtæki verða bæði mjólkurframleiðendur og afurða­stöðvar að sækja aukinn framleiðslukostnað út í verðlagið til þess að tryggja sína framleiðslu.

Launahækkanir og aukinn kostnaður við flutninga, umbúðir og hráefni eru þeir liðir sem hafa einna helst haft áhrif á kostnað afurðastöðvanna.

Áburðarhækkun þessa árs var tekin inn í síðustu ákvörðun verðlagsnefndar en áburðarliðurinn er aðeins reiknaður inn einu sinni á ári. Það er svo ófyrirséð hvað gerist með áburðarverð á næsta ári. Verð á öðrum aðföngum eru annars á stöðugri uppleið, s.s. olía og kjarnfóður, sem eru mikilvægir rekstrarliðir í mjólkurframleiðslu,“ segir hún.
Þörf á nýjum verðlagsgrundvelli

Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu voru ýmis teikn á lofti um að rekstraröryggi íslenskra kúabúa væri ógnað. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins gaf út skýrslu í febrúar þar sem beinlínis kom fram að frá árinu 2018 hefði afkoma greinarinnar versnað til muna og ef fram héldi sem horfði myndi rekstrarhæfni hluta íslenskra kúabúa vera í mikilli hættu. Aðalástæðan var sögð sú að afurðaverðshækkanir kúabænda hefði ekki náð að fylgja eftir hækkunum á aðföngum og launakostnaði. Á sama tíma hafi skuldsetning búanna aukist.

„Allir framleiðendur finna fyrir auknum hækkunum í aðföngum en búin eru auðvitað misvel í stakk búin að bregðast við ástandinu. Íslenskir mjólkurframleiðendur hafa farið út í mikla uppbyggingu á sínum búum á síðustu árum, við getum verið stolt af því og aðbúnaður í íslenskri mjólkurframleiðslu er með besta móti,“ segir Herdís.
„Fjármagnskostnaður hefur þó vegið þungt í rekstri kúabúa og þau sem höfðu farið í miklar framkvæmdir á síðustu árum á sínum búum finna kannski einna helst fyrir því. Hækkanirnar sem við sjáum núna í aðföngum og þjónustu eru auðvitað fordæmalausar og taka í, í rekstri allra kúabúa.

Ég get ekki fullyrt um það hvort staðan sé orðin enn verri, en það er þó mín tilfinning, já. Við erum ekki aðeins að horfa á miklar hækkanir aðfanga heldur er einfaldlega skortur á ákveðnum vörum sem gerir reksturinn einnig flóknari.

Það hafa orðið þónokkrar verðhækkanir á mjólk síðan 2019 og verðlagning á mjólk til bænda hefur einnig orðið reglulegri en á árum áður. Þegar langur tími hefur liðið milli verðlagninga hafa bændur auðvitað fundið fyrir því í sínum rekstri að þurfa að mæta auknum framleiðslukostnaði án þess að fá hækkun á sína vöru. Regluleg verðlagning er því afar mikilvæg.

Það að afurðaverð haldi ekki nægjanlega vel í við hækkanir á aðföngum og launakostnaði tel ég þá fyrst og fremst útskýrast af úreltum verðlagsgrunni.“

Uppfærsla nauðsynleg

Að sögn Herdísar hafa fulltrúar bænda bent á það í fjölda ára að nauðsynlegt sé að uppfæra verðlagsgrundvöllinn, sem sé yfir 20 ára gamall, og vægi ákveðinna liða því mögulega skakkt miðað við nútímabúið. „Að mínu mati er vægi þeirra liða sem við finnum svo sterkt fyrir hækkunum á núna í okkar rekstri, eins og áburði og kjarnfóðri, ekki í takt við nútímann. Það hefur margt breyst í rekstri búa síðan að gamli verðlagsgrunnurinn var mótaður. Fyrir það fyrsta hefur orðið algjör bylting í mjöltum og aðbúnaði kúnna, það þarf færri hendur nú til að mjólka kýr en annar kostnaður hefur komið á móti í formi tæknivæðingar, þjónustu og viðhaldskostnaðar.“

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að gríðarlega mikilvægt sé að ná niður breytilegum kostnaði á hvern innlagðan lítra – þar séu góð tækifæri til að ná fram betri framlegð. Herdís segir að hún hafi orðið vör við að bændur hugi betur að þessum þætti nú þegar kreppi að. „Já, mér finnst umræða meðal bænda, hvert sem ég fer, um framleiðslukostnað og mögulegar leiðir til að hagræða enn frekar í rekstri, almennt hafa aukist. Það er mikil áskorun nú fyrir bændur að draga úr ákveðnum liðum breytilegs kostnaðar eins og áburði og aðkeyptu fóðri án þess að það dragi úr afköstum í framleiðslunni og þar með framlegð í rekstri. Það er að bændur spari sér ekki til óbóta.“

Vilji innan stéttarinnar til aukinnar kornræktar

Vangaveltur hafa verið uppi um möguleika bænda til eigin kornræktar til að skapa sér betri stöðu gegn slæmum horfum á alþjóðlegum kornmörkuðum. Herdís segir viðhorf bænda mismunandi, eftir því við hverja er rætt. „Einhverjir hafa valið að draga úr kornrækt í ár, þá fyrst og fremst vegna hás áburðarverðs. Einhverjir ætla að gefa í en það er mín tilfinning að kannski flestir séu að gera svipað og áður í kornræktinni nú í ár.

Það hefur hins vegar verið mikill hugur í bændum og vilji innan stéttarinnar að efla innlenda kornrækt. Ástandið núna ýtir kannski enn frekar undir þær hugmyndir. En til þess að efla innlenda kornrækt þurfum við að koma okkur upp betri innviðum og þá eru bændur einna helst að horfa til þess að koma upp sameignlegum tækjabúnaði og aðstöðu til þreskingar og þurrkunar á korni.

Gróffóður hefur verið gott og hefur leitt það af sér að við þurfum að flytja inn minna prótín í formi kjarnfóðurs. Við verðum seint alveg óháð innflutningi á fóðri ef við ætlum að halda uppi framleiðslu eins og við höfum staðið að síðustu ár og erum við þá einna helst háð maís í fóðrun mjólkurkúa. Það verður allavega ekki í náinni framtíð að Íslendingar fari að rækta maís en við getum ræktað aðrar plöntur sem nýtast í kjarnfóður, þá sérstaklega bygg. Við þurfum að stefna á að verða sjálfbærari, það gerist ekki á einni nóttu eða vori en efling á innlendri kornrækt er skref í rétta átt að aukinni sjálfbærni.“

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...