Hyrndar kýr eru innan við 1% af stofninum
Mikil aðsókn hefur verið í dýragarðinn Daladýrð í Brúnagerði við Vaglaskóg í sumar.
„Ég er enn formaður Búkollu, sem barðist á móti innflutningi norska kúakynsins, og nú erum við komin með fjórar hyrndar kýr því við ætlum að leggja okkar af mörkum við að bjarga hyrndu kúnni en hún er orðin innan við 1% af stofninum. Við eigum fjórar hyrndar kýr, sem við erum mjög stolt af,“ segir Hrefna Björk Sigurðardóttir, en hún og maður hennar, Guðbergur Egill Eyjólfsson, eru með dýragarðinn Daladýrð í Brúnagerði við Vaglaskóg í Fnjóskadal með kýrnar sínar og annan búpening, sem vekur alltaf mikla athygli gesta.
Skrautlegasta kýrin
Þá má geta þess að kýrin Særós, sem er sægrá og hyrnd, var nýlega útnefnd skrautlegasta kýrin í myndasamkeppni hjá „Slow Food“ samtökunum.
„Dýragarðurinn gengur mjög vel og það verður opið hjá okkur í allan vetur eins og alltaf, eða frá klukkan 11.00 til 18.00 alla daga vikunnar,“ segir Hrefna Björk.
