Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Land og skógur mun bera ábyrgð á bókhaldi fyrir losun og bindingu tengda landnýtingu og skógrækt, en Umhverfis- og orkustofnun heldur utan um alla aðra losun og áætlanir.
Land og skógur mun bera ábyrgð á bókhaldi fyrir losun og bindingu tengda landnýtingu og skógrækt, en Umhverfis- og orkustofnun heldur utan um alla aðra losun og áætlanir.
Mynd / smh
Fréttir 12. júní 2025

Heildarlög um loftslagsmál

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftslagsmál hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda.

Megináherslur frumvarpsins eru meðal annars að tryggja skilvirkari innleiðingu loftslagsaðgerða og efla stjórnsýslu loftslagsmála.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður samkvæmt drögunum falið að láta vinna langtímastefnu í loftslagsmálum sem verði endurskoðuð ekki sjaldnar en á fimm ára fresti og innihaldi töluleg markmið stjórnvalda um samdrátt í losun til næstu 25 ára. Í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem gefin var út árið 2018, beindist gagnrýni að því að í þeim aðgerðum, sem boðaðar voru til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, skorti nákvæm og töluleg markmið. Í aðgerðaáætlun sem kynnt var árið 2024 var aðgerðum fjölgað úr 50 í 150 þar sem áhersla var lögð meðal annars á samtal við atvinnulíf og sveitarfélög um loftslagsmál.

Skammtíma-, milli- og langtímamarkmið

Í nýjum drögum að heildarlögum um loftslagsmál eru markmið Íslands lögfest með skýrari áherslum, meðal annars hvað varðar ábyrgð mála og eftirfylgni. Til að mynda er gert ráð fyrir að Land og skógur beri ábyrgð á bókhaldi fyrir losun og bindingu tengda landnýtingu og skógrækt, en Umhverfis- og orkustofnun heldur utan um alla aðra losun og áætlanir.

Meðal nýmæla er að stjórnvöld skulu setja sér skammtíma-, milliog langtímamarkmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aukna kolefnisbindingu. Áhersla er lögð á réttlát umskipti, þannig að þunginn af árangri í umhverfismálum verði ekki borinn af launafólki. Loftslagsaðgerðir skulu því taka mið af félagslegum áhrifum og ekki leiða til aukins ójafnaðar.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að sérstakur samhæfingarhópur loftslagsaðgerða annist yfirsýn og samræmingu innan stjórnkerfisins, sem komi í stað verkefnisstjórnar loftslagsaðgerða. Hann getur lagt til stofnun framkvæmdaráða sem vinna þvert á ráðuneyti að innleiðingu tiltekinna aðgerða. Þá skal loftslagsráð, skipað sérfræðingum, veita stjórnvöldum aðhald og rýna bæði stefnu og framkvæmd.

Treysta vísindalegar forsendur

Ráðherra verður jafnframt skylt að leggja fram árlega skýrslu fyrir Alþingi um framvindu loftslagsaðgerða, byggða á vísindalegri greiningu og mati samhæfingarhópsins. Frumvarpið kveður einnig á um að sveitarfélög og stofnanir ríkisins setji sér loftslagsstefnu með aðgerðaáætlun og mati á áhættu og viðkvæmni vegna loftslagsbreytinga.

Allt hnígur þetta að þeim markmiðum að treysta vísindalegar forsendur fyrir aðgerðum og vísindalegrar rýni á stefnu stjórnvalda – og að íslenskt samfélag og lífríki aðlagist og búi að þoli gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.

Aðlögunar- og aðgerðaáætlun

Samkvæmt drögunum lætur ráðherra vinna loftslagsáætlanir, annars vegar aðlögunaráætlun vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi sem gildi til fimm ára í senn og hins vegar aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aukna bindingu kolefnis.

Í tilkynningu úr umhverfis-, orkuog loftslagsráðuneytinu er haft eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni ráðherra að með heildarlögum „sköpum við umgjörð til þess að hrinda loftslagsaðgerðum hratt og vel í framkvæmd. Loftslagsváin kallar á skilvirka stjórnsýslu og skýra sýn stjórnvalda. Stóra verkefnið er að rjúfa fylgnina milli hagvaxtar og losunar gróðurhúsalofttegunda, en til þess þarf aukna festu í stjórnsýslu loftslagsmála. Með nýjum heildarlögum um loftslagsmál aukum við vægi vísindalegrar nálgunar, skerpum á verkaskiptingu og eftirfylgni loftslagsaðgerða, skýrum betur ábyrgð ráðherra og bindum í lög kröfuna um réttlát umskipti þannig að loftslagsaðgerðir ýti aldrei undir ójöfnuð heldur þvert á móti.“

Hægt er að skila inn umsögn um drögin í Samráðsgátt til 29. ágúst næstkomandi og ætlar ráðuneytið að eiga samráð og samtöl á breiðum grunni á þeim tíma.

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu
Fréttir 14. júlí 2025

Endurskoðuð landsáætlun um útrýmingu á riðu

Landsáætlun stjórnvalda og bænda um útrýmingu á sauðfjárriðu var nýlega endurútg...