Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Stjórnarmenn í Samtökum ungra bænda. F.v. Ingiberg Daði Kjartansson, Helga Rún Steinarsdóttir, Sunna Þórarinsdóttir, Sigurður S. Ásberg Sigurjónsson og Ísak Jökulsson. Á myndina vantar Steinþór Loga Arnarsson formann og Ástrós Ýr Eggertsdóttur.
Stjórnarmenn í Samtökum ungra bænda. F.v. Ingiberg Daði Kjartansson, Helga Rún Steinarsdóttir, Sunna Þórarinsdóttir, Sigurður S. Ásberg Sigurjónsson og Ísak Jökulsson. Á myndina vantar Steinþór Loga Arnarsson formann og Ástrós Ýr Eggertsdóttur.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 24. janúar 2025

Krefjast athygli stjórnvalda

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ungir bændur vilja að íslensk stjórnvöld setji landbúnaðarmál framar í forgangsröðina. Ályktað var um fjölbreytt málefni á aðalfundi Samtaka ungra bænda um miðjan janúar.

Steinþór Logi Arnarsson.

Aðalfundur Samtaka ungra bænda (SUB) árið 2025 fór fram á Þórisstöðum á Svalbarðsströnd í Eyjafirði þann 18. janúar síðastliðinn. Þar var m.a. ályktað um að íslensk stjórnvöld þyrftu að gefa landbúnaði meira rými í stefnumálum.

„Í aðdraganda kosninga 2024 bar lítið á eiginlegri landbúnaðarstefnu hjá flokkunum og ef minnst var á landbúnað þá var það yfirleitt í tengslum við önnur svið, s.s. atvinnumál, umhverfismál og sjávarútveg. Landbúnaður snertir á þessa fleti en er á sama tíma það stór málaflokkur að hann þarf meira vægi án þess að vera blandaður við aðra þætti. Á meðan landbúnaður er settur undir sama hatt og sjávarútvegur og atvinnumál, eins og hefur verið undanfarin ár, þá virðist hann sífellt færast neðar í forgangsröðuninni,“ segir í greinargerð með ályktuninni, sem var ein 24 slíkra.

Fundinn sátu um 50 manns víðs vegar að en landshlutafélögin fjögur sem SUB samanstendur af skipa hvert átta fulltrúa með atkvæðisrétt á fundinn.

Áhrif mannvirkja á raforkuöflun og -dreifingu

Að sögn Steinþórs Loga Arnarssonar, formanns SUB, þótti aðalfundurinn vel heppnaður og gott veganesti fyrir komandi verkefni.

Fundurinn fjallaði um fjölmörg mál er lúta að starfsumhverfi ungra bænda. „Þar má nefna ályktanir á borð við áhrif mannvirkja við öflun og dreifingu orku,“ segir Steinþór Logi. „Áhrif þeirra eru margvísleg, annars vegar eru áhrif vindmyllugarða og raflína á virði jarða þó nokkur, sérstaklega þar sem raflínur, og eftir atvikum raflínuvegir, skera í sundur ræktanlegt land sem hefur skerðandi möguleika til framtíðar. Mikilvægt er að nærsamfélög hafi skipulagsvald yfir slíkum framkvæmdum og njóti ágóða af slíkum mannvirkjum. Þessu tengist einnig ásókn fjárfesta og fyrirtækja í land sem þykir áhyggjuefni enda hefur oft og ítrekað verið ályktað um þörf á ábúðarskyldu líkt og samtökin hafa oft ályktað um áður. Nú er tækifæri til bóta í þeim efnum þar sem nauðsynlegar breytingar á jarðalögum eru boðaðar í nýjum ríkisstjórnarsáttmála,“ segir hann.

Stjórnvöld voru í ályktun hvött til að endurskoða greiðslufyrirkomulag vegna lagningar línuvega og raforkulína og greiða landleigu í stað eingreiðslu fyrir notkun á landi bænda og annarra landeigenda.

Afleysingakerfi og nýliðun

Fundarmenn ræddu, að sögn Steinþórs, starfsumhverfi og rekstrarskilyrði í landbúnaði en þar á meðal má nefna þörf á afleysingakerfi.

Þá var rætt um leiðir til að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti og segir Steinþór að þar beri helst að nefna að ályktað hafi verið um að nýliðunarstuðningurinn í núverandi mynd væri ófyrirsjáanlegur og nýttist ekki sem skyldi. Fjármagnið væri lítið og dreifðist á marga aðila í samanburði við þær fjárfestingar sem að baki lægju og að það gerðu þær einungis einu sinni á ári og ómögulegt að sjá fyrir hver stuðningsupphæð yrði við m.a. áætlanagerð. Mikilvægt sé að leita annarra leiða, til dæmis með skattalegum ívilnunum á borð við virðisauka- skattsfrádrátt á fyrstu árum, niðurfellingu á erfðafjárskatti og tekjuskatti við kynslóðaskipti og leita leiða til að koma á lána- og fjármögnunarkerfi, aðlöguðu að þörfum landbúnaðar.

