Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttaskýring 8. desember 2016
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hyggst á fyrstu dögum eftir embættistöku í byrjun næsta árs draga Bandaríkin út úr TPP-fríverslunarsamningi 12 ríkja við Kyrrahaf. Þessi samningur er afar umdeildur og hefur Barac Obama lagt ofuráherslu á að bandaríska þingið samþykki samninginn.
Trump leggur áherslu á tvíhliða samninga við einstök lönd og telur þá heppilegri en fjölþjóðlega samninga. Ýmis öfl á Vesturlöndum hafa gagnrýnt þessar áætlanir Trump á þeim forsendum að um afleita einangrunarhyggju verðandi forseta sé að ræða. Með slíkri stefnu sé hann að koma í veg fyrir aukið frelsi í viðskiptum. Segja má að nokkuð sé til í slíkri gagnrýni, en þá ef horft er á hana frá sjónarhóli og út frá hagsmunum alþjóðlegra risafyrirtækja.
TPP-samningurinn, eða „Trans-Pacific Partnership“ eins og hann heitir á ensku, hefur einmitt verið harðlega gagnrýndur víða um heim, fyrir að afhenda ákvörðunarvald þjóðríkja í hendur stórfyrirtækja. Hann sé hluti af vaxandi alþjóðavæðingu í viðskiptaheiminum. Talað er um fullkomnar valdhremmingar stórfyrirtækjanna í ríkjum heims. Í raun eins konar fjárhagslegt valdarán. Bent hefur verið á að slík viðskipti í fjármálaheiminum hafi m.a. leitt til efnahagshrunsins 2008. Mikil leynd hefur umlukið alla samningagerð af þessum toga.
Eykur ójöfnuð og samþjöppun fjármagns
Fríverslunarsamningar af svipuðum toga og TPP eru orðnir fjölmargir og eiga það sammerkt að eyða út svæðisbundnum réttindum í viðskiptum einstakra þjóðríkja og auðvelda stórfyrirtækjum að athafna sig þvert á landamæri.
Þótt fríverslunarsamningum sé ætlað að auðvelda viðskipti, þá fela þeir oftast í sér miklar flækjur. Þær eru oftar en ekki þvert á lög aðildarríkja sem verður þá að breyta (aðlaga). Þeir geta líka torveldað mjög hagsmunabaráttu minnihlutahópa og raunar allra launþega líka ef marka má það sem fram kom við smíði TPP-samningsins. Virðist aukin hnattvæðing í viðskiptum í fljótu bragði hafa orðið til þess að auka ójafnvægi í heiminum og streymi fjármagns til þeirra ofurríku. Átökin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og í pólitíkinni í Evrópu hafa öðru fremur snúist um þessa togstreitu.
Athyglisvert er í þessu ljósi að skoða þann stuðning sem forsetaframboð Hillary Clinton fékk víða um heim, en hún barðist hart fyrir áformum Baracks Obama Bandaríkjaforseta fyrir samþykkt TPP-samningsins. Var hún einnig studd dyggilega af fjármálaöflunum á Wall Street. Virðist sem hér á landi og víðar um heim hafi fólk, sem gefur sig út fyrir að vera félagslega sinnað, eitthvað verið að misskilja hlutina svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Sem dæmi þá sagði sjónvarpsstöðin CNN frá því að Hillary Clinton hafi þegið stórfé, eða 3,15 milljónir dollara, á einu ári fyrir það eitt að halda ræður á Wall Street hjá öllum helstu bönkum heims. Þar eru nefndir Morgan Stanley, Goldmann Sachs, Deutsche Bank og UBS bankinn. Fundir Clinton á Wall Street í upphaf kosningabaráttu hennar voru síst til að slá á þessar tengingar.
Þvert á væntingar þess hóps sem taldi sig finna pólitískan samherja í frú Clinton og allar spár fjölmiðla, verður það svo Donald Trump sem tekur við forsetaembættinu af Barack Obama þann 20. janúar 2017 en ekki Hillary Clinton.
