Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ísland ákjósanlegt fyrir lífræna ræktun
Mynd / Skjáskot
Fréttir 2. desember 2020

Ísland ákjósanlegt fyrir lífræna ræktun

Höfundur: smh

Fimmtudaginn 12. nóvember stóð Fagráð í lífrænum búskap fyrir málþinginu Lífræn ræktun, umhverfi og lýðheilsa. Málþingið var haldið með fjarfundarfyrirkomulagi, en fundarstjóri var Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Fjallað var um ýmsar hliðar á lífrænni ræktun og umhverfismálum; jarðvegsgerðir og kolefnisbindingu, lífrænan áburð, möguleika lífrænt vottaðra íslenskra afurða – og heilnæmi þeirra – og hagnýt atriði varðandi aðlögun að lífrænum búskap. 

Samhljómur var í fyrirlesurum um að brýn þörf sé á betri nýtingu lífrænna úrgangsefna.

Þorsteinn Guðmundsson.
Meiri kolefnisbinding í lífrænni ræktun

Þorsteinn Guðmundsson, doktor í jarðvegsfræði frá Háskólanum í Aberdeen og prófessor við LbhÍ, tók fyrstur til máls. Hann fór yfir nokkrar rannsóknir sem geta gefið vísbendingar um hvort kolefnisbinding sé meiri í jarðvegi í lífrænni ræktun samanborið við hefðbundna ræktun. Hann sagði að nánast engar íslenskar rannsóknir væru til um þessi mál og erlendar rannsóknir hafi aðallega beinst að akurlendi, en ekki túnum. 

Erlend yfirlitsgrein frá 2012, sem Þorsteinn vísaði til, sýndi að lífrænt kolefni var heldur meira í tilraunareitum í lífrænni ræktun samanborið við hefðbundna ræktun. Meira hafði bundist jarðveginum og lífrænt efni jókst. Hann segir að hafa beri í huga að yfirleitt sé það þannig að mun minna lífrænt efni sé í góðum jarðvegi erlendis en almennt á Íslandi. Í þessari rannsókn sé hlutfallið 3,5 til 4,5 prósent – en það sé oft10 til 20 prósent á Íslandi. 

Önnur rannsókn sem Þorsteinn greindi frá sýndi að uppsöfnun kolefnis væri mjög mikil yfir langan tíma, með búfjáráburði einum saman, en fór heldur hnignandi til langs tíma í hefðbundinni áburðargjöf með tilbúnum áburði.

Þorsteinn segir ljóst af rannsóknum að með lífrænum áburði muni fást meira jarðvegslíf, betri húmus,  og dreifingu á meiri dýpt. Auk lífræns áburðar væri ákjósanlegt að nota smára eða lúpínu. Með lífrænum áburði megi búast við álíka mikilli eða meiri bindingu á kolefni en fengist hefur með notkun tilbúins áburðar.

Hann segir að með lífrænni ræktun í móajarðvegi á Íslandi megi búast við að kolefnismagn aukist en eins og erlendis sé rétt að gera ráð fyrir að hámarki sé náð, trúlega eftir einhverja áratugi. Tilraunir sem hafa verið gerðar á Sámsstöðum, Akureyri og á Skriðuklaustri með tilbúinn áburð sýni fram á þetta og væntanlega myndi enn meira safnast upp ef lífrænn áburður væri notaður. 

Engar rannsóknir til hér á landi um akurlendi

Engar rannsóknir hér á landi eru til, til að segja við hverju megi búast varðandi akurlendi.

Varðandi mýrarjarðveg, sem er lífrænn jarðvegur og með mjög mikið kolefni bundið, er meira bundið í neðri lögunum. Til að draga úr losun er hægt að hækka grunnvatnsstöðu. Í mýrum er málið að draga úr eða stoppa losun á gróðurhúsalofttegundum og greindi hann frá erlendum rannsóknum þar sem þetta er gert, grunnvatnsstöðu er haldið hárri en landið jafnframt nýtt.

Þorsteinn greindi frá íslenskri rannsókn þar sem samanburður á örveruvirkni í reitum með tilbúnum áburði og á reit með sauðataði til fjölda ára var gerður. Mest örveruvirkni og umsetning var í sauðataðsreitunum. Tilraun gerð á Hvanneyri og sýnir ekki marktækan mun á kolefnishlutfalli í jarðvegi, uppskera þó mest í sauðataðsreitunum. Í annarri rannsókn þar sem borin voru saman jarðvegur á lífrænu búi og á hefðbundnu búi kom í ljós að örveruvirkni var einnig mest þar sem túnin voru í lífrænni ræktun. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður úr erlendum rannsóknum.

Í svari við fyrirspurn Ragnheiðar fundarstjóra, varðandi rannsóknir sem ætti að ráðast í, mælir Þorsteinn með því að hluti af starfsemi LbhÍ verði tekinn undir rannsóknir á lífrænni ræktun, að rannsóknir verði gerðar í jarðrækt og helst langtíma rannsóknir.

Cornelis Aart Meijles.
Hringrás lífræns úrgangs

Cornelis Aart Meijles er umhverfisverkfræðingur og sérfræðingur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í hringrásarhagkerfum. Hann ræddi aðallega um mikilvægi þess að koma hinu mikla magni af lífrænum úrgangi, sem ekki er nýtt í dag, inn í hringrásina.

Hann lagði upp með þá staðreynd að Íslands hefði mikla sérstöðu í lífrænum landbúnaði því þar eru verðmæti sköpuð úr öllum auðlindum landsins; villtri náttúru og líffjölbreytileika, jarðvegi, köldu og heitu vatni, grænni raforku, kolsýru, menningu og þekkingu.

Hins vegar vantar að hans sögn heimafengin næringarefni sem hráefni, áburðarefnin og lífrænan úrgang  sem er undirstöðuáburður fyrir lífræna ræktun. Það þarf nefnilega að huga að því að næra jarðvegslífið líka, ekki bara plöntulífið, og þar með talið kolefni. 

Cornelis segir að með því að binda koltvísýring í lífmassa og koma honum fyrir í jarðvegi, megi binda meira kolefni varanlega sem „húmus“ í jarðveg (sem inniheldur lífverur eins og bakteríur, örverur, sveppi, orma). Eitt prósent meira „húmus“ í jarðvegi þýðir 70 tonna meiri koltvísýringsbindingu á hektara. Það séu einmitt mjög góðir möguleikar í lífrænni ræktun, með nýtingu á lífrænum úrgangi, að auka þetta húmus og binda meira kolefni.

Síðan nefndi hann önnur dæmi um það hvernig binda mætti meira kolefni; í skógrækt með bindingu í trjám, nytjavið og jarðvegi, í landgræðslu með bindingu í plöntum og jarðvegi, í landbúnaði með bindingu í plöntum, matvælum og jarðvegi. Síðan tók hann frekari dæmi um möguleika í landbúnaði; með sinubruna (sem væri reyndar ekki vel séður í dag), moltugerð, lífkol (biochar) beint sem kolefnisgjöf eða óbeint með dýrafóðri, og svo með fyrirbærinu bokashi sem er aðferð við gerjun lífræns úrgangs til að varðveita öll næringarefnin, þar með talið kolefni. Hann tók svo talsverðan tíma til að útlista frekar þennan möguleika sem að hans mati myndi henta mjög vel við íslenskar aðstæður.

Bokashiaðferðin gæti verið leið til að framleiða nægan lífrænan áburð

Bokashi aðferðin tekur um sex til átta vikur við 30-40 gráður, nota má lífræn efni sem falla til staðbundið, búa til heimafenginn áburð og jarðvegsbæti – og loka þannig hringrásinni. Þetta er leið sem getur gengið fyrir heimili, bóndabýli, byggðir eða sveitarfélög. Kalki, örverublöndu og leir er blandað saman við úrganginn og síðan er þetta látið vera við loftfirrðar aðstæður, til dæmis undir plasti, þar til gerjunarferlinu er lokið. Afurðin  er vel niðurbrjótanleg af jarðvegslífi – og ekki til betra fóður fyrir orma, að sögn Cornelisar.

Kostir bokashiaðferðar eru þannig fjölmargir. Þetta er fremur ódýr aðferð miðað við aðra meðhöndlun. Hægt er að gera þetta innandyra sem úti og ekkert tap er á kolefni eða öðrum næringarefnum í ferlinu og það er nánast lyktarlaust. 

Það er óháð veðráttu þar sem verkunin fer fram undir plasti. Efnið er tilbúið eftir sex til átta vikur og má geyma lengi og auðveldlega, án taps á gæðum, þangað til efninu verður dreift á ræktarland. Cornelis hefur reiknað út kostnað af aðferðinni vegna aðfanga, skatta og tolla og mun hann vera um sjö þúsund krónur á hvert tonn. Hugsanlegt er hins vegar að verðið komi til með að lækka ef meira magn aðfanga verður flutt inn. Minna magn lífræns hráefnis megi vinna í fötum eða fiskikerum svo framarlega að þau séu loftþétt. Hann segir þetta geta verið sparnaðarleið fyrir sveitarfélög við söfnun og förgun úrgangs. Með aðferðinni verður til grundvöllur fyrir lokun efnahringrásar. Um leið opnast ný leið fyrir lífræna bændur að bæta við áburðarúrræði. Hráefnið til gerjunarinnar getur verið af ýmsum toga; garðaúrgangur, slegið gras, heyfyrningar, jafnvel úrgangur frá mötuneytum og fleira. Hann metur aðferðina um 60 prósent ódýrari aðferð en moltugerð.

Cornelis telur að hægt verði að minnka innflutning á tilbúnum áburði um helming með nýtingu á hinu gríðarmikla magni af lífrænum úrgangi sem fellur til í dag og er ekki notað inni í hringrásinni. 

Gunnþór Guðfinnsson.

Jarðvegurinn ræktaður í Skaftholti

Gunnþór Guðfinnsson er garðyrkjufræðingur sem stundar lífrænt vottaðan landbúnað í Skaftholti í Skeiða og Gnúpverjahreppi. Hann fór yfir hugmyndafræði búskaparins í Skaftholti, aðallega þá hlið sem snertir jarðveginn. 

Hann sagði að undirstaða alls búrekstrarins á bænum væri að rækta jarðveginn. Með því er stuðlað að eðlilegri hringrás innan býlisins og lífrænum vörnum er beitt gegn óværu í gróðurhúsum. Einhver aðföng þarf að sækja en reynt sé að takmarka þau eins og hægt er. 

Bændurnir í Skaftholti hafa séð mikinn mun á jarðveginum í dag frá þeim tíma þegar lífræn ræktun hófst þar 1980, mun meiri frjósemi hefur þar byggst upp.  Auk þess að nota lífræn efni eins vel og hægt er í hringrásina, til dæmis með safnhaugagerð, eru belgjurtir ræktaðar eins og smári sem binda nitur úr andrúmsloftinu og auka þar með áburðinn í jarðveginum. Hann útlistaði ágæti ánamaðka til að auka frjósemi jarðvegsins og sagði mjög mikilvægt að huga að því að rækta þá ekki síður en plönturnar.

Í Skaftholti er blandaður búskapur með grænmeti, korn og búfé – og rakti Gunnþór hagnýt atriði í mismunandi greinum búrekstrarins varðandi áburðargjöf og skiptiræktun. 

Þörf á nýtingu á öllum lífrænum úrgangi

Í síðasta hluta af erindi sínu fór Gunnþór yfir hugleiðingar sínar um áhættumat og ógnanir í lífrænum búskap. Varðandi lífræna áburðagjafa tók hann undir með fyrri fyrirlesurum að mikið magn hráefnis væri til staðar í landinu sem væri í raun bara í röngum farvegi. Hráefnið þyrfti að eiga leið aftur inn í hringrásina, en þá væri spurningin, með hvaða hætti væri hægt að koma því aftur inn. Í sumum tilvikum sé hægt að leita til nágrannabæja til að sækja sér hráefni, sem síðan sé hægt að meðhöndla til að hægt sé að nota sem vottaðan áburð. 

Síðan ræddi hann um allan hænsnaskítinn sem fellur víða til en hefur að vissu leyti verið bannaður sem áburðargjafi í lífrænni ræktun. Þannig misstu garðyrkjubændur í lífrænt vottaðri ræktun þann möguleika á að nota sveppamassa frá Flúðasveppum sem áburðargjafa í sinni ræktun þar sem hann innihélt hænsnaskít frá kjúklingabúi. Hann hafði verið undirstöðuáburður á nokkrum garðyrkjubýlum. 

Gunnþór sagði nauðsynlegt að umræða yrði tekin um hvort ekki eigi að hleypa svo mikilvægum lífrænum úrgangi aftur inn í hringrásina með einhverjum hætti. 

Skortur á vottuðu fræi og vottuðum sláturhúsum

Hann kom einnig inn á það vandamál fyrir garðyrkjubændur með lífræna vottun að það væri nánast orðið að viðvarandi ástandi, að ekki sé hægt að ganga að vottuðu útsæði eða fræjum vísu, sem væri óviðunandi, og það væri verðugt verkefni að tryggja betur stöðugleika á þessu sviði. 

Að síðustu vék Gunnþór tali sínu að lífrænt vottaðri kjötframleiðslu og sagði talsverðan vanda til staðar að ekki fleiri sláturhús væru með lífræna vottun. Í tilfelli Skaftholts væri það nú þannig að þar væru bændurnir með vottaða gripi á fæti, en sú vottun rofnaði um leið og gripirnir væru komnir um borð í gripabílana.

Carlo Leifert.

Lífrænt vottað inniheldur meira af góðum efnum og minna af slæmum

Prófessor Carlo Leifert er þýskur doktor í örverufræði við Southern Crossháskólann í Lismore í Australíu.

Hann útlistaði í sínum lestri niðurstöður úr samanburðarrannsókn á mismun í næringargildi lífrænt vottaðra matvæla og hefðbundinna. Hann greindi einnig frá víðtækri könnun í Bretlandi og Þýskalandi á innihaldsefnum í hveiti frá annars vegar lífrænt vottuðum og hins vegar hefðbundnum framleiðendum; bæði varðandi næringarinnihald og einnig óæskileg efni eins og skordýaeitur. Loks fór hann yfir rannsóknir á möguleg áhrif af neyslu lífrænt vottaðra matvæla á heilsu fólks.

Lífrænt vottaðar jurtir, kjöt og kúmjólk líklega heilnæmari

Varðandi fyrstu spurninguna, hvort einhver grundvallarmunur væri í næringargildi á milli lífrænt vottaðra matvæla og hefðbundinna, vitnaði hann til þriggja samanburðarannsókna; á uppskornum jurtategundum, kúamjólk og kjöti – sem birtust í British Journal of Nutrition á árunum 2014 og 2016. Þar er gögnum úr öllum aðgengilegum vísindarannsóknum um efnið safnað saman og niðurstöður gefnar út í samræmi við samanteknar upplýsingar. 

Þar er lífrænt vottuð matvæli metin innihalda um tuttugu prósent meira af andoxunarefnum í uppskornum jurtategundum að jafnaði, um fimmtíu prósent minna af kadmíummagni og fjórum sinnum færri sýni innihalda leifar skordýraeiturs að meðaltali.

Varðandi kjötafurðir þá gerir rannsóknin ráð fyrir fimmtíu sinnum hærra hlutfall Omega3 fitusýrum í lífrænt vottuðum og tíu prósent minna af mýristínsýru og palmitínsýru, sem eru taldar skaðlegar.

Í kúamjólk er gert ráð fyrir fimmtíu og fimm prósentum meira af Omega3 fitusýrum í lífrænt vottuðum vörum, fjörutíu prósent hærra hlutfalli CLAfitusýrum, sem eru taldar hafa jákvæð áhrif á líkamann, en sjötíu prósent lægra hlutfalli af joði.

Unnið var úr niðurstöðum 343 rannsókna varðandi uppskornar jurtategundir, 67 rannsóknum á kjöti og 170 rannsóknum á kúamjólk.

Meira skordýraeitur í hefðbundinni hveitiframleiðslu

Í niðurstöðunum í samanburðinum á framleiðslu hveitis kemur í ljós að í´87 prósent sýna í hefðbundinni framleiðslu greindust einhverjar leifar skordýrareiturs, en í 25 prósenta sýna í lífrænt vottaðri framleiðslu. Í 36 prósenta sýna í hefðbundinni framleiðslu fundust leifar af fleiri en einni tegund, en fjögur prósenta sýna í lífrænt vottaðri framleiðslu. 

Carlo sagði áhugavert að sjá í niðurstöðunum að í hefðbundinni hveitiframleiðslu hefði reynst vera tvöfalt meira magn skordýraeiturs í heilhveitimjöli, en í hvítu hveiti. Í lífrænt vottuðu hveiti eru leifar skordýraeiturs hins vegar svipaðar í heilhveiti og hvítu hveiti.

Lífrænt vottað heilhveiti reyndist innihalda mest af steinefnum

Niðurstaða hans er að lífrænt vottuð matvæli reynast – í samanburði við hefðbundin matvæli – innihalda meira af góðum efnum fyrir líkamann, en minna af þeim slæmu. Neysla á lífrænum matvælum mun auka næringarinnihald matarins meira en neysla hefðbundinna matvæla. Einnig minnkar neysla á lífrænt vottuðum matvælum líkurnar á því að innbyrða óæskileg efnasambönd og eitruð. Rannsóknirnar bendi til þess að ávinningurinn af neyslu á lífrænt vottuðum matvælum sé mestur hjá þeim neytendum sem fylgja næringarviðmiðum um aukið hlutfall heilkorna, ávaxta og grænmetis í máltíðum. 

Umfjöllun um erindi Sveins Margeirssonar, doktors í iðnaðarverkfræði, og Sunnu Hrafnsdóttur, garðyrkjubónda með lífræna vottun á Ósi í Hörgársveit, bíður næsta tölublaðs.

Ný og endurbætt vorbók
Fréttir 18. mars 2024

Ný og endurbætt vorbók

Á vordögum tökum við í notkun endurbætta útgáfu að hinni góðu gulu vorbók sem er...

Fræðasamfélag í uppbyggingu
Fréttir 18. mars 2024

Fræðasamfélag í uppbyggingu

Í Mývatnssveit er verið að byggja upp svokallaða vettvangsakademíu fyrir kennslu...

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora
Fréttir 18. mars 2024

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora

Magne Kvam hefur tekið upp á sitt einsdæmi að leggja spor fyrir skíðagöngu á höf...

Íbúum utan borgarinnar fjölgar
Fréttir 15. mars 2024

Íbúum utan borgarinnar fjölgar

Yfirlit yfir þróun byggðar hérlendis er eitt verkefna Byggðastofnunar, en nýveri...

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum
Fréttir 15. mars 2024

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum

Oddný Steina Valsdóttir og Ágúst Jensson, bændur á Butru í Fljótshlíð, eru fyrst...

Fimm tegundir teknar af skrá
Fréttir 15. mars 2024

Fimm tegundir teknar af skrá

Samkvæmt niðurstöðum áburðareftirlits Matvælastofnunar fyrir innfluttan tilbúinn...

Loftslag
Fréttir 15. mars 2024

Loftslag

Gagnvirkur loftslagsatlas sýnir fortíð og spáir fyrir um framtíð.

Bændavakt á Búnaðarþingi
Fréttir 14. mars 2024

Bændavakt á Búnaðarþingi

Búnaðarþing er nú haldið á Hótel Reykjavík Natura. Á Bændavakt á vef Bændasamtak...