Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Sorpeyðingarstöðin Kalka í Reykjanesbæ er eini lögformlegi móttökuaðili fyrir dýrahræ á Íslandi sem þarf að farga.
Minna en helmingur þessa úrgangs fór á árinu 2023 til brennslu þar, þrátt fyrir að áætlað sé að stöðin geti tekið við
um 90 prósentum af heildarumfanginu.
Sorpeyðingarstöðin Kalka í Reykjanesbæ er eini lögformlegi móttökuaðili fyrir dýrahræ á Íslandi sem þarf að farga. Minna en helmingur þessa úrgangs fór á árinu 2023 til brennslu þar, þrátt fyrir að áætlað sé að stöðin geti tekið við um 90 prósentum af heildarumfanginu.
Mynd / Kalka
Fréttir 6. mars 2025

Kalka gæti tekið við mun meira af dýrahræjum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Kalka sorpeyðingarstöð í Helguvík í Reykjanesbæ er eini lögformlegi móttökuaðili fyrir dýrahræ á Íslandi sem þarf að farga. Minna en helmingur þessa úrgangs fór á árinu 2023 til brennslu þar, þrátt fyrir að áætlað sé að stöðin geti tekið við um 90 prósentum af heildarumfanginu.

Í síðustu tölublöðum hefur verið fjallað um gjaldtöku sveitarfélaga vegna þjónustu þeirra við söfnun á þessum úrgangi, sem þó flokkast sérstaklega sem „aukaafurðir dýra“ í regluverki úrgangsmála. Bændur bera ábyrgð á förgun sinna dýrahræja en heyrst hafa óánægjuraddir á meðal þeirra með gjaldtökuna og fyrirkomulag söfnunar.

Vandræðamál fyrir heilbrigðisnefnd Suðurlands

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur á sviði orkuskipta- og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisog orkustofnun, segir í fyrri umfjöllun að sveitarfélög setji sér sínar reglur um fyrirkomulag úrgangsmála og þar með talinn farveg fyrir dýrahræ og -leifar.

Umsjón með almenna úrgangsregluverkinu á Íslandi er hjá Umhverfis- og orkustofnun. Matvælastofnun fer hins vegar með málefni aukaafurða dýra og um þær gildir viðamikið regluverk sem innleitt var úr Evrópulöggjöfinni um aukaafurðir dýra. En eftirlit með því að rétt sé staðið að förgun á þessum úrgangi og öðrum er í höndum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

Sigrún Guðmundsdóttir.

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem heyrir undir heilbrigðisnefnd Suðurlands, segir að þetta sé vandræðamál. Innviði vanti til að hægt sé að standa að þessum málum eins og æskilegt væri. „Hér á landi skortir einfaldlega fleiri brennslustöðvar. Þessi mál hafa að sjálfsögðu verið skoðuð en heilbrigðisnefndirnar hafa í dag einungis það hlutverk að hafa eftirlit með flutningi á þessum úrgangi en úrræðin við förgun úrgangsins vantar – sem eru ekki á forræði heilbrigðisnefnda. Það þarf líka að samræma aðgerðir miklu meira með samráði og samstilltu átaki þeirra stjórnsýsluaðila sem koma að málunum til að hægt sé að koma þessu í lag. Mér skilst að það sé komin einhver vinna af stað í þá átt, án þess að vita alveg hvar hún stendur.“

Engum þurft að vísa frá Kölku vegna anna

Jóhannes hefur bent á að lágt tilboðsverð í meðhöndlun á dýrahræjum og dýraleifum geti bent til þess að úrgangurinn endi í ólöglegri urðun.

Samkvæmt upplýsingum frá Ingþóri Karlssyni, rekstrarstjóra brennslu hjá Kölku, kostar 70 krónur á hvert kíló að farga dýrahræjum samkvæmt gjaldskrá. Því geti kostnaðurinn hlaupið á tugum þúsunda fyrir einn eða tvo gripi. Ingþór segir að engum hafi þurft að vísa frá vegna anna í stöðinni og hann telur að Kalka geti tekið við um 90 prósentum af heildarumfangi dýrahræja á Íslandi. „Það er einungis í þeim tilvikum þegar komið er með úldna skrokka sem þarf að vísa aðilum frá, enda samræmist ekki reglum okkar að taka við slíkum úrgangi,“ segir Ingþór.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfis- og orkustofnunar fóru um 47 prósent af dýrahræjum á landsvísu til brennslu í Kölku á árinu 2023. Á árunum 2020 til 2022 var hlutfallið einungis um 13 prósent.

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.