Barátta um fjármagn og áhrif
Bent hefur verið á að TPP-samningurinn sé ekki síst gerður til að vinna gegn vaxandi áhrifum Kínverja og Indverja í viðskiptum við Kyrrahaf, enda eru þessar þjóðir ekki aðilar að þessum samningi. Þær eru aftur á móti aðilar að svæðisbundnu alhliða efnahagssamstarfi „Regional Comprehensive Economic Partnership“ eða RCEP, sem öðlaðist gildi í nóvember 2012. Sá samningur er á milli 16 ríkja í Suðaustur-Asíu. Þetta eru Kína, Japan, Suður-Kórea, Indland, Ástralía og Nýja-Sjáland, sem einnig eru aðilar að ASEAN-samningnum. Að auki eru Taíland, Kambódía, Malasía, Singapúr, Indland, Víetnam, Indónesía, Filippseyjar, Laos (Lao PDR) og Brúnei aðilar að RCEP. Sjö aðildarríki RCEP hafa síðan tekið þátt í gerð TTP-samningsins.
TPP – versta martröð sjálfstæðra ríkja
Hefur TPP-samningurinn m.a. verið sagður versta martröð sjálfstæðra ríkja. Í þeirri gagnrýni sem greint var frá í Bændablaðinu 22. október 2015 var m.a. fullyrt að samningurinn veiti m.a. stórfyrirtækjum aukinn rétt til að verja sína heimild til að yfirkeyra lög í aðildarríkjum samningsins.
Mörg hundruð sérfræðingar (lobbyists), sumir segja um 600, eru sagðir hafa verið á vegum stórfyrirtækja inni á fundum við samningagerðina. Þar hafi þeir unnið hart við að koma sjónarmiðum sinna fyrirtækja inn í samningana. Fyrirtæki geti m.a. farið í mál við samningsríki ef regluverk þess eða aðgerðir hindra mögulegan hagnað. Fjöldi félagasamtaka hefur mótmælt þessum áformum. Nick Dearden hjá Global Justice Now var líka ómyrkur í gagnrýni sinni í fyrra. Þar sagði hann m.a.:
„Í málum er varðar allt frá hlýnun jarðar, fæðuöryggi, Internetið til lyfja, þá er TPP algjör hörmung.“
Óörugg matvæli munu flæða inn í landið
Charles Chamberlain, yfirmaður samtakanna Lýðræði fyrir Ameríku (Democracy for America), talaði í fyrra á svipuðum nótum og Nick Dearden:
„Nú þegar við höfum séð allan texta samningsins kemur í ljós að hann mun eyðileggja störf og er verri en við hefðum nokkurn tíma getað ímyndað okkur. Þessi samningur mun keyra niður laun, óörugg matvæli munu flæða inn í landið, hann mun valda verðhækkunum lífsnauðsynlegra lyfja með óheftum viðskiptum við lönd þar sem samkynhneigt fólk og einstæðar mæður eru grýttar til dauða,“ sagði Dearden.
Veitir stórfyrirtækjunum yfirþjóðlegt vald
Einn texti samningamanna í TPP-málinu lak t.d. út árið 2013, en reynt hefur verið að snúa út úr umræðu um málið. Þar kom m.a. fram að takmörk yrðu sett á með hvaða hætti bandarísk yfirvöld gætu sett reglur sem hindruðu umsvif erlendra fyrirtækja í landinu. Einnig að Bandaríkin fengju heimild til að koma upp starfsemi í láglaunalöndum án þess að um það giltu bandarísk lög um lágmarkslaun. Líka að erlend fyrirtæki gætu lögsótt bandarísk stjórnvöld ef lög um heilsufar, umhverfismál, landnýtingu og annað stönguðust á við rétt þeirra samkvæmt TPP-samningnum. Þá var ákvæði um að erlend fyrirtæki gætu krafið ríki um að greiða kostnað sem hlytist af því að undirgangast fjármálalegt eða umhverfislegt regluverk í Bandaríkjunum. Sem sagt fjölþjóðafyrirtækin áttu að fá viðurkenndan rétt sem yfirkeyrði lög viðkomandi landa.
