Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Mun metanlosun frá mjólkurkúm brátt heyra sögunni til?
Í deiglunni 30. maí 2023

Mun metanlosun frá mjólkurkúm brátt heyra sögunni til?

Höfundur: Þorvaldur Arnarson

Baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda hefur vart farið fram hjá mörgu mannsbarninu undanfarin ár og misseri.

Róið er að því öllum árum hérlendis sem erlendis að finna leiðir til að draga úr losun svo mögulegt verði að sporna við þeirri þróun sem raungerst hefur í umhverfismálum um heim allan. Kallað er eftir lausnum jafnt frá stjórnvöldum sem og alþjóðasamfélaginu, enda málefnið þarft, brýnt og hreinlega nauðsynlegt ef takast skal að skilja umhverfið okkar eftir í mannsæmandi horfi fyrir þá sem erfa munu land.

Hvað landbúnað varðar er það svo að iðragerjun á stærstan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá greininni í heild. Þar eð verulega torvelt gæti reynst að koma í veg fyrir rop og prump frá búfénaði er ljóst að leita verður annarra lausna ef markmið stjórnvalda í losunarmálum eiga að nást.

Eitt af þeim atriðum sem lagt var til í verkefninu Loftlagsvænni landbúnaður, sem hleypt var af stokkunum af stjórnvöldum árið 2020, var bætt fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun. Hingað til hefur að meginstefnu verið talið að fátt væri til ráða til að draga úr losun metan vegna iðragerjunar í jórturdýrum, en tilraunir erlendis með bætta fóðrun hafa gefið góðar vonir.

Sjávarþörungar sem íblöndunarefni

Verkefnið CircleFeed hlaut á dögunum styrk Norræna nýsköpunarráðsins, þar sem markmiðið er að draga úr kolefnisspori nautgriparæktar í landbúnaði að lágmarki um 30%. Til stendur að rækta sjávarþörunga í Auðlindagarði HS Orku, í því augnamiði að nýta þá sem íblöndunarefni í fóður fyrir mjólkurkýr.

Slíkt hefur verið gert erlendis með sérdeilis framúrskarandi árangri, en niðurstöður rannsókna hafa sýnt allt að 90% samdrátt í losun metans frá mjólkurkúm sem hafa fengið þörungabætt fóður. Takist slíkt hið sama hér á Fróni mætti þannig lækka kolefnisspor hjarðdýraræktar í íslenskum land- búnaði. Takist vel til er ljóst að grettistaki verður lyft hvað varðar markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.

Hvatt til margföldunar í þörungarækt

Fyrirtækið Lava Seaweed ehf. fer fyrir verkefninu, sem er samstarfsverkefni nokkurra aðila vítt og breitt af Norðurlöndunum. Hugmyndasmiður verkefnisins er Ólavur Gregersen hjá Ocean Rainforest í Færeyjum, sem hafa í fjölda ára unnið að ræktun sjávarþörunga og afurða úr þeim í fóðurbæti í landbúnaði. Fyrirtækið stofnaði hann ásamt Sigurði Péturssyni, sem einnig er frumkvöðull í lagareldi, en markmiðið er að nýta einstakar umhverfisaðstæður á Íslandi til stýringar í þörungarækt.

Í stuttu máli snýst verkefnið um að nýta náttúrulegar aðstæður á Reykjanesi, borholusjó, jarðhita og græna raforku, til landeldis á sértækum sjávarþörungum, sem síðan verður blandað við fóður fyrir mjólkurkýr. Fóðurblöndur verða síðan prófaðar við háskólann í Árósum. Aðrir aðilar að CircleFeed verkefninu eru færeyski þörungaframleiðandinn Ocean Rainforest, HS Orka, danski fóðurframleiðandinn DLG, færeyska nýsköpunarfélagið Sjókovin og Konunglegi tækniháskólinn í Svíþjóð.

Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson, meðstofnandi Lava Seaweed ehf., segir verkefnið frábært tækifæri til að nýta sjálfbærar náttúruauðlindir á Íslandi til að hjálpa til við að leysa eina af helstu áskorunum í matvælaframleiðslu á heimsvísu; að draga úr kolefnisspori við framleiðslu hjarðdýraafurða.

„Við sem að þessu verkefni stöndum höfum kynnt okkur ræktun rauðþörunga í Ástralíu og fylgst með þróun mála þar. Niðurstöður rannsóknarverkefna sem snúast um íblöndun rauðþörunga til að lækka kolefnisspor búfénaðar hafa gefið hreint út sagt frábæra raun og við höfum tröllatrú á því að okkar náttúrulegu aðstæður hér á Íslandi geti hjálpað okkur að ná jafngóðum eða betri árangri í stýrðu landeldi,“ segir hann.

Sigurður bendir á að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í skýrslu sinni, sem út kom í fyrra, beinlínis hvatt til margföldunar í þörungarækt og það sama á við í áherslum Evrópusambandsins.

„Sem engan þarf í rauninni að undra. Þörungar eru svo magnaðir og hægt að nota á svo mörgum sviðum að fólk sem ekki þekkir vel til á yfirleitt erfitt með að trúa því hversu vítt litróf þörungar spanna þegar kemur að nýtingarmöguleikum,“ segir Sigurður.

Þannig séu þörungar nýttir til fæðu, í áburð, sem lífeldsneyti, í fæðubótarefni, í litarefni, koma í stað plasts og hafa meira að segja verið nýttir til skógerðar. Þeir innihalda fjölda næringarefna svo sem magnesíum, kalk, joð, járn, sink og omega-fitusýrur, svo engan þarf að undra að þeir séu mikið nýttir til gerðar fæðubótarefna af ýmsu tagi.

„Þar við bætist sú staðreynd að á heimsvísu binda þörungar um tuttugufalt magn kolefnis á við allan gróður jarðar samanlagt.

Þeir eru í reynd hin sönnu lungu heimsbyggðarinnar,“ bætir Sigurður við.

Ráðstefna um þörunga í Hörpu

Í fyrra voru stofnuð Samtök þörungafélaga á Íslandi og telja meðlimir samtakanna á þriðja tug aðildarfélaga. Stofnendur félagsins eiga það sameiginlegt að stunda sjálfbæra öflun, ræktun, rannsóknir, fræðslu, vinnslu, vöruþróun og sölu á afurðum tengdum þörungum.

Í upphafi þessa árs voru samtökin svo samþykkt sem meðlimir í Evrópusamtökum þörungafélaga, European Algae Biomass Associated.

Sigurður situr í stjórn samtakanna og segir uppgang í uppbyggingu fyrirtækja á sviði smá- og stórþörunga hér á landi bara rétt að hefjast. „Við munum halda okkar fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu í Hörpu um smá- og stórþörunga á Íslandi, sem ber heitið Arctic Algae, dagana 30.–31. ágúst næstkomandi. Þangað hafa þegar staðfest komu sína reynsluboltar og stór nöfn úr þörungaheiminum og undirbúningur er í fullum gangi. Þar munum við í fyrsta sinn stefna saman hagaðilum þörunga í víðum skilningi hérlendis auk allra áhugasamra um málefnið. Það er enginn vafi í mínum huga að við erum bara rétt farin að klóra í yfirborð þeirra möguleika sem í þörungum felast og við munum sjá mikinn uppgang í greininni á komandi árum.

Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Sigurður.

Áhugasamir geta kynnt sér málið á www.arcticalgae.is.

Skylt efni: þörungarækt | metanlosun

Í sókn eftir erfiðleika
Fréttaskýring 8. september 2023

Í sókn eftir erfiðleika

Kornrækt virðist vera í sókn á nýjan leik og hefur ákvörðun stjórnvalda að setja...

Örplast í öll mál
Fréttaskýring 25. ágúst 2023

Örplast í öll mál

Örplast er sívaxandi vandamál í veröldinni. Það berst upp alla líf- og fæðukeðju...

Deilt um framtíð lausagöngu
Fréttaskýring 27. júlí 2023

Deilt um framtíð lausagöngu

Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um lausagöngu sauðfjár, eftir álit u...

Miklar breytingar í vændum
Fréttaskýring 14. júlí 2023

Miklar breytingar í vændum

Er miklu meiri skógrækt á Íslandi mál málanna? Eða er of hratt farið? Skógrækt t...

Letjandi skipulag
Fréttaskýring 6. júlí 2023

Letjandi skipulag

Einn helsti ásteytingarsteinn í íslenskri skógrækt er skipulagsmál.

Smærri sveitarfélög í dauðafæri við innleiðingu blágrænna innviða
Fréttaskýring 30. júní 2023

Smærri sveitarfélög í dauðafæri við innleiðingu blágrænna innviða

Blágrænir innviðir gætu létt á fráveitukerfum og búið til áhugavert grænt þéttbý...

Áhrif beitar: Beit á ekki við í viðkvæmum vistkerfum
Fréttaskýring 16. júní 2023

Áhrif beitar: Beit á ekki við í viðkvæmum vistkerfum

Ólafur Gestur Arnalds er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann lærði ja...

Áhrif beitar: Hófleg beit getur styrkt graslendi
Fréttaskýring 16. júní 2023

Áhrif beitar: Hófleg beit getur styrkt graslendi

Anna Guðrún Þórhallsdóttir er prófessor við Háskólann á Hólum. Hún lærði úthagaf...