Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvælastofnun vegna vanhæfis hennar í að bregðast við erfiðum málum. Lögfræðingur í Fagráði um velferð dýra er því ósammála og segir sérþekkingu innan stofnunarinnar skipta sköpum.
Forsvarsmenn Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) eru ósáttir við að stjórnsýsla dýravelferðar verði áfram undir Matvælastofnun (MAST) og vilja að hún verði óháð stjórnsýslu matvælaeftirlits. Þeir segja að sein eða engin viðbrögð við dýraníði séu dæmi um vanhæfi stofnunarinnar til að sinna skyldum sínum.
Lögfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, sem jafnframt situr í Fagráði um velferð dýra fyrir hönd samtakanna, telur það að kljúfa dýravelferð frá MAST hins vegar ekki skynsamlegt og ekki bæta um betur. Innan MAST sé yfirgripsmikil sérþekking og önnur starfsemi stofnunarinnar eigi mikla samleið með dýravelferð.
Hugmynd er um að Neyðarlínan taki við tilkynningum almennings í gegnum 112 um slæman aðbúnað eða vonda meðferð dýra og er það í skoðun hjá viðkomandi ráðuneyti.
Til stóð að taka dýravelferð af MAST
Til stóð að færa dýravelferð undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra en skv. tillögu um breytta skipan ráðuneyta, sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi, virðist hafa verið hætt við það. Þegar forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur leit dagsins ljós í desember 2024 mátti sjá að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra myndi m.a. fara með stjórnarmálefni sem heyra undir matvælaráðuneytið skv. d-lið 4. töluliðar forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, þ.e. málaflokkinn „velferð dýra“. Í greinargerð tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta segir hins vegar: „Þá hefur, frá því að ríkisstjórnin var mynduð, verið fallið frá því að breyta heiti innviðaráðuneytisins og færa málaflokkinn dýravelferð milli matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.“ DÍS leggst eindregið gegn þeim viðsnúningi.
Dýravernd og dýravelferð í forgang
DÍS hvatti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að standa með því markmiði sem birtist við myndun núverandi ríkisstjórnar: að gera stjórnsýslu dýravelferðar óháða stjórnsýslu matvælaeftirlits. Þannig væru send skýr skilaboð um að málefni dýraverndar og dýravelferðar væru tekin alvarlega og þau hluti af forgangsmálum nýs þings og ríkisstjórnar í takt við nýja tíma.
„Nýlegar fréttir af viðbragðsleysi Matvælastofnunar þegar tilkynnt var um folald í neyð eru nýjasta dæmið af fjölmörgum um mikilvægi þess að gera stórar kerfisbreytingar í þágu velferðar dýra. Dýraverndarsamband Íslands telur gríðarlega mikilvægan hluta af þeim úrbótum vera að gera stjórnsýslu dýravelferðar óháða stjórnsýslu matvælaeftirlits,“ segir m.a. í umsögn sem DÍS skilaði til Alþingis 18. febrúar sl., þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hvött til að standa með velferð dýra og færa málaflokk dýravelferðar frá MAST.

Vonir bundnar við skýr skilaboð
Andrés Ingi Jónsson er framkvæmdastjóri Dýraverndarsambandsins. „Þegar verkaskipting ráðherra núverandi ríkisstjórnar var opinberuð í desember, þá kom fram að málaflokkur dýravelferðar ætti að færast til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Þessu fagnaði Dýraverndarsambandið, enda væri það skref í átt að þeim úrbótum sem við höfum talað fyrir til að stórefla eftirlit með velferð dýra.
Það voru því vonbrigði að sjá ríkisstjórnina beygja af þeirri braut þegar tillaga um formlega breytingu á ráðuneytum var tekin til umfjöllunar Alþingis, en við bindum enn vonir við að þingnefndin standi með upphaflegu markmiði ríkisstjórnarinnar og sendi skýr skilaboð um að málefni dýraverndar og dýravelferðar séu tekin alvarlega,“ segir Andrés.
Veikt eftirlit
DÍS lét, að sögn Andrésar, vinna úttekt á reynslu af búfjáreftirliti ásamt tillögum til úrbóta, sem var kynnt vorið 2023. „Tilefnið voru ótalmörg dæmi sem komið höfðu inn á borð til Dýraverndarsambands Íslands, þar sem fólk lýsti því hvernig eftirlit væri of veikt til að það nái að tryggja velferð dýra. Þarna er um margþættan vanda að ræða, sem endurspeglast íw því að í úttektinni komu fram heilar 17 tillögur til úrbóta. Þar ber hæst hugmynd um að setja á fót Dýravelferðarstofu Íslands og þannig að skilja eftirlit með dýravelferð frá starfsemi MAST. Með þessu mætti gera dýravelferð hærra undir höfði og klippa á hugsanleg hagsmunatengsl matvælaframleiðslu og dýravelferðar,“ segir hann.
Aðrar mikilvægar tillögur megi nefna, svo sem að leyfisskylda allt búfjárhald á Íslandi, auka eftirlitstíðni, ekki síst óboðað eftirlit með alifuglum og svínum, og tryggja skilvirka og skjóta verkferla og aukinn málshraða þegar upp komi grunur um illa meðferð á dýrum.