Um 100 lögfræðingar víða um heim skrifuðu opið bréf þar sem þessi áform voru fordæmd. Hvað nákvæmlega hefur síðan hafnað í samningnum hefur ekki verið upplýst.
Ljóst er að þau ákvæði sem koma í veg fyrir að bandarísk stjórnvöld geti hindrað umsvif erlendra fyrirtækja í landinu hljóta að fara fyrir brjóstið á Donald Trump. Allavega ef marka má orð hans í kosningabaráttunni. Ekki er ólíklegt að honum takist í það minnsta að tefja samþykkt TPP-samningsins ef hann heldur þeim málflutningi til streitu.
Snýst um niðurfellingu eða lækkun á 18 þúsund tollflokkum
TPP-samningurinn er í 30 köflum og inniheldur afnám og lækkun tolla á um 18 þúsund tollflokkum í iðnaði og landbúnaði, þar á meðal á textílvörum og fatnaði. Nákvæm útlistun samningsins hefur enn ekki verið gefin út en hann tekur m.a. á þjónustu og afurðum fjármálastofnana. Þá eru einnig ákvæði um frjálst flæði netupplýsinga og stafrænna gagna. Sömuleiðis er gert samkomulag um vörumerki, einkaleyfi og aðrar huglægar eignir á samningssvæðinu. Þar fellur líka undir sérstakar leyfisveitingar í lyfjaiðnaði og skilgreiningar varðandi vinnuafl og aðbúnaðarreglur. Ágreiningur var þó uppi um viðskipti með mjólkurvörur, bíla og lyf allt fram á síðasta dag samningaviðræðnanna.
TTIP-samningagerðin í frosti
Af svipuðum toga hefur á liðnum misserum verið reynt að hnoða saman öðrum fríverslunarsamningi á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.
Gengur hann undir nafninu „Transatlantic Trade and Investment Partnership,“ skammstafað TTIP, í talmáli gjarnan nefnt „Tí-tip“. Þeim áformum hefur m.a. verið harðlega mótmælt í Þýskalandi, ekki síst af umhverfisverndarsinnum sem óttast m.a. ítök efnarisa á borð við Monsanto í evrópskum landbúnaði.
Eftir að Donald Trump náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna hafa viðræður um TTIP verið í frosti. Barack Obama reyndi þó að halda uppi voninni um þá samningsgerð á fundi hans með Angelu Merkel í Þýskalandi fyrir skömmu. Í umfjöllun um fund þessara leiðtoga í þýska vikublaðinu Wirtschaftswoche, var sagt að Þjóðverjar og Bandaríkjamenn eygðu með TTIP-samningnum möguleika á að móta alþjóðavæðinguna samkvæmt sínu gildismati og hugmyndum.
„Við skuldum okkar fyrirtækjum, okkar þegnum og jafnvel heimsbyggðinni allri, það að breikka og dýpka okkar samvinnu,“ sagði í mjög svo gildishlaðinni umfjöllun Wirtschaftswoche um ágæti samningsins. Þar sagði einnig:
„Þetta er í takt við virðingu fyrir mannlegri reisn og skyldur okkar í mannúðarmálum og að veita milljónum flóttamanna um allan heim aðstoð.“ Þá var í greininni sagt að TTIP-samningurinn „muni án nokkurs vafa“ gagnast bandarískum og þýskum atvinnurekendum, launamönnum, neytendum sem og bændum. Virðist þessi málflutningur vera á nákvæmlega sömu nótum og tal hagsmunaaðila varðandi stóraukið frelsi í innflutningi á vörum til Íslands.
Það eru samt greinilega ekki allir sammála fagurgalanum um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum. Þannig mótmælti aðgerðarhópur neytenda nýverið TTIP-samningagerðinni og aukinni alþjóðavæðingu í Berlín. Hundruð þúsunda tóku þátt í þeim mótmælum.
