Betur má ef duga skal
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru um 24 prósent hráefnisins send til endurvinnslu erlendis þrátt fyrir að hérlendis sé starfrækt endurvinnslufyrirtæki sem hæglega gæti endurunnið allt heyrúlluplast sem til fellur á Íslandi og lög og reglur hvetji til að halda efnisstraumum innanlands.

Allflestir bændur losa sig við notað heyrúlluplast gegnum þjónustuaðila sem sækja plastið og koma því í endurvinnslu, hérlendis eða erlendis. Einnig eru dæmi um að bændur skili plastinu sjálfir til plastendurvinnslustöðvarinnar Pure North í Hveragerði. Enn eru þó einhver dæmi um að bændur kjósi að skila ekki plasti sínu til endurvinnslu heldur brenni það sjálfir.

Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg af plasti sem notað er til að pakka inn heyrúllum. Gjaldið á, að notkun plastsins lokinni, að standa undir kostnaði við flutning þess og endurvinnslu.

Í fyrra var úrvinnslugjald á heyrúlluplast hækkað úr 40 kr. á kílóið í 82 kr. Bændasamtök Íslands mótmæltu hækkuninni og töldu að líklega yrði henni velt á útsöluverð heyrúlluplasts með tilheyrandi kostnaði fyrir bændur.

Úrvinnslusjóður fer með umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds og á að beita hagrænum hvötum til að fá heyrúlluplast úr sveitum landsins flutt flokkað til endurvinnslu. Miðað er við að plast sé sótt á hvert lögbýli eða á ákveðinn söfnunarstað minnst einu sinni til tvisvar á ári, án aukakostnaðar fyrir bændur.

„Það er undir hverju og einu sveitarfélagi komið hvernig þau haga sinni þjónustu,“ segir Edda Andrésdóttir, samskiptastjóri og lögfræðingur hjá Úrvinnslusjóði, í svari við fyrirspurn. „Flest sveitarfélög sækja heyrúlluplast heim á lögbýli í það minnsta einu sinni á ári, algengast er að sótt sé tvisvar til þrisvar á ári. Einhver sveitarfélög láta bændur fara sjálfa með heyrúlluplastið á grenndarstöð/ söfnunarstöð ef um langan veg er að fara,“ segir hún.

Meirihlutinn í innlenda endurvinnslu

Úrvinnslusjóður annast umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds á grundvelli samninga við þjónustu- aðila um úrvinnslu úrgangs. Fengu þjónustuaðilar lengstum mest greitt fyrir að flytja plastið að útflutningshöfnum en fá nú sérstakt álag, hagrænan hvata, til að koma plastinu til endurvinnslustöðvarinnar í Hveragerði, þeirrar einu sinnar tegundar á Íslandi.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Úrvinnslusjóðs fóru 2.388.551 kg heyrúlluplasts til endurvinnslu árið 2023. Þar af fóru 1.821.803 kg, eða rúm 76 prósent, til Hveragerðis á meðan 566.748 kg voru flutt til endurvinnslufyrirtækisins Peute í Hollandi, tæp 24 prósent. Óútgefna heildartölu Úrvinnslusjóðs yfir heildarmagn heyrúlluplasts sem barst til endurvinnslu fyrir 2023 segir Edda hins vegar vera 1.933.655 kg. Óhreinindi og raki (vatn) sem fallið hafi til við meðhöndlun og endurvinnslu séu um 511 tonn.

Halda ber til haga að hér er eingöngu um að ræða það plast sem safnað er og komið í farveg og því ekki mælikvarði á árlega notkun. Einnig ber að hafa í huga að frá því heyrúlluplast er flutt inn, það keypt af notanda, notað og svo skilað til endurvinnslu, geta liðið mánuðir og ár.

Heildargreiðslur fyrir meðhöndlun á heyrúlluplasti segir Edda hafa numið rúmlega 130,3 m.kr. árið 2023. Greiðslur fyrir flutningsjöfnun námu rétt rúmri 23,1 m.kr. Við almennu flutningsjöfnunina bætast um 11,6 m.kr. vegna endurvinnslu innanlands. Heildarflutningsjöfnun sé 37,8 m.kr.

Edda segir ekki hafa verið skoðað eða metið sérstaklega hvort Ísland eigi langt í land með að ná endurnýtingu á öllu plasti sem falli til í landbúnaði. Hún bendir á að endurvinnsluleiðir séu til staðar fyrir nánast allt umbúðaplast sem fellur til í greininni.