Klippt á hagsmunatengsl
Segja samtökin í umsögn sinni að með Dýravelferðarstofu mætti „aðskilja eftirlit með dýravelferð frá starfsemi MAST. Hin nýja stofnun myndi heyra undir umhverfisráðuneytið í stað matvælaráðuneytis [atvinnuvegaráðuneytis, innsk.blm.] eins og nú gildi fyrir MAST. Þannig yrði gerður meiri greinarmunur á því þjónustuhlutverki sem MAST sinnir núna og eftirlitshlutverki þess. Stjórnsýsla dýravelferðar yrði þannig óháð stjórnsýslu matvælaöryggis. Slíkt mun stórauka traust almennings á eftirliti með dýravelferð á Íslandi.“
Þá kemur fram í umsögninni að ef ekki sé vilji til að stofna sjálfstæða Dýravelferðarstofu, líkt og lagt er til í fyrrgreindri úttekt, mætti finna eftirliti með dýravernd og dýravelferð stað hjá hinni nýstofnuðu Náttúruverndarstofnun sem nú þegar hafi víðtækt hlutverk til verndar líffræðilegrar fjölbreytni og sjái um stjórnun veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Ágúst Ólafur Ágústsson, lögfræðingur og hagfræðingur, vann áðurnefnda úttektarskýrslu fyrir DÍS vorið 2023. Tillaga samtakanna um að koma dýravelferð fyrir í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu sé í samræmi við fyrirkomulag í mörgum nágrannaríkjum Íslands. Þegar rýnt sé í verkefni ráðuneytisins skv. forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sé þar nú þegar að finna málaflokka sem eigi skýra samleið með dýravelferð, svo sem verndun lífríkis og líffræðilegrar fjölbreytni, erfðabreyttar lífverur og veiðistjórnun og vernd og friðun villtra dýra og villtra fugla.

Haustið 2023 birti Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á eftirliti MAST með velferð búfjár. Fjallað var um hana í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 154. löggjafarþingi. Skv. DÍS er niðurstaða Ríkisendurskoðunar í grundvallaratriðum í takt við úttektarskýrslu sambandsins. „Þó að ekki sé gengið svo langt að leggja til uppskiptingu Matvælastofnunar segir í úttektinni: „MAST þarf að leggja aukna áherslu á að stjórnsýsluleg framkvæmd verði ekki á kostnað velferðar dýra.“ Dýraverndarsambandið tekur undir þessa niðurstöðu Ríkisendurskoðunar en telur farsælustu leiðina til að ná þessu markmiði vera fullan aðskilnað verkefnanna miðað við að færa eftirlit með dýravelferð til annarrar stofnunar,“ segir í umsögn sambandsins til Alþingis.
Yfirgripsmikil sérþekking
Sagt hefur verið að flókið og jafnvel ógerlegt sé að kljúfa stjórnsýslumál dýravelferðar frá MAST. En fyrir því liggja fleiri rök.

Hilmar Vilberg Gylfason, lögfræðingur og sjálfbærnisérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, situr í fagráði um velferð dýra hjá MAST, fyrir hönd Bændasamtakanna. ,,Ég tel réttast að ég tjái mig um málið út frá mínum bakgrunni og sérþekkingu en ég er bæði búfræðingur og lögfræðingur og mín sérþekking liggur í búfjárhaldi. Út frá þessum forsendum er ég skipaður, fyrir hönd Bændasamtakanna, í Fagráð um velferð dýra,“ útskýrir Hilmar.
„Í mínum huga er það að kljúfa dýravelferð frá MAST fyrst og fremst skrýtin hugmyndafræði og í öllu falli óskynsamlegt. Innan MAST er yfirgripsmikil sérþekking á búfé enda bakgrunnur margra starfsmanna þar dýralækningar eða önnur menntun tengd búfé.
Dýralækningar, sjúkdómavarnir og fleiri þættir tengdir búfjárhaldi eru stór hluti af starfsemi MAST og eru málefnasvið sem eiga eðlilega mikla samleið með dýravelferð,“ segir Hilmar.
Ný stofnun sem hefði það eina hlutverk að sinna dýravelferð þyrfti, að sögn Hilmars, alltaf að vera mönnuð með svipuðum hætti og MAST er nú þegar og hafa sömu innviði. „Eftirlitið er nú þegar mjög kostnaðarsamt og það hlýtur alltaf að vera enn dýrara að færa það á fleiri hendur af því þá er erfiðara að samnýta þekkingu, tæknilausnir og slíkt, fyrir utan flækjustigið sem myndi fylgja því fyrir alla aðila að búa til fleiri stofnanir eða síló innan stjórnsýslunnar,“ segir hann jafnframt.