Hnattvæðingin sögð komin að endamörkum
Í umfjöllun breska blaðsins Guardian er spurt hvort sú viðleitni að auka stöðugt hnattvæðinguna í viðskiptaheiminum sé komin að endamörkum. Sem dæmi um það er bent á að dregið hafi úr milliríkjaviðskiptum í hlutfalli við verga þjóðarframleiðslu á heimsvísu. Einnig er bent á að Bretland sé á leið út úr stærsta fríverslunarsvæðinu, þ.e. ESB.
„Það eru teikn á lofti um að hægur dauðdagi sé fram undan hjá alþjóðavæðingunni sem innleidd var af ríku þjóðunum eftir seinni heimsstyrjöldina,“ sagði í grein Guardian.
Þýska blaðið Wirtschaftswoche segir aftur á móti af mikilli kokhreysti að það sé engin leið til baka í það ástand sem ríkti fyrir daga hnattvæðingarinnar.
Samningur Mið-Ameríkuríkja CAFTA
Margvísleg deilumál hafa komið upp út af framkvæmd fríverslunarsamninga. Eitt slíkt kom m.a. upp í El Salvador, í tengslum við „Central American Free Trade Agreement (CAFTA)“. Þessi samningur er á milli Gvatemala, El Salvador, Hondúras, Kosta Ríka og Dóminíska lýðveldisins. Hann var undirritaður 28. maí 2004 og er sagður hafa verið að hluta fyrirmynd við TPP-samningagerðina, sér í lagi er varðar yfirþjóðlegan rétt fyrirtækja.
Í El Salvador spratt m.a. upp eitt mál þar sem almenningur krafðist þess að hætt yrði við námusamning við stórfyrirtæki vegna mengunar á grunnvatni. Í kjölfarið fór fyrirtækið í mál við ríkið og krafðist bóta um á 315 milljónir dollara samkvæmt ákvæðum frí-verslunarsamningsins.
Annað dæmi hefur verið nefnt af stórfyrirtækinu Bechtel sem stefndi Bólivíu vegna áætlaðs 50 milljóna dollara taps á framtíðarhagnaði. Þá var fyrirtækið aðeins búið að fjárfesta fyrir 1 milljón dollara þegar einkavæða átti vatnsveitur í landinu. Tugir mála af svipuðum toga hafa sprottið upp út af þessum fríverslunarsamningi og hafa fréttaveitur á borð við Bloomberg m.a. fjallað um slík mál.
Fríverslunarsamningur CETA á milli Kanada og ESB
Enn einn samningurinn er svo „Comprehensive Economic and Trade Agreement“ (CETA), sem hefur verið í smíðum á milli Evrópusambandsins og Kanada. Gert er ráð fyrir að hann öðlist gildi á næsta ári og að innleiðingin taki 7 ár. Það varðar m.a. niðurfellingu tolla af hveiti, nautakjöti og öðrum landbúnaðarvörum. Hefur þessum samningi verið líkt við TTIP-samninginn og verið harðlega mótmælt víða um Evrópu. Talað er um ólýðræðisleg vinnubrögð við samningagerðina sem hafi farið fram á bak við luktar dyr.
Lá við að samningurinn yrði endanlega jarðaður er Vallónar í Belgíu lögðust gegn honum. Haldinn var neyðarfundur á Evrópuþinginu vegna þess með aðkomu Kanadamanna og Paul Magnette, fulltrúa Vallóna. Belgía samþykkti í kjölfarið samninginn, síðust 28 ESB-þjóða. Hann var svo undirritaður formlega 30. október sl. í Brussel af hálfu fulltrúa ESB og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Gagnrýnendur samningsins hafa bent á að hann muni veikja rétt neytenda í Evrópu, sér í lagi þeirra sem annt er um matvælaöryggi. Þá er einnig gagnrýnt að samningurinn sé að mestu hugsaður út frá hagsmunum fjölþjóðlegra stórfyrirtækja. Áhættan fyrir almenning sé líka mikil í formi mögulegs atvinnuleysis vegna tilflutnings á atvinnutækifærum. Auk þess sem hann muni leiða til skemmda á náttúrunni vegna ofnýtingar.
