Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Útflutningsverðmæti norsks sjávarútvegs hefur farið úr 47,7 milljörðum norskra króna, eða sem nemur um 680 milljörðum íslenskum árið 2012, í 120,8 milljarða NOK í fyrra sem nemur rúmum 1.700 milljörðum íslenskra króna.
Útflutningsverðmæti norsks sjávarútvegs hefur farið úr 47,7 milljörðum norskra króna, eða sem nemur um 680 milljörðum íslenskum árið 2012, í 120,8 milljarða NOK í fyrra sem nemur rúmum 1.700 milljörðum íslenskra króna.
Fréttaskýring 16. mars 2022

Metár í norskum sjávarútvegi

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Sjávarútvegur er ein mikilvægasta útflutningsgrein í Noregi og hvergi er vöxturinn meiri en þar. Útflutningsverðmæti hafa farið úr 47,7 milljörðum norskra króna (680 milljörðum íslenskum) árið 2012 í 120,8 milljarða í fyrra (rúmir 1.700 milljarðar íslenskir). Árið 2021 reyndist vera metár í norskum sjávarútvegi.

Sérstök opinber stofnun, Norges sjømatråd, fer með markaðsmál fyrir sjávarútveg og fiskeldi og hefur til þess afar rúm fjárráð. Stofnunin er fjármögnuð með sérstöku gjaldi sem lagt er á útfluttar sjávarafurðir. Hér verður byggt á upplýsingum á heimasíðu Norges sjømatråd, þar sem sagt er frá því með stolti að mörg met hafi fallið á síðasta ári, bæði hvað varðar verðmæti og magn á heildina litið sem og einstakar tegundir eins og lax, makríl og kóngakrabba og fleiri tegundir.

Þar kemur einnig fram að norskar útfluttar sjávarafurðir samsvari um 42 milljónum máltíða á hverjum einasta degi árið um kring.

Leiðandi tegundir

Hér er yfirlit yfir helstu tegundir í útflutningi norskra sjávarafurða 2021, skipt eftir útflutningsverðmæti í norskum krónum og aukningu frá árinu 2020.

Eldislax 81,1 milljarður (+16%)
Þorskur 9,8 milljarðar (+2%)
Makríll 5,9 milljarðar (+18%)
Síld 4,2 milljarðar (+11%)
Eldissilungur 4 milljarðar (+5%)

Norska krónan sterk

Í upphafi ársins 2021 blés ekki byrlega fyrir norskum sjávarútvegi vegna heimsfaraldursins. Þá voru veitingastaðir víða um heim lokaðir. Þegar líða tók á árið, og takmörkunum var létt af, jókst eftirspurnin og verð tók að hækka á sumum afurðum. Þó var verð, þegar upp var staðið, lægra í flestum hvítfisktegundum en árið 2020, en hækkaði lítillega á laxi. Hækkun útflutningsverðmæta í heild helgast einkum af því að meira magn var flutt út en á síðasta ári. Árangur norsks sjávarútvegs þykir einkar góður í ljósi þess að norska krónan styrktist á árinu 2021. Ef krónan hefði ekki styrkst hefði útflutningsverðmæti orðið 6 milljörðum hærra, eða sem nemur 85 milljörðum íslenskum.

Fimmfalt stærri en Ísland

Áður er lengra er haldið er rétt að bera saman útflutning sjávarafurða frá Noregi og Íslandi. Á árinu 2021 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir 329 milljarða króna, um 293 milljarða vegna sjávarfangs og 36 milljarða vegna fiskeldis, samkvæmt upplýsingum á Radarnum, fréttavef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Af þessu má sjá að Noregur er um það bil fimmfalt stærri en Ísland í útflutningi sjávarafurða.

Metútflutningur á laxi

Fiskeldi er mjög öflugt í Noregi og hefur verið lengi. Reyndar er Noregur stærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum. Eldisafurðir skiluðu um 71% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í fyrra. Fluttar voru út 1,4 milljón tonn af afurðum eldisfisks að verðmæti 85,7 milljarðar, um 1,2 þúsund milljarðar íslenskir. Aukning í magni var 11% milli ára en í verðmætum um 16%.

Eldislax ber höfuð og herðar yfir aðrar sjávarafurðir

Á árinu 2021 voru sett met í útflutningi á laxi, bæði í magni og verðmætum. Alls voru flutt út 1,3 milljónir tonna af laxaafurðum að verðmæti 81,4 milljarðar, um 1.160 milljarðar íslenskir. Aukning í verðmætum er um 16%.

Markaðssérfræðingar benda á að fólk hafi verið duglegt að finna nýjar leiðir til að nálgast laxinn þegar veitingahús og mötuneyti voru lokuð, meðal annars með því að panta heimsendan mat eða fara á staði sem buðu fólki upp á að taka fulleldaða laxamáltíð með sér heim.

Þá fluttu Norðmenn út 73.200 tonn af eldissilungi árið 2021 að verðmæti um 4 milljarðar, eða um 57 milljarðar íslenskir.

Metár líka fyrir þorskinn

Fiskveiðar, þar með talið veiðar á skelfiski, skila um 29% af útflutningsverðmætum sjávarafurða en 56% í magni. Í heild voru flutt út 1,7 milljónir tonna af afurðum sjávarfangs að verðmæti 35,1 milljarður, rúmir 500 milljarðar íslenskir. Aukning í magni var 13,8% en í verðmæti 11%. Til saman­burðar má nefna að veiðar á sjávarfangi við Ísland skilaði 293 milljörðum í útflutningsverðmæti.