Tilfærsla málaflokksins breyti engu
Hilmar veltir líka fyrir sér hver þessi knýjandi þörf sé fyrir nýja stofnun eða aðrar útfærslur til að sinna dýravelferð. „Þessum málaflokki er sinnt með miklum ágætum hjá MAST og langstærstur hluti eftirlits hefur ekkert annað í för með sér en eðlilegar og sjálfsagðar ábendingar um það sem betur má fara. Ábendingar sem bændur bregðast við og lagfæra eftir því sem þarf,“ segir hann og heldur áfram: „Alvarleg tilvik sem snúa að dýravelferð eru sem betur fer afar fátíð, enda sýnist mér miðað við tilkynningar frá MAST að verið sé að fást við í kringum þrjú svoleiðis mál að meðaltali á mánuði, sem þarf ekki að endurspegla fjölda þeirra búa sem um ræðir, þar sem MAST verður eðlilega að fylgja stjórnsýslulögum og grípa fyrst til vægasta úrræðis s.s. sekta til að knýja fram úrbætur, áður en farið er í að nýta úrræði eins og vörslusviptingu. Ef við setjum þessi mál í eitthvert samhengi þá erum við kannski að tala um alvarleg tilvik hjá 20-30 búum á ári sem getur varla talist hátt hlutfall í ljósi þess að á árinu 2023 var MAST með eftirlit með 5.768 búum,“ segir Hilmar enn fremur.
Auðvitað megi alltaf gera betur en vandséð að hægt væri að koma alfarið í veg fyrir að alvarleg mál geti komið upp. Hann segist ekki sjá nein rök fyrir því að breyting yrði á því, eða viðbrögðum við því, þó ný stofnun yrði til eða málaflokkurinn aðskilinn öðru eftirliti með einhverjum hætti. Hið sama eigi við hvort sem um sé að ræða búfjárhald eða gæludýrahald.
Aðgerðir til bóta
„Ég hef í mínum störfum innan Fagráðsins, hjá Bændasamtökunum og í gegnum setu í Samstarfsráði MAST, átt mörg gagnleg samtöl um það hver staðan sé á eftirliti með velferð dýra og hvar mörk þess liggja hvenær eftirliti er nægilega vel sinnt. Niðurstaðan mín megin er alltaf sú sama, sem er að eftirlitinu sé vel sinnt og að þær breytingar sem gerðar hafa verið hjá MAST um aukna áherslu á áhættumiðað eftirlit séu jákvæð skref,“ segir Hilmar. Allt eftirlit er byggt á áhættu- og eftirlitsflokkun þar sem þunga eftirlitsins er beint þangað sem áhætta er mest og frammistaða verst.

Hann hafi talað fyrir því að eftirlitið verði tæknivætt til að minnka kostnað og auka skilvirkni. „Flest bú á landinu eru komin með góðar nettengingar og þannig ekkert því til fyrirstöðu að ábyrgðaraðilar á búfjárhaldi geti fengið MAST-app í símann hjá sér. Þar gætu verið aðgengilegir tékklistar sem bændur myndu fara yfir og senda eftirlitinu og síðan myndi MAST gera stikkprufur út frá sínum forsendum um áhættumiðað eftirlit og auðvitað út frá ábendingum sem þeim kunna að berast. Ég sé fyrir mér að meira og minna allt búfjáreftirlit geti farið fram með þessum hætti þ.e. einfalt og skilvirkt og ekki verið að fara ítrekað í kostnaðarsamar eftirlitsheimsóknir á bú þar sem allt er í góðu lagi,“ segir Hilmar.
Tilkynni illa meðferð í 112
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra kynnti sér starfsemi MAST á dögunum, í heimsókn til Hrannar Ólínu Jörundsdóttur, forstjóra stofnunarinnar. MAST er með tíu starfsstöðvar á landsbyggðinni auk höfuðstöðva og útibús í Reykjavík. Kemur fram í fregn á vef Stjórnarráðsins að matvælaráðuneyti eigi í viðræðum við dómsmálaráðuneyti um að kanna möguleika þess að Neyðarlínan taki við tilkynningum almennings í gegnum 112 um slæman aðbúnað eða vonda meðferð dýra. Þar með verði til staðar einföld og skilvirk leið ef þurfi að koma tilkynningu um dýr í hættu á framfæri.
Haft var eftir Hönnu Katrínu í áðurnefndri fregn að mikilvægi MAST hafi farið vaxandi. „Stofnunin sinnir eftirliti með framleiðslu og útflutningi matvæla og hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum sveitarfélaga, auk þess að sinna heilbrigði og velferð dýra á landsvísu og eftirliti með störfum dýralækna. Velferð dýra skipar sífellt stærri sess í umræðunni og þær kröfur sem gerðar eru til MAST hafa aukist í samræmi við það. Við leggjum því áherslu á að stofnunin hafi nauðsynleg úrræði til að takast á við síbreytilegt og krefjandi hlutverk,“ sagði hún.