Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Elsta sýni sem varðveitt er á Akureyri er af slíðrastör úr safni Stefáns Stefánssonar.
Elsta sýni sem varðveitt er á Akureyri er af slíðrastör úr safni Stefáns Stefánssonar.
Mynd / Náttúrfræðistofnun Íslands
Fréttaskýring 24. janúar 2022

Vísindin á tímamótum hvað varðar plöntusöfn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ólíkt því sem gert var fyrr á tímum, þegar menn voru að kynnast flóru landsins og söfnuðu sem flestum tegundum, þá er söfnunin sérhæfðari í dag og tengist oft ákveðnum verkefnum. Unnið er að því að taka myndir af öllum plöntunum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands og koma þeim á netið.

Dr. Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur og starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, er einn af umsjónarmönnum plöntusafna Náttúrufræðistofnunar. „Mín aðkoma er mest að fléttuhluta safnsins en aðrir sem gæta sveppanna og æðplantnanna og er hluti safnsins varðveittur á höfuðborgarsvæðinu en hluti þess
á Akureyri.“

Dr. Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur og starfs­maður Náttúru­fræði­­stofnunar Íslands.

Söfnun í dag yfirleitt tengd verkefnum

„Ég gæti trúað að um hundrað ný eintök að meðaltali bættust við safnið á ári en fjöldinn tengist því hvort verið er að vinna verkefni sem krefjast þess að tekin séu eintök til varðveislu.

Undanfarin ár höfum við fengið styrk til að ráða námsmenn í sumarvinnu til að vinna í safninu og það hefur flýtt vinnunni við frágang safnanna mikið. Þá er einnig búið að taka myndir af nánast öllum æðplöntusýnum sem geymd eru á Akureyri og þær verða gerðar aðgengilegar á netinu fyrr en seinna. Frumkvæði að myndun æðplöntusýnanna á umsjónar­maður æðplöntu­­safnsins, Pawel Wasowicz. Eins og uppsetningu safn­anna er háttað í dag þá er tegundum raðað saman eftir landshlutum til að auðvelda aðgengi að einstaka tegundum.“

Starri segir að ólíkt því sem gert var fyrr á tímum, þegar menn voru að kynnast flóru landsins og söfnuðu sem flestum tegundum, þá sé söfnunin sérhæfðari í dag. „Sem dæmi um söfnunarverkefni sem var í gangi fyrir tveimur árum, þá var farið víða um land og safnað birkisýnum til erfðafræðilegrar raðgreiningar vegna rannsóknar á tengslum milli stofna birkis í ólíkum landshlutum en niðurstöðurnar nýtast einnig við rannsóknir á landnámi birkis á Skeiðarársandi.“

Söfnin notuð við flokkun

„Að mínu mati er ástand safnanna í lagi og þau geymd við viðunandi aðstæður og þess gætt að raka- og hitastig sé í lagi og safnið syðra er geymt í sérstakri og þartilgerðri geymslu.“ Starri segir að nokkuð sé um að fræðimenn komi til að skoða eintök í söfnunum, auk þess sem talsvert er um að eintök séu send erlendis til láns vegna rannsókna.

„Þeir sem hafa mestan áhuga á grasasöfnum eru flokkunarfræðingar sem eru að skoða tengsl milli tegunda og hvernig á að afmarka tegundir. Vinna við flokkun plantna er oft unnin í frekar hægum takti og það kemur fyrir að við fáum til baka eintök sem hafa verið í útláni í tíu til fimmtán ár. Sem dæmi þá sendum við einu sinni öll eintökin okkar af maríustökkum til Svíþjóðar til láns vegna vinnu við norrænu flóruna.“

Á þröskuldi nýrra tíma

Starri telur að við stöndum á þröskuldi nýrra tíma hvað varðar vísindaleg plöntusöfn. „Söfnin eru ekki síður mikilvæg í dag en fyrir hundrað árum þegar kemur að greiningu tegunda og nauðsynlegt að það sé alltaf nafn- eða frumsýni til staðar í alvöru safni til að hægt sé að bera saman eintök.

Gallinn við erfðafræðilegar greiningar, einkum á umhverfissýnum, er að þeir sem sjá um greininguna eru oft sérhæfðir sameindafræðingar, en til að hægt sé að sannreyna hvaða tegund kjarnsýruröðin tilheyrir þá er nauðsynlegt að kennisýni séu til staðar. Oft eru tegundirnar sem kjarnsýruraðirnar eru taldar tilheyra ákvarðaðar með hjálp alþjóðlegra gagnagrunna yfir sameindafræðileg gögn án þess að vera tengdar kennisýni sem varðveitt er í vísindalegu safni og hægt er að sannreyna.“

Elstu plöntusýnin varðveitt í Kaupmannahöfn

Áhugi á flóru Íslands á sér talsvert langa sögu og eflaust hafa bæði enskir og danskir náttúrufræðingar sem heimsóttu landið safnað hér eintökum af plöntum til greiningar og geymslu. Íslenskir náttúrufræðingar hafa síðan fylgt í kjölfarið.

Elsta sýni sem varðveitt er í plöntusafni Náttúrufræðistofnunar er baunagras sem Þorvaldur Thoroddsen safnaði árið 1872 í Hrappsey á Breiðafirði. Þegar söfnin eru skoðuð nánar sést að finna má 7.225 sýni sem safnað var á 19. öld, tæplega 60 þúsund sýnum var safnað á 20. öld, meðan tæplega 1.900 sýnum hefur verið safnað það sem af er 21. öldinni.

Afkastamestu safnarar æðplantna eru þeir Ingólfur Davíðsson, Helgi Jónasson og Helgi Hallgrímsson, en alls eru varðveitt tæplega 7.600 sýni sem Ingólfur safnaði meðan eftir Helga Jónasson liggja tæplega 7.000 sýni og nafna hans Hallgrímsson tæplega 6.000 sýni. Líkt og áður kom fram hafa æðplöntusýnin á Akureyri verið mynduð og elsta sýnið sem varðveitt er þar er af slíðrastör, safnað af Stefáni Stefánssyni og sést hér á mynd.

Reyndar er það svo að mest af elstu sýnunum sem til eru af flóru Íslands eru varðveitt úti í Kaupmannahöfn og sem dæmi er stór hluti af safni Ólafs Davíðssonar varðveitt þar.

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...