Af villtum veiddum fiski skilar þorskurinn mestum útflutnings­verðmætum. Alls voru flutt út 199 þúsund tonn af þorskafurðum fyrir um 9,8 milljarða, eða um 140 milljarða íslenska. Magnið jókst um 15% milli ára en verðmæti um 2%.
Verðlækkun varð á þorski sem orsakast af þrem þáttum; auknu framboði, minni eftirspurn frá hótelum, veitingastöðum og mötuneytum vegna lokunar og loks hafði sterkt gengi norsku krónunnar áhrif.

Þrátt fyrir verðlækkun varð árið metár í útflutningsverðmætum, bæði fyrir ferskan og frystan þorsk.

Gott ár fyrir uppsjávarfisk

Í heild gaf uppsjávarfiskur um 11,1 milljarð í útflutningstekjur, eða 158 milljarða íslenska.
Makríll skilaði mestum verð­mætum allra uppsjávarfiska og hann er jafnframt önnur verðmætasta villta fisktegundin á eftir þorskinum. Alls voru flutt út 389 þúsund tonn af makrílafurðum fyrir 5,9 milljarða, um 85 milljarða íslenska. Magnið jókst um 30% milli ára en verðmæti um 18%.

Góðir markaðir voru fyrir síld. Flutt voru út 350 þúsund tonn fyrir 4,2 milljarða, eða 60 milljarða íslenska.

Eftir loðnubrest undanfarin ár fengu norsk skip að veiða loðnu í íslenskri lögsögu á síðasta ári. Lönduðu þau 42 þúsund tonnum af loðnu í Noregi. Mikil vöntun var á loðnuafurðum á markaðnum og því rauk verð þeirra upp í hæstu hæðir. Meðalverð á kíló var 17 krónur norskar, tæpar 243 krónur íslenskar. Í heild skilaði loðnan 660 milljónum, eða 9,4 milljörðum íslenskum.

Skelfiskur í mikilli sókn

Í fyrsta sinn í sögunni fór saman­lagður útflutningur á skelfiski yfir 3 milljarða, eða 43 milljarða íslenska, sem er 38% aukning milli ára.

Hástökkvarinn í þessum flokki var kóngakrabbinn. Hann gaf 999 milljónir, rúma 14 milljarða íslenska. Þetta er 12% aukning í magni en 50% í verðmætum.

Í öðru sæti er rækjan sem skilaði 921 milljón, rúmum 13 milljörðum íslenskum. Þar á eftir kemur snjókrabbi sem gaf 810 milljónir, 11,5 milljarða íslenska.

Þurrkaður saltfiskur mikilvægur

Noregur hefur þá sérstöðu að framleiðsla á þurrkuðum saltfiski, svonefndum klippfisk upp á norsku, er snar þáttur í fiskvinnslunni. Ár og dagar eru síðan Íslendingar hættu þessari framleiðsluaðferð en sneru sér eingöngu að blautverkuðum saltfiski. Norðmenn fluttu út klippfisk fyrir 4,5 milljarða, um 64 milljarða íslenska.

Útflutningur á blautverkuðum saltfiski skilaði 1,2 milljörðum, rúmum 17 milljörðum íslenskum. Lítils háttar samdráttur varð í sölu saltfisks þar sem markaðir á Spáni og Ítalíu gáfu eftir.

Mest til ESB

Helstu markaðir fyrir norskar sjávarafurðir á síðasta ári eru: ESB með 70 milljarða (998 milljarða íslenska), Asía með 23,6 milljarða (337 milljarða íslenska) og Austur-Evrópa með 5,5 milljarða (78 milljarða íslenska).

Af einstökum löndum kaupir Pólland mest af norskum sjávarafurðum. Danmörk kemur þar á eftir en Danmörk er þó aðallega „millilending“ fyrir vörur sem fara endanlega til ESB. Næstu lönd í röðinni eru Frakkland, Bandaríkin og Holland.

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun
Fréttaskýring 26. maí 2023

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun

Hugmyndir um vindmyllur á Íslandi og að nýta vindorku í auknum mæli eru mjög umd...

Vandrataður vegur tollverndar
Fréttaskýring 15. maí 2023

Vandrataður vegur tollverndar

Tollvernd er mikilvægt stjórntæki, liður í opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart...

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“
Fréttaskýring 28. apríl 2023

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“

Opinn upplýsingafundur var haldinn á Hótel Laugarbakka þriðjudaginn 18. apríl ve...

Ákall er um breytingar á riðuvörnum
Fréttaskýring 28. apríl 2023

Ákall er um breytingar á riðuvörnum

Riðuveiki í sauðfé hefur í fyrsta sinn greinst í Miðfjarðarhólfi, sauðfjárveikiv...

Matvæli undir fölsku flaggi
Fréttaskýring 10. mars 2023

Matvæli undir fölsku flaggi

Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda um merkingar...

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda
Fréttaskýring 2. mars 2023

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa falið Landgræ...

Kostur skemmtiferðaskipa
Fréttaskýring 20. febrúar 2023

Kostur skemmtiferðaskipa

Von er á tæplega 300 farþegaskipum til Íslands á þessu ári. Ætla má að farþegar ...

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi
Fréttaskýring 17. febrúar 2023

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi

Í dag eru tveir stórir metanframleiðendur á Íslandi – annars vegar Sorpa í Reykj...