Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kortið sýnir útbreiðslu ónæmis E. coli fyrir breiðvirkasta sýklalyfinu (karbapenem). Hlutfall tiltekinna sýklalyfjaónæmra örvera í blóði, og mænuvökva í löndum Evrópu.
Kortið sýnir útbreiðslu ónæmis E. coli fyrir breiðvirkasta sýklalyfinu (karbapenem). Hlutfall tiltekinna sýklalyfjaónæmra örvera í blóði, og mænuvökva í löndum Evrópu.
Mynd / https//worldhealthorg.shinyapps.io
Fréttir 24. febrúar 2023

Frysting matvæla hefur engin áhrif á útbreiðslu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nær-alónæmar bakteríur, sem eru þá ónæmar fyrir næstum því öllum sýklalyfjum sem til eru, breiðast hratt út um allan heim. Frysting á matvörum hefur engin áhrif á sýklalyfjaónæmi.

Karl. G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Læknadeild HÍ og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Mynd / VH

Sýklalyfjaónæmi er mikil ógn við lýðheilsu. Árið 2019 var áætlað að sýklalyfjaónæmi hafi leitt til 1,3-5 milljóna dauðsfalla í heiminum, árið 2021 létust 3,57 milljónir vegna COVID-19.

Karl. G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, segir að gríðarlegur munur sé á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis milli heims- og landshluta.

„Þær bakteríur sem við höfum einna mestar áhyggjur af eru E. coli og skyldar bakteríur, sem eru hluti af eðlilegu örveruflórunni í þörmum manna og dýra, þarmabakteríur. Þessar bakteríur smitast um munn með saurmenguðu vatni, matvælum eða umhverfi. Útbreiðslan er því mest þar sem skortur er á hreinu vatni, fráveitur í ólagi og mikið nábýli manna og dýra. Þar sem þessar bakteríur eru hluti af eðlilegu örveruflórunni, þá vitum við ekki hvort við berum í okkur ónæmar bakteríur. Eina leiðin til að komast að því er að skima fyrir þeim með sértækum bakteríuræktunum og kanna sýklalyfjanæmi með næmisprófum. Ef við erum svo óheppin að sýkjast af þeim, þá má búast við því að hefðbundin meðferð með sýklalyfjum sé gagnslaus. Algengustu sýkingar af völdum þessara baktería eru þvagfærasýkingar, en þær geta valdið fjölmörgum öðrum sýkingum. E. coli er til dæmis sú baktería sem veldur oftast sýkingum í blóði.“

Minnst útbreiðsla á Norðurlöndunum

Útbreiðsla sýklalyfjaónæmra þarmabaktería er einna minnst á Norðurlöndunum, sem Karl segir þakka megi lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði, hreinu vatni, góðum fráveitum og hreinlæti.

„Víða er verið að gefa dýrum sýklalyf til vaxtarörvunar, það er að segja sýklalyf eru sett í fóður dýranna til að örva vöxtinn. Vegna þess er sýklalyfjanotkun víða mun meiri í landbúnaði en í mönnum. Slík notkun hefur verið bönnuð í löndum Evrópska efnahagssvæðisins síðan 2006.“

Ferðamenn útsettir fyrir smiti

Karl segir mikilvægt að við gerum allt sem við getum til þess að hægja á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

„Þekkt er að þeir sem ferðast til landa með mikla útbreiðslu sýklalyfjaónæmis eru líklegir til þess að koma til baka úr ferðalaginu með fjölónæmar bakteríur (12-69% líkur). Mestar líkur eru á því eftir ferðalög til Indlands, Asíu, Mið-Austurlanda, Afríku, Suður-Ameríku og sumra landa í Suður- og Austur Evrópu. Þeir sem ferðast til þessara landa ættu að viðhafa sömu varúðarráðstafanir og mælt er með til að minnka líkur á ferðamannaniðurgangi. Í þessum sömu löndum eru matvæli oft menguð af fjölónæmum bakteríum. Sem dæmi má taka rannsókn á 411 sýnum teknum frá grænmeti tilbúnu til neyslu, í 36 stórmörkuðum eða bændamörkuðum í 18 borgum Kína. Hún sýndi að 10 (2,4%) þeirra voru með nær-alónæmar þarmabakteríur.“

Nær-alónæmar bakteríur í matvælum

„Alþjóðleg verslun með matvæli hefur vaxið gríðarlega og matvæli eru send heimshorna á milli. Nær-alónæmar þarmabakteríur hafa fundist í grænmeti frá Asíu í verslunum í Kanada og Sviss og í sjávarafurðum frá Asíu í Kanada. Það er því full þörf á því að fara varlega í innflutningi á tilteknum matvælum frá löndum með mikla útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Kjúklingar frá Úkraínu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins var sagt frá innflutningi á frystum kjúklingum frá Úkraínu til landsins. Karl segir að kjúklingar mengist mjög af þarmabakteríum við slátrun og ef þeir koma frá löndum með mikla útbreiðslu sýklalyfja séu þeir oft mengaðir af fjölónæmum bakteríum.

„Í vöktun Evrópsku matvælastofnunarinnar (EFSA) á fjölónæmum E. coli (ESBL/AmpC) í kjúklingakjöti árið 2020 var meðaltal kjöts með slíka stofna 32%, en dreifingin var allt frá 0% á Íslandi í 100% á Möltu.

Ég hef ekki fundið sambærilegar tölur frá Úkraínu en vegna óhóflegrar sýklalyfjanotkunar í Úkraínu, og einna hæsta algengi fjölónæmra baktería hjá mönnum í okkar heimshluta má búast við því að ónæmi sé útbreitt í bakteríum í matvælum eins og kjúklingum, ef teknar eru hliðstæður frá öðrum löndum. Ég hef áhyggjur af miklum innflutningi á frosnum kjúklingum frá löndum með hátt algengi nær-alónæmra baktería, enda hefur frysting engin áhrif á sýklalyfjaónæmi. Mikilvægt er að fylgjast með sýklalyfjaónæmi í innfluttum matvælum frá löndum með útbreitt sýklalyfjaónæmi, að almenningur sé vel upplýstur og að matvæli séu með réttar upprunamerkingar.“

Fjölónæm þarmabaktería í sýklalyfi

Í frétt frá Lyfjastofnun og Landlæknisembættinu 9. febrúar síðastliðinn var greint frá innköllun á tilteknu sýklalyfi. Fjölónæm þarmabaktería hafði smyglað sér í sýklalyfið og sýkt níu íbúa í Danmörku og líklega einn á Íslandi. Karl segir að í dönskum fjölmiðli hafi kom fram að allt að 35.000 Danir gætu hafa smitast.

„Talið var líklegast að bakterían væri í hylkjunum utan um lyfin, en slík hylki eru gerð úr gelatíni sem iðulega er unnið úr dýraafurðum. Þetta dæmi sýnir glögglega hvað fjölónæmar bakteríur eiga auðvelt með að dreifa sér með dýraafurðum á milli landa.“

Matvæli eru flutt inn víða að úr heiminum samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Ekki er þar með öll sagan sögð, því séu matvæli flutt inn í gegnum annað land telst það vera landið sem matvælin koma frá en ekki upprunalandið.

Skylt efni: sýklalyfjaónæmi

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...