Fleygiferð inn í hringrásarhagkerfið

Boðuð Evrópureglugerð um endurunnið plast, sem taka á gildi á næsta ári, er að styrkja endursölumarkaði á endurunnu plasti verulega. Endurgjald hefur hækkað og endurunnið plast er orðið eftirsóttara og þar með verðmætari vara. Reglugerðin setur m.a. þau skilyrði að framleiðendur plastumbúða hafi í það minnsta 25 prósent hlutfall af efni þeirra úr endurunnu plasti.

Íslenska endurvinnslufyrirtækið Pure North í Hveragerði, stofnað árið 2016, endurvinnur í dag megnið af því heyrúlluplasti sem til fellur á Íslandi eða upp undir 2.000 tonn á ári. Er það eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu.

Börkur Smári Kristinsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri hjá íslenska plastendurvinnslufyrirtækinu Pure North í Hveragerði, segir bændur hafa tekið stór skref í að bæta umgengni og meðhöndlun á heyrúlluplasti eftir að unnt varð að að skila því til endurvinnslu á Íslandi. Myndir/ghp

Börkur Smári Kristinsson er nýsköpunar- og þróunarstjóri Pure North. Hann segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar í frágangi og meðhöndlun á heyrúlluplasti frá því að fyrirtækið hóf starfsemi.

„Við erum að sjá mikinn mun á viðhorfi til flokkunar og endurvinnslu og þar hafa bændur tekið stór skref í að bæta umgengni og meðhöndlun á heyrúlluplasti eftir að hægt var að endurvinna plastið á Íslandi.“ Hann telur þó að hægt sé að gera enn betur þar sem stjórnvöld hafi sett fram skýra sýn um að efla skuli innlenda endurvinnslu.

„Þetta er stöðug vegferð sem við erum í. Hvort sem um er að ræða heyrúlluplast eða aðra strauma af efnum sem falla til í samfélagi okkar. Við erum á fleygiferð inn í hringrásarhagkerfi og stór hluti af því er að geta endurnýtt og endurunnið efni sem falla til í okkar daglega lífi. Hvatinn til að sækja þessi efni, meðhöndla þau, flokka og skila til endurvinnslu er mjög stór þáttur í að þetta geti gengið upp,“ segir Börkur og tekur fram að flutningsjöfnun sé óhemju mikilvæg.

Hann segir litamun á heyrúlluplasti ekki hafa áhrif á endurvinnslumöguleika þess. Liturinn snúi eingöngu að því hvort unnt sé að lita afurðina eftir á og endurunna plastið sé jafngott, sama hvernig það er á litinn.

Spjótin á Úrvinnslusjóði

Börkur segir Úrvinnslusjóð mikilvægasta handbæra stjórn- og hvatakerfið til að beina efnum í bestu mögulegu farvegi fyrir hringrásarhagkerfi. Það sé gott að mörgu leyti en mætti gera miklu betur.

Úrvinnslugjaldið er einnig notað til að greiða flutningsjöfnun fyrir heyrúlluplast og önnur efni, þannig að jöfnuð séu tækifæri allra í landinu til að skila því til endurvinnslu. Áður fyrr var kerfinu stillt upp þannig að engin endurvinnsla var hér á landi og allt flutt út.

„Að geta jafnað tækifæri allra að skila inn til okkar án þess að þurfa hreinlega að borga með því er eitthvað sem við börðumst mjög lengi fyrir. Það náðist loks í gegn fyrir um tveimur árum. Við erum því komin á þann stað að nú er flutningsjöfnun greidd frá öllum þessum stöðum og því fjárhagslegur hvati fyrir bændur, sveitarfélög og aðra aðila, sem vilja safna heyrúlluplasti, að koma því í endurvinnslu hjá okkur,“ segir Börkur.

Pure North tekur á móti heyrúlluplasti frá hátt í hundrað aðilum á ári hverju og þeim fer fjölgandi sem koma með plast beint til fyrirtækisins, að sögn Barkar.

„Þetta eru bændur, sveitarfélög, fyrirtæki, verktakar og einstaklingar sem vilja sjá efnið sitt fara í gagnsætt og umhverfisvænt ferli, í samræmi við lög. Í gegnum þetta hvatakerfi hjá Úrvinnslusjóði borgum við í rauninni fyrir þetta plast sem kemur til okkar og greiðum í samræmi við magn og hvaðan efnið kemur,“ útskýrir hann enn fremur. 

Dauðir kálfar og skiptilyklar

Mikilvægt er að ganga rétt frá heyrúlluplasti með því að bagga það eða þjappa ofan í t.d. fiskikör eða bambagrindur. „Ef þú kemur með efni í bambagrindum þá færðu hjá okkur tómar grindur á móti. Þú getur léttilega komið 250 kílóum í eina bambagