Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
„Grái herinn“ svokallaði hefur gagnrýnt mjög ásælni ríkisins í lífeyrissjóðina sem var upphaflega ætlað að tryggja fólki, sem lokið hafði ævistarfi sínu, áhyggjulaust ævikvöld. Greiðslur úr lífeyrissjóðum séu nú óspart notaðar til að skerða greiðslur frá
„Grái herinn“ svokallaði hefur gagnrýnt mjög ásælni ríkisins í lífeyrissjóðina sem var upphaflega ætlað að tryggja fólki, sem lokið hafði ævistarfi sínu, áhyggjulaust ævikvöld. Greiðslur úr lífeyrissjóðum séu nú óspart notaðar til að skerða greiðslur frá
Fréttaskýring 12. október 2017

Göfug markmið um sjóði sem eru að breytast í martröð eigenda sinna

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mikið hefur verið rætt og ritað um lífeyrissjóði landsmanna. Með stofnun þeirra töldu flestir launþegar að búið væri að tryggja framfærslu þeirra á efri árum, en á liðnum misserum og árum hafa verið að koma upp miklar efasemdir um ágæti sjóðanna. Nær 14 þúsund milljóna króna rekstrarkostnaður stærstu 15 sjóðanna á síðasta ári stingur þar óneitanlega í augu launþeganna sem eiga sjóðina. Þetta er um þrem milljörðum króna hærri upphæð en allur rekstrarkostnaður Akureyrarbæjar. 
 
Heildareignir lífeyriskerfisins eru metnar á 3.633 milljarða króna. Þar af eru innlendar eignir 2.872 milljarðar króna, eða um 78% af heildareignum. Þegar talað er um þessar risaeignir verður fólk að hafa það í huga að það eru alls ekki peningar sem eru fastir í hendi. 
 
Fjármunirnir eru að verulegum hluta bundnir í hlutabréfum og fyrirtækjum sem eiga það til að vera ansi fallvölt. Ein myndarleg fjármálakreppa, nú eða óáran í heimsmálunum, getur þurrkað út þessar meintu eignir á ótrúlega skömmum tíma. Það sýnir reynslan af síðustu fjármálakreppu mjög vel þegar sjóðirnir töpuðu hundruðum milljarða. Þrátt fyrir það hefur verið haldið áfram á sömu braut í áhættufjárfestingum. 
Nýjasta dæmið um áhættuna sem verið er að taka má sjá í fregnum af milljarða fjárfestinga lífeyrissjóða í United Silicon í Reykjanesbæ. Þá hefur hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna í skráðum félögum í íslensku Kauphöllinni fallið um milljarðatugi í kjölfar þessa að Björt framtíð ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu aðfaranótt 15. september. Strax eftir fall ríkisstjórnarinnar þurrkuðust út á pappírunum 35 milljarðar króna. 
 
Beinn lífeyrisskattur í stað lífeyrissjóðssöfnunar 
 
Ýmsir hafa bent á að lífeyrissjóðirnir, eins og þeir eru reknir í dag, séu orðnir ósnertanlegt kerfi í kerfinu. Þeir séu líka beinlínis skaðlegir fyrir launþega vegna vaxtaáhrifa sem rekstur sjóðanna skapar í samfélaginu. Auk þess hafi venjulegt launafólk litla sem enga aðkomu að stjórnun þeirra. 
Þessu til viðbótar telja margir að enginn ávinningur sé af því fyrir sjóðsfélaga að greiða í þá þar sem þær uppsöfnuðu greiðslur eru síðan nýttar til að skerða bætur Tryggingastofnunar á móti. Það sem eigi því að vera til að bæta lífskjör launþega sé ekkert annað en skattur en ekki lífeyrissöfnun. 
 
Gegnumstreymisgreiðslur úr sjóðunum kalla á stöðugt hærri iðgjöld
 
Stór eignarhlutur í fyrirtækjum í verslun og flugrekstri hafa líka sýnt að stjórnendur sjóðanna eru hræddir við að selja þar eignarhluti af ótta við að það leiði til verðfalls og þar með skerðinga á bókfærðum eignum. Þess vegna virðist eina færa leiðin til að halda uppi vaxandi lífeyrisútgreiðslum úr sjóðunum til sjóðsfélaga vera að hækka iðgjöld. Sterkar líkur eru því að fljótlega verði sett fram krafan um að hækka iðgjöldin enn frekar og treysta á að mæta útgreiðslum með gegnumstreymisfjármagni, en ekki með sölu eigna. Kerfið er því að verða stöðugt þyngri baggi á launþegum þvert á upphaflegan tilgang. 
 
Slík dæmi hafa menn ljóslifandi fyrir framan sig, eins og þegar lykilmenn í Högum seldu sína eign vegna ótta við að hún rýrnaði þegar áhrifa af innkomu Costco færi að gæta á markaðnum. Eðlilegt hefði verið að lífeyrissjóðirnir reyndu líka að koma sínum eignum í félaginu í skjól með því að selja. Það var hins vegar ekki hægt í ljósi stórs eignarhluta, því þá hefði hlutabréfaverð í fyrirtækinu hrunið. Til að halda hlutabréfaverðinu uppi neyddust lífeyrissjóðirnir því til að styrkja sína stöðu í félaginu. Sama gerðist í raun í Icelandair. Það getur því reynst afar snúið fyrir lífeyrissjóðina að innleysa bókfærða eign sína í áhættusömum rekstri til að mæta vaxandi þörf á lífeyrisgreiðslum. Til þess finnst aldrei heppilegur tími.Eina færa leiðin virðist vera að hækka iðgjöld launþega í sjóðina til að mæta auknu útstreymi. . 
Iðgjöldin eru nú að fara í 15,5% með hlut launagreiðenda, hvað þau verða eftir næstu kjarasammninga veit enginn. Svona þróun getur ekki leitt til annars en vaxandi óánægju launþega og hruns kerfisins. 
 
„Eignaupptaka og þjófnaður“
 
Eins og  kerfið er rekið í dag þá er inneign sjóðsfélaga ekki erfanleg við andlát. Flestir greiðendur iðgjalda andast án þess að klára reiknaðar úttektarheimildir og því hverfur ætluð inneign inn í svarthol sjóðanna. Þrátt fyrir þetta dugar þessi eignaupptaka ekki til að halda uppi útreiknuðum greiðsluskuldbindingum sjóðanna. 
 
Helgi Pétursson, fyrrverandi talsmaður „Gráa hersins“ svokallaða, lýsti afskiptum ríkisins af eignum lífeyrisþega ágætlega í viðtali við Morgunblaðið í apríl síðastliðnum þegar hann sagði:
„Lágmarksframfærslunni sem við eigum að fá frá ríkinu er velt yfir á lífeyrissjóðina og þetta segjum við að sé bara eignaupptaka og þjófnaður,“ sagði Helgi. Þar kom líka fram að Grái herinn vildi láta reyna á lögmæti þessa fyrir dómstólum og það er hann að gera í máli sem höfðað hefur verið í samvinnu við Flokk fólksins. Var Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður fenginn til að taka málið að sér. 
 
Skylduiðgjöldin hækka stöðugt
 
Samtök atvinnulífsins og Alþýðu­sambands Íslands gerðu með sér samkomulag um hækkun  á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði 2016. Mótframlag átti samkvæmt því að hækka um 3,5% í þremur áföngum til 2018. Gengið var frá samkomulaginu 15. júní 2016. 
 
„Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs“ samkvæmt samningi þessum verður þá samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekanda.
  • 1. júlí 2016 hækkaði mótframlag atvinnurekenda um 0,5 prósentustig.
  • 1. júlí 2017 hækkaði mótframlag atvinnurekenda um 1,5 prósentustig.
  • 1. júlí 2018 hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5 prósentustig.
  • Hækkun um 0,5% þann 1. júlí 2016 átti samkvæmt hugmyndum SA og ASÍ að renna í samtryggingu sjóðsfélaga.
  • Frá 1. júlí 2017 gat fólk samkvæmt samkomulaginu ráðstafað allt að 2 prósentustigum í bundinn séreignarsparnað.
  • Frá 1. júlí 2018 á fólk svo að geta ráðstafað allt að 3,5 prósentustigum í bundinn séreignarsparnað.
Hvort SA og ASÍ eru þess umkomin að ráðskast með hluta af launum fólks hlýtur að vekja spurningar um stjórnarskrártryggðan rétt fólks til að standa utan við félög, eins og lífeyrissjóði. Félagafrelsi er líka hluti af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfest voru á Íslandi 1995. 
 
ASÍ gerði blákalt atlögu að rétti launþega til að ráðstafa hluta aukinna iðgjalda í séreignarsjóði. Sagði ASÍ ljóst í kjölfar undirritunar samkomulagsins að þáverandi löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða hefði ekki að geyma ákvæði sem heimilar sjóðsfélögum eða lífeyrissjóðum að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í bundna séreign. Einnig væri ljóst að tíminn fram til 1. júlí 2016 væri ekki nægur til að lífeyrissjóðirnir gætu sett upp gagnsætt og skilvirkt kerfi svo sjóðsfélagar gætu tekið upplýsta ákvörðun um að ráðstafa hluta skyldutryggingariðgjalds í bundna séreign og áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna.
Samtök atvinnulífsins bættu svo um betur með því að segja: 
 
„Hækkun framlags atvinnu­rekenda til lífeyrissjóðs um 0,5% frá og með 1. júlí 2016 verður fyrst um sinn ráðstafað í samtryggingu viðkomandi lífeyrissjóðs þar til valrétturinn tekur gildi frá og með 1. júlí 2017.“
 
Fjármálaeftirlitið tekur SA og ASÍ á beinið
 
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðs­foringi á Akranesi, gerði alvarlega athugasemd við útlistun SA og ASÍ á þessu máli. 
 
Benti hann á að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafi óskað eftir því við lífeyrissjóðina að þeir héldu aukaaðalfundi þar sem reglugerðum sjóðanna var breytt þannig að búin var til ný séreign, svokölluð tilgreind séreign. Samtök atvinnulífsins, ASÍ og lífeyrissjóðirnir hafi síðan haldið því fram að með þessari breytingu á reglugerðum sjóðanna hefði launafólk ekki kost á að velja sér annan vörsluaðila en lífeyrissjóðina og réðu því þá ekki hvernig það ráðstafaði þessum fjármunum. 
 
Fjármálaeftirlitið sendi lífeyris­sjóðunum bréf vegna svokallaðrar tilgreindrar séreignar en í þessu bréfi voru gerðar alvarlegar athugasemdir við útlistun fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og lífeyrissjóðanna á meðferð þessarar viðbótar lífeyrisgreiðslu.  
 
Fyrsta hækkunin kom 1. júlí 2016, næsta hækkun kom 1. júlí 2017 og sú síðasta kemur 1. júlí 2018, eða samtals 3,5%. Í endurskoðuninni í janúar 2016 var skýrt kveðið á um að einstaklingar eigi að hafa val um að geta sett þetta viðbótar framlag upp á 3,5% í bundna séreign eða í samtrygginguna. Í bréfi FME segir:
„Vegna villandi fréttaflutnings og upplýsinga á heimasíðum lífeyrissjóðanna þess efnis að sjóðsfélögum beri að ráðstafa iðgjaldi til tilgreindrar séreignar til sama lífeyrissjóðs og tekur við iðgjaldi vegna samtryggingar, telur Fjármálaeftirlitið rétt að vekja athygli á þeim reglum sem gilda um rétt sjóðsfélaga til að ráðstafa iðgjaldi sem renna skal til séreignar.“ 
 
Yrði staðan betri með gegnumstreymiskerfi?
 
Því hefur verið velt upp að með því að leggja lífeyrissjóðina niður og taka upp 8% beinan lífeyrisskatt í gegnumstreymiskerfi í staðinn, myndu launþegar geta sparað sér gríðarlega fjármuni. Þessi skattur rynni óskertur til öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Sú prósenta myndi skila ríkinu mun hærri hreinum tekjum í þennan rekstur en umsaminn 15,5% iðgjöld í lífeyrissjóðina. Skattur sem nú er ekki innheimtur fyrr en við útgreiðslu úr sjóðunum kæmi þá strax inn í ríkissjóð. Auk þess yrði afar fjárfrekar afætur á lífeyriskerfinu skornar af. Mismuninn, 7,5% af skattlögðum launum, gætu launþegar svo lagt inn á eigin reikninga ef þeim sýndist svo, eða nota til að auka sín lífsgæði.   
 
Minni áhætta lægri vextir
 
Ef sjóðirnir yrðu lagðir niður hyrfi líka ryksuguáhrif þeirra í þjóðfélaginu vegna 3,5% ávöxtunarkröfunnar og gríðarlegra umsvifa í fyrirtækjarekstri. Afleiðingin gæti orðið mun lægri vextir á lánum til almennings. Launþegar yrðu þá ekki lengur neyddir til að leggja atvinnulífinu til gríðarlegar upphæðir í formi áhættufjármagns í gegnum skyldugreiðslur til lífeyrissjóðina.  
 
Flestir íslenskir stjórnmálamenn hafa hrósað Íslenska lífeyris­sjóðakerfinu í hástert og telja það í alvöru vera akkeri sem geti bjargað þjóðinni þegar í harðbakkann slær og þjóðin eldist. Um leið finna þeir gegnumstreymiskerfi til að halda uppi velferðarkerfinu allt til foráttu. Samt eru slík kerfi notuð víðast hvar annars staðar. 
 
Aldraðir og öryrkjar hafa ekki enn séð þann hag sem í kerfinu á að felast. Ekki eru launþegar heldur upplýstir um þá áhættu sem þeir eru neyddir að taka með drjúgan hluta launa sinna í gegnum skylduinnheimtu iðgjalda. 
 
Fjármagnssuga í íslensku hagkerfi
 
Lífeyrissjóðakerfið sogar til sín gríðarlegt fjármagn frá launþegum í landinu á hverju ári. Þar nema iðgjöldin um 160 þúsund milljónum króna á ári, en útgreiðslur nema um 119 milljörðum samkvæmt ársreikningum lífeyrissjóðanna. Innheimta iðgjalda í lífeyrissjóðina er framkvæmd samkvæmt lagaboði.
Margir eru þó farnir að efast um að slík lög fáist staðist þar sem lífeyrissjóðirnir eru ekki í eigu ríkisins og þarna sé formlega ekki um skattinnheimtu að ræða. Það standist því ekki frekar en skylduaðild að verkalýðsfélögum sem þegar hefur verið dæmd ólögmæt hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Meira að segja hefur Alþýðusamband Íslands neyðst til að viðurkenna þetta. Á heimasíðu ASÍ segir:  
„Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, má engan skylda til aðildar að félagi þó kveða megi á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“
 
Örlítið neðar í textanum kemur svo þversögnin:
 
„Ákvæði um greiðsluskyldu til félaga án félagsaðildar er að finna í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980 svo og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 en greiðsluskyldu fylgir ekki aðildarskylda.“
 
Hvernig í ósköpunum er hægt að skylda fólk til að greiða iðgjöld sem stjórnarskráin segir að ekki sé hægt að skylda fólk til að vera í? Það hlýtur væntanlega líka að gilda um aðild að lífeyrissjóðunum – eða hvað?
 
Því er haldið fram að lífeyrissjóðakerfið fái ekki staðist til lengdar. Það sé í raun eins og svarthol sem gerir það að verkum að þörf sé á stöðugt hærri iðgjöldum til að standa undir skuldbindingum. Mynd /ADI Accounting
 
Það kostar 17 milljarða að reka alla sjóðina
 
Rekstrarkostnaður sjóðanna, sem eru 28 að tölu, er varlega áætlaður  um 17 milljarðar króna á ári samkvæmt uppreiknuðum tölum og úttekt Ragnars Ingólfssonar, formanns VR, á ársreikningum lífeyrissjóðanna 2016. Launakostnaður æðstu stjórnenda 14 stærstu sjóðanna nam á síðasta ári hátt í milljarði króna, eða 940.663.521 krónum. Á bak við þessa tölu eru aðeins 46 stjórnendur og 94 stjórnarmenn. 
 
Rekstrarkostnaður 14 lífeyris­sjóða var 13.776.237.589 kr. á síðasta ári. Skrifstofu- og stjórnunar­kostnaður var 5.306.469.301 kr. Bein fjár­festingargjöld námu 1.378.170.384 kr. og áætluð fjárfestingargjöld voru 7.091.597.904 kr.
 
Ragnar hefur áhyggjur af því að lífeyrissjóðakerfið fái ekki staðist til lengdar. Öll slík kerfi má vissulega líkja við Ponzi-svindl að hætti Charles Ponzi, sem fann snjalla leið fyrir fjárfesta til að hagnast á fávisku annarra.  Það þarf nefnilega stöðugt hærri inngreiðslur í sjóðina til að halda píramídakerfinu gangandi. Um leið og ein stoð brestur hrynur kerfið.
 
Þá er innbyggð áhætta í kerfið með þeim hætti að utanaðkomandi áföll geta eyðilagt á augabragði áratuga peningasöfnun almennings. Ragnar hefur því verið að viðra hugmyndir um að trappa niður stöðu lífeyrissjóðanna í þjóðfélaginu. Hann gengur þó ekki svo langt að vilja leggja niður lífeyrissjóðina að svo stöddu, heldur að þeir verði sameinaðir og gerðar verði róttækar breytingar á öllu kerfinu.   
 
Ávöxtunarkrafan sótt að stórum hluta í vasa launþega
 
Lífeyrissjóðunum er gert að mæta ávöxtunarkröfu upp á 3,5%, eða sem nemur 172,3 milljörðum króna. Til að standa við þá kröfu verða menn að reikna verðtryggingu inn í breytuna. Miðað við 3,5% ávöxtunarkröfu þurfa lífeyrissjóðirnir að ávaxta innlendar eignir um rúmlega 100 milljarða króna á ári. Ef miðað er við að verðbólga sé 2,5%, eins og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir, þurfa sjóðirnir að kreista út úr íslensku hagkerfi 172,3 milljarða á hverju einasta ári og sú upphæð fer stöðugt hækkandi. 
 
Til að mæta því hafa sjóðirnir m.a. fjárfest grimmt í fyrirtækjum á markaði hér heima og eiga nú drjúgan hluta fyrirtækja í alls konar rekstri. 
 
Eignir lífeyrissjóðanna í versl­unum af ýmsum toga, eins og Högum, þýðir að þær verslanir verða að vaxa til að ná inn ávöxtunarkröfunni. Það gerist ekki síst  í gegnum vöruverð. Sama á við um flugfélög og öll önnur fyrirtæki sem lífeyrissjóðirnir koma að. Það er því á endanum almenningur í landinu, sem jafnframt á sjóðina, sem að verulegum hluta greiðir milljarðana sem þarf til að mæta ávöxtunarkröfunni í háu vöruverði. 
 
Lífeyrissjóðirnir geta svo gengið enn lengra í áhættusömum fjárfestingum. Þeir hafa nefnilega heimild til að eiga allt að 25% af eignum sínum í óskráðum félögum og eiga flestir langt í land með að nýta þá heimild. 
 
Þessi fyrirtæki ganga ekki öll jafn vel, samanber United Silicon í Helguvík. Þar hafa lífeyrissjóðirnir Festa, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og EFÍA [Eftirlaunasjóður Félags íslenskra atvinnuflugmanna] fjárfest fyrir 2.166 milljónir króna. Ef þeir fjármunir tapast, þarf að ná því tapi til að mæta ávöxtunarkröfunni einhvers staðar annars staðar í kerfinu. 
 
Lífeyrissjóðirnir eru ekki eign ríkisins
 
Greinilegt er að margir stjórnmála­menn líta orðið nánast á lífeyrissjóðina sem eign ríkisins sem þeir eru alls ekki. Skerðingar á lífeyrisgreiðslum frá ríkinu vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum staðfesta að þetta sé skilningur ráðamanna á kerfinu. Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar ekki eign neinna annarra en sjóðsfélaga sjálfra. Atvinnurekendur eiga heldur ekkert tilkall til þessara sjóða þar sem hlutur launagreiðenda í iðgjöldum er hluti af umsömdum launakjörum. 
 
Nú hefur fráfarandi fjármála­ráðherra lýst því yfir að lífeyrissjóðirnir eigi að vera fyrsta stoðin í lífeyriskerfi aldraðra. Hafa þessi ummæli vakið furðu þar sem ríkissjóður er ekki og hefur aldrei verið eigandi lífeyrissjóðanna. Því geti ráðherrann ekki látið sem svo að lífeyrissjóðirnir taki að sér hlutverk Tryggingastofnunar, því þeim var aðeins ætlað að vera viðbót við lífeyriskerfið til hagsbóta fyrir launþega. 
 
Skattahlutdeild ríkisins í lífeyrissjóðunum
 
Það flækir vissulega málið að þegar lífeyrisiðgjöld og reyndar viðbótarlífeyrir líka, eru dregin frá launum, þá er skattur ekki innheimtur til ríkisins af þeim tekjum eins og eðlilegt væri, heldur er hann reiknaður eftir á við úttekt. Hvort ríkið hafi svo einhverja heimild til að lána þessa skattafjármuni  inn í lífeyrissjóðina er svo annað mál. Með þessu móti eru gríðarlegar upphæðir undir umsjá sjóðanna sem notaðar eru í alls konar fjármálavafstur fólks sem er í litlum sem engum tengslum við raunverulega eigendur sjóðanna. Oft hefur það verið með skelfilegum afleiðingum og tapi. 
 
Miklar skatttekjur sem ríkið setur í bið
 
Trúlega væri hægt að gjörbreyta stöðu ríkissjóðs á tiltölulega skjótvirkan hátt til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Það mætti einfaldlega gera með því að ríkið innheimti skattahlutdeild sína af inneignum í sjóðunum og nýtti hann í innviðauppbyggingu fyrir sjúka og aldraða. Samhliða yrði tekin upp staðgreiðsla skatta af greiðslum til lífeyrissjóðanna eins og öðrum launum. Eftir stæðu lífeyrissjóðirnir sem hrein eign sjóðsfélaga þeim til ráðstöfunar án nokkurra afskipta ríkisins. Þá ætti ekki að vefjast fyrir mönnum að reisa nýtt landssjúkrahús og byggja upp innviði eins og öldrunarþjónustu og vegakerfi. 
 
Lífeyrissjóðirnir fæddust í kjarasamningum 1969
 
Tilurð lífeyrissjóðanna er rakin til kjarasamnings ASÍ og VSÍ árið 1969 um stofnun almennra lífeyrissjóða fyrir alla launamenn. Samningurinn skyldar launagreiðanda til þess að taka þátt í að greiða í lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína og tryggja þeim þannig lífeyrisréttindi við starfslok vegna aldurs eða örorku og sömuleiðis „eftirlifandi maka og börnum lífeyri við andlát“. Kerfinu var ætlað að vera „viðbót við almannatryggingarkerfið“ en ekki að koma í stað þess. 
 
Vissulega falleg hugmynd, en þarna hafa menn greinilega ekki haft miklar áhyggjur af að þetta kynni að stangast á við stjórnarskrárvarin réttindi launþeganna. 
 
Áður en samningur um almennu lífeyrissjóðina var gerður voru einungis starfræktir lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, bankamanna og á almennum vinnumarkaði sjóðir verslunarmanna og sjómanna. Auk þess voru sjóðir fárra annarra stétta og starfandi voru fyrirtækjasjóðir sem aðallega tóku til fastráðinna starfsmanna viðkomandi fyrirtækja. 
 
Lífeyrissjóðir voru eingöngu lögboðnir hjá opinberum starfsmönnum og bankamönnum sem hluti af lögum um kjör þessara stétta. Almennur launamaður sem fór á lífeyri átti hins vegar engin lífeyrisréttindi önnur en í almannatryggingakerfinu. Þrátt fyrir tilkomu lífeyrissjóðanna hefur verið  mikið óréttlæti og ójöfnuður  í greiðslu lífeyris, þar sem opinberir starfsmenn hafa verið á sérkjörum hvað tryggðar lífeyrisgreiðslur varðar langt umfram almenna launamenn. 
 
Knýjandi nauðsyn á að bæta kjör lífeyrisþega
 
Árið 1969 voru greiðslur almanna­trygginga til ellilífeyrisþega 36 krónur á mánuði til samanburðar við meðal mánaðarlaun fullvinnandi verkamanns sem voru 214 krónur. Það var því útilokað fyrir allt almennt launafólk að sjá sér farborða af lífeyrinum einum saman, segir í söguágripi Alþýðusambands Íslands um lífeyrissjóðina. 
 
Með kjarasamningi milli Alþýðusambands Íslands og samtaka atvinnurekenda frá 19. maí 1969 var gert samkomulag um að frá 1. janúar 1970 skyldu starfræktir söfnunarlífeyrissjóðir á félagslegum grunni samtryggingar og var þeim ætlað að vera „viðbót við almannatryggingakerfið“ og standa undir verulega bættum kjörum lífeyrisþega sem mikil þörf var á. Til að tryggja öllum launamönnum lágmarksrétt var kveðið á um skylduaðild allra félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem að lífeyrissjóðnum standa og skyldu sjóðirnir veita öllum sjóðfélögum sama rétt fyrir sömu iðgjöld án tillits til aldurs við iðgjaldagreiðslu, kynferðis eða starfs.
 
„Skylduaðild“
 
Þessi skylduaðild og skyldu­innheimta í lífeyrissjóð hefur verið gagnrýnd. Enda er óheimilt að skylda einstaklinga til að vera í stéttarfélagi eða öðrum félögum samkvæmt stjórnarskrá og EES-samningum. 
Samningi aðila vinnumarkaðarins um lífeyrismál var í reynd veitt lagagildi með löggjöf um skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem voru fyrst sett árið 1974. Kjarasamningurinn um lífeyrismál hefur síðan verið framlengdur við endurnýjun almennra kjarasamninga og skoðast sem hluti þeirra. Með viðbótarsamningi milli ASÍ og samtaka atvinnurekenda árið 1995 voru grunnstoðirnar þrjár áréttaðar, þ.e. samtrygging, skylduaðild og sjóðssöfnun.
 
Þá segir einnig í samantekt ASÍ: 
„Í þessu endurspeglast hin ríka áhersla sem lögð var á að sjóðirnir störfuðu á félagslegum grunni samtryggingar. Í kjara­samningunum var einnig fjallað um iðgjaldagreiðslur í sjóðina, skipun stjórna og lágmarksréttindi sjóðfélaga. Samtök launamanna og atvinnurekenda skuldbundu sig þannig í sameiningu til gæslu og ábyrgðar á rekstri sjóðanna sem skyldu vera sjálfseignarstofnanir á forræði þeirra.“
Ef iðgjöld til lífeyrissjóðanna eru hluti af kjarasamningum og þar með launakjörum fólks eins og ASÍ segir, af hverju eru launagreiðendur þá áfram með puttana á kafi í launaumslaginu með heimild til að ráðskast með þennan sparnað?
Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Friðarlilja – falleg allt árið
26. ágúst 2019

Friðarlilja – falleg allt árið

Fjár- og stóðréttir 2023
24. ágúst 2023

Fjár- og stóðréttir 2023

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Smalað vegna óveðurs
12. september 2024

Smalað vegna óveðurs