Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Guðjón Jensson fann þessi forláta handrit í fornbókasafninu sínu og vill nú koma þeim til réttra aðila.
Guðjón Jensson fann þessi forláta handrit í fornbókasafninu sínu og vill nú koma þeim til réttra aðila.
Mynd / ghp
Í deiglunni 21. mars 2023

Handskrifaðar glósur landbúnaðarnema

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Það kennir ýmissa grasa í bókasafni Guðjóns Jenssonar í Mosfellsbæ. Hann fann á dögunum tvö handrit sem tengjast landbúnaði og vill hann nú koma þeim í réttar hendur.

„Í bókasafni mínu kemur sitthvað í ljós þegar betur er að gáð. Einhvern tíma hefur fornbókasali gaukað að mér gömlum handritum sem ég kann því miður ekki að greina frá hvernig hafi komist í hans fórur. Líklega hafa þau slæðst með bókum úr dánarbúi einhvern tíma, kannski eftir einhverjum krókaleiðum. Þegar betur er að gáð þá eru að tarna tvö handrit sem tengjast búskap,“ segir Guðjón, sem titlar sig sem eldriborgara, tómstundablaðamann og leiðsögumann.

Hrólfur Árnason

Handrit þessi eru merkt Hrólfi Árnasyni frá Þverá sem stundaði nám á Hvanneyri haustið 1922.

„Annað er fagurlega rituð stílabók sem hefur yfirskriftina Búreikningar og er 34 síður að stærð. Hitt handritið er innbundið 44, 26 og 3 síður ásamt nokkrum lausum blöðum, allt einnig mjög fagurlega rituð. Áhugaverðar eru fyrstu opnurnar: Efnahagsyfirlit skólapilts 1.10. og 1.11. 1922. Og reikningur yfir tekjur og gjöld skólapilts á Hvanneyri í október 1922. Skólapilturinn á Hvanneyri hefur greinilega verið einstaklega áhugasamur og lagt mikinn metnað í það sem hann var að fást við.“

Hrólfur var fæddur árið 1903 og lést árið 1997 á Húsavík. Með aðstoð leitarsíðu Landsbókasafns, timarit. is, fann Guðjón minningargrein um hann undirritaða af Vigfúsi B. Jónssyni, bónda og hagyrðingi á Laxamýri, sem greinilega hefur verið vel kunnugur Hrólfi.

Vigfús segir m.a. í minningargreininni: „Ungur að árum stundaði hann nám í Hvanneyrarskóla og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Hann hafði skarpa greind og var námsmaður góður. Námið á Hvanneyri nýttist honum því vel, er hann gerðist forsjármaður búskaparins á Þverá við andlát föður síns árið 1938, en auk þessa náms var hann búinn góðu fararnesti úr foreldrahúsum, sem vel reyndist á lífsins leið ... í eðli sínu var hann maður félagslyndur og naut sín vel innan um fólk, en skyldurækni hans við heimili sitt og búannir ollu því, að hann blandaði sér minna í félagsmál, en hann og margir aðrir hefðu kosið.

Eigi að síður var honum margs konar trúnaður falinn af sveitungum og samferðamönnum. Hann var m.a. deildarstjóri KÞ-deildar Reykjahrepps um ára raðir og gegndi því af alúð og fór ekki dult með, að samvinnumaður var hann af hugsjón. Þá var hann stjórnarformaður Garðræktarfélags Reykhverfinga í hálfa öld og segir það nokkuð um það traust, sem til hans var borið. Félag þetta bar hann mjög fyrir brjósti og vann því vel, því öll sín hlutverk tók hann alvarlega.“

Handskrift Hrólfs Árnasonar var vönduð og hefur hann verið einstaklega áhugasamur og lagt mikinn metnað í það sem hann var að fást við.

Vill koma heimildinni til réttra aðila

Guðjón kom við á skrifstofu Bændablaðsins og færði starfsmanni þess handritin. Hann vill koma þessum merku heimildum til réttra aðila, hvort heldur það séu afkomendur Hrólfs eða til varðveislu á safni sem heldur sérstaklega utan um heimildir sem þessar.

Þeim er bent á að hafa samband við Bændablaðið

Skylt efni: handrit

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...