Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Gjaldeyrisskapandi landbúnaður
Skoðun 24. maí 2018

Gjaldeyrisskapandi landbúnaður

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Við Íslendingar erum háðir innflutningi með margvíslegum hætti. Við flytjum inn alla okkar bíla og eldsneyti til að knýja þá, mest af húsbúnaði og heimilistækjum, fatnaði og öðru því sem við þurfum til daglegs lífs. Síðast en ekki síst þá flytjum við inn um það bil helming allrar matvöru sem við neytum.

Síðustu misseri hefur útflutningur okkar ekki síst falist í þjónustu við ferðamenn sem greitt er fyrir hérlendis í erlendum gjaldeyri, en vöruútflutningur er miklu minni en þær vörur sem við flytjum inn. Á síðasta ári fluttum við inn vörur fyrir um það bil 180 milljörðum króna meira en við fluttum út.  Vörurnar sem við flytjum út eru að uppistöðu sjávarafurðir og afurðir stóriðjunnar, en samt er bilið orðið þetta breitt. Samkeppnisstaða innlendu framleiðslunnar hefur líka gefið eftir undanfarin ár vegna hás gengis krónunnar, sem gerir um leið innflutning ódýrari. Það hefur bitnað á öllum atvinnugreinum sem byggja á einhvern hátt á útflutningi.

Útflutningur búvara skiptir máli

Við flytjum líka út landbúnaðarvörur þó að tölurnar séu ekki háar í þeim geira samanborið við aðra. Árið 2016 var útflutningur landbúnaðarvara talinn 17 milljarðar í hagskýrslum en þar eru reyndar taldar með fiskeldisafurðir upp á 9,6 milljarða króna. Svo landbúnaðarvörurnar eins og við þekkjum þær eru rúmir 7 milljarðar. En þessir sjö milljarðar skipta landbúnaðinn verulegu máli. 

Sauðfjárafurðir tæpur helmingur útflutningsverðmætis

Tæpur helmingur verðmætisins, 3,47 milljarðar króna, eru sauðfjárafurðir, þ.e. lambakjöt, ull og gærur. Sá útflutningur á sér langa sögu. Kjötið í nokkrar aldir, en ullarvörurnar þó sýnu lengri því dæmi eru um útflutning á þeim allt aftur til 12. aldar. Síðustu ár hefur að jafnaði þriðjungur lamba- og kindakjöts verið fluttur út. Hlutfallið af gærum og ull er mun hærra, en við getum sagt að ef útflutningur yrði lagður af þyrfti framleiðslan að minnka um í það minnsta þriðjung. Það hefði vitanlega víðtæk áhrif um allt dreifbýlið.  Framtíðarsýnin í greininni hefur verið að stefna á aukið verðmæti afurða og festa um leið í sessi þann útflutning sem er umfram innanlandsþarfir. Markaðir erlendis hafa verið erfiðir síðustu misseri eins og alkunna er.

18% tengjast íslenska hestinum

Um 18% útflutningsverðmætis landbúnaðarins, alls 1,33 milljarðar króna, eru lifandi hross og að hluta til hrossakjöt. Íslenski hesturinn nýtur vinsælda um allan heim. Reyndar eru nú fleiri íslenskir hestar til erlendis en hér heima. Margir bændur treysta á sölu lífhrossa erlendis. Sá markaður getur verið sveiflukenndur og ekki verður hvert einasta folald að gæðingi svo einnig er þýðingarmikið að geta flutt út hrossakjöt.  Ákaflega mismunandi hefðir eru í einstökum löndum fyrir neyslu hrossakjöts og innanlandsmarkaðurinn er af takmarkaðri stærð.

Skyrið í sókn

Næst koma útfluttar nautgripaafurðir fyrir 1,25 milljarða króna sem eru 17% verðmætisins. Þar er uppistaðan auðvitað íslenska skyrið sem hefur náð vaxandi vinsældum erlendis, sem best má sjá af því að risavaxin framleiðslufyrirtæki eins og Arla (sem er 100 sinnum stærra en Mjólkursamsalan) og Lactalis (sem nýlega keypti Siggi‘s Skyr í Bandaríkjunum) láta verulega til sín taka í framleiðslu á skyri og eru þá jafnvel að skírskota til Íslands í sínu markaðsefni. Íslensk framleiðsla er auðvitað af allt annarri stærðargráðu en þessi fyrirtæki, en það hefur þýðingu fyrir kúabændur að geta aukið verðmæti afurða sinna með þessum hætti, að því marki sem okkur er fært að sinna vaxandi mörkuðum.

Loðdýra- og æðarbændur treysta alfarið á útflutning

Minkaskinn eru um 11% verðmætisins, alls 810 milljónir. Loðdýrabændur treysta alfarið á útflutning þar sem öll framleiðslan er seld á uppboðsmarkaði í Danmörku. Á þeim mörkuðum eru og hafa verið miklar sveiflur um árabil. Niðursveiflan er orðin nokkuð löng núna – vissulega vegna gengisins eins og í öðrum greinum en einnig vegna neikvæðrar markaðsþróunar. Það hefur náðst eftirtektarverður árangur í greininni hérlendis hvað varðar gæði skinna. Það hefur verið gert með markvissu kynbótastarfi sem hefur skilað sér vel, þó markaðir séu erfiðir sem stendur.

Síðast en ekki síst er það æðardúnn sem er 8% verðmætisins með 440 milljónir króna í útflutningstekjur. Dúntekja hefur verið mikilvæg búbót fyrir marga bændur við ströndina. Góður markaður hefur verið um árabil fyrir íslenskan æðardún, ekki síst í Japan þar sem hann selst háu verði.

87% tollnúmera fyrir innfluttar landbúnaðarvörur eru tollfrjáls

Allt þetta hefur þýðingu fyrir íslenskan landbúnað og þau samfélög dreifbýlisins sem á honum byggja. Þau samfélög og greinin í heild væru ekki söm ef þessir möguleikar væru ekki fyrir hendi. Einhverjir kunna að segja að við verjum okkar innanlandsmarkað af hörku með tollum og viljum því helst ekki að neitt sé flutt inn þó við viljum flytja út. Það er ekki rétt. Eins og fram kom í upphafi þá flytjum við inn helming þeirra matvæla sem við neytum og í sumum löndum þætti það reyndar ógn við fæðuöryggi. En það stendur líka lítið eftir af tollvernd, þó sumir reyni að halda öðru fram. Núna er búið að fella niður tolla af öllum vörum hingað til lands nema ákveðnum landbúnaðarvörum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á opnum fundi fyrir skömmu að um það bil 1.900 tollnúmer ná yfir landbúnaðarvörur. Núna er staðan þannig að 87% þeirra eru tollfrjáls. Þá standa eftir 13%. Stór hluti af þeim ber aðeins magntoll sem er föst krónutala. Sú krónutala var í nær öllum tilvikum ákveðin árið 1995 og hefur verið óbreytt síðan, á sama tíma og verðlag hefur hækkað um rúm 160%. Það eru nú öll ósköpin.

Neytendur ættu að hafa það í huga næst þegar að heildsalar kvarta yfir háum tollmúrum.

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...