Krefja stjórnvöld um vindmyllustefnu

Aðalfundurinn krafðist í ályktun að „stjórnvöld móti sér skýra stefnu og endurskoði áform um að heimila vindmyllugarða víðs vegar um land án frekari umræðu um málið. Einnig er mikilvægt að ríkisstjórn gefi sveitarstjórnum þar sem vindmyllugarða og stakar vindmyllur á að reisa, vald til að neita eða ýmist samþykkja slíkar framkvæmdir í gegnum deiliskipulag.“

Í greinargerð með ályktuninni segir að „áform um vindmyllur hingað og þangað sundra sveitarsamfélögum víða um land. Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að þau stoppi nú þegar þennan ágang fjárfesta þangað til eðlileg og lýðræðisleg umræða og lagasetning um þessi mál hefur farið fram á Alþingi. Stærri vindorkuver ætti að vera á vegum Landsvirkjunar en ekki erlendra fjárfesta.“

Auka-aðalfundur Samtaka ungra bænda verður haldinn í kjölfar nýliðins aðalfundar og á hann að verða stefnumarkandi fyrir hönd samtakanna í umræðu og samtali um framtíð stuðningskerfis í landbúnaði.

Uppkaup auðjöfra á jörðum

Þá ályktaði aðalfundurinn að krefja yrði íslensk stjórnvöld um að grípa til til tafarlausra aðgerða til að hindra frekari kaup auðjöfra á íslenskum jörðum og setja á ábúðarskyldu.

Segir í greinargerð að vandinn aukist varðandi kaup auðjöfra á landbúnaðarjörðum. „Auðjöfrar í þeim skilningi efnamiklir einstaklingar og fyrirtæki. Landið er keypt vegna vatns- eða vindorkuauðlinda og/eða til kolefnisbindingar. Engin skylda er til ábúðar á þessum jörðum sem ýtir undir fólksfækkun í sveitum landsins bæði með beinum og óbeinum hætti, þar sem ekki er mikill hvati falinn í því að búa innan um eyðijarðir. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að tapa ekki auðlindum til stórfjárfesta. Því verður að bregðast við og breyta þessari þróun áður en það verður of seint og ekki verður aftur snúið.“

Rannsókn SUB á kynslóðaskiptum

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kynnti Gréta Bergrún Jóhannesdóttir verkefnastjóri frumniðurstöður rannsóknar á vegum SUB sem er ætlað að meta hvata og hindranir nýliðunar og kynslóðaskipta í landbúnaði. Rannsóknin er styrkt af Byggðarannsóknasjóði.

Niðurstöðurnar byggja að mestu á svörum sem fengust við spurningakönnun sem var lögð fyrir í lok síðasta árs. Úr þeim svörum er nú unnið og lokaskýrslu að vænta á næstu mánuðum. Telja samtökin að rannsóknin sé gott innlegg í komandi samtal um fyrirkomulag stuðningskerfisins í landbúnaði.

Á aðalfundinum og í aðdraganda hans fór fram nokkur umræða um nýja búvörusamninga en ákvörðun var tekin um að halda auka-aðalfund sem kæmi til með að vera stefnumarkandi fyrir hönd samtakanna í umræðu og samtali um framtíð stuðningskerfisins í landbúnaði. Þar verði hægt að styðjast við niðurstöður skýrslunnar sem er að vænta um rannsóknina sem Gréta Bergrún vinnur að.

Breytingar á stjórn

Breytingar urðu á stjórn samtakanna en breyting var gerð á samþykktunum í þá veru að stjórn samtakanna skipa nú sjö manns í stað fimm áður. Kosið er til tveggja ára en aðeins sæti Sunnu Þórarinsdóttur var til kosninga fyrir aðalfund. Hún bauð sig fram á ný og hlaut kjör en til viðbótar voru kosin ný í stjórn samtakanna Ingiberg Daði Kjartansson og Ástrós Ýr Eggertsdóttir. Fyrir í stjórn voru Steinþór Logi Arnarsson, formaður, Helga Rún Steinarsdóttir, Ísak Jökulsson og Sigurður S. Ásberg Sigurjónsson.

Aðalfundur og árshátíð fer fram á Vesturlandi á næsta ári.

Skylt efni: Samtök ungra bænda

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...