Norður- Ameríkusamningurinn NAFTA
NAFTA, eða „North American Free Trade Agreement“, er síðan fríverslunarsamningur sem gerður var á milli Kanada, Bandaríkjanna og Mexíkó og tók gildi 1. janúar 1994. Þessi samningur nær til rúmlega 487 milljóna manna. Hann hefur m.a. leitt til þess að bandaríski bílaiðnaðurinn hefur að stórum hluta flust til Kanada og Mexíkó. Þá afnam hann m.a. margvísleg einkaréttarákvæði á milli samningslandanna. Hefur Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, gagnrýnt þennan samning harðlega og telur að hann hafi stórskaðað bandarískt atvinnulíf. Hvort hann stendur við stóru orðin eða ekki, fær fólk svo væntanlega að kynnast á komandi mánuðum og misserum.
Fríverslunarsamningar Íslands
Ísland hefur líka gert sína fríverslunarsamninga þótt í smærri skala sé. Þar má fyrst nefna EFTA-samninginn (European Free Trade Association) milli Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss. Síðan er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, EES, sem er sameiginlegt markaðssvæði 31 ríkis í Evrópu, þar af 28 ESB-ríkja. Sá samningur hefur bæði verið talinn til mikilla hagsbóta fyrir Ísland, en af sumum líka til bölvunar. Vegna hans hefur Ísland t.d. þurft að breyta lögum og regluverki til samræmis við Evrópusambandið. Önnur ríki EFTA-samningsins eru líka aðilar að EES, nema Sviss, sem hafnaði aðild að samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þessa er Ísland með ýmsa tvíhliða viðskiptasamninga við önnur lönd, þar á meðal við Kanada, Kína og Færeyjar, eða svokallaðan Hoyvíkur-samning.
Ísland þátttakandi í TiSA-viðræðum bak við luktar dyr
TiSA, eða „Trade in Services Agreement“, er enn einn samningurinn sem sagður er eiga að auðvelda milliríkjaviðskipti með þjónustu og auka gegnsæi í slíkum viðskiptum.
Ísland, ásamt fimmtíu öðrum ríkjum, tekur þátt í samningaviðræðunum en þar á meðal eru aðildarríki ESB, Bandaríkin, Kanada, Noregur, Sviss, Japan o.fl. Samningurinn mun byggja á gildandi samningum (GATS-reglum) og fjalla m.a. um fjármálaþjónustu, fjarskipta- og upplýsingatækni, för þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Virðist þar vera um sömu grunnáherslur að ræða og í TPP-samningnum.
Viðræðurnar eru formlega utan WTO (World Trade Organization) þótt 23 aðildarríki taki þátt í samningagerðinni. Vonast er til að fleiri aðildarríki WTO gerist aðilar að TiSA-samningnum þegar fram í sækir.
Eins og viðræður um aðra viðskiptasamninga af þessum toga, er almenningur ekki upplýstur mikið um gang mála. Leyndin er því mikil og hafa ESB ríkin t.d. einungis leyft almenningi að kíkja á einstakar tillögur. Samningafundir voru í síðasta mánuði um TiSA, en engin formleg dagsetning hefur verið sett á hvenær samningaviðræðum á að ljúka samkvæmt vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB.
6 myndir:
Fréttir 9. september 2024
Starfshópur um stofnun þjóðgarðs
Drífa Hjartardóttir hefur verið skipuð formaður starfshóps sem á að undirbúa og ...
Fréttir 6. september 2024
Atrenna að minni losun landbúnaðar
Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...
Fréttir 6. september 2024
Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...
Fréttir 5. september 2024
Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...
Fréttir 5. september 2024
Upplýsingasíða um riðuvarnir
Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...
Fréttir 5. september 2024
Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...
Fréttir 5. september 2024
Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...
Fréttir 5. september 2024
Óviðjafnanleg fágun
Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...
10. september 2024
Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024
Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024
Manstu vorið?
10. september 2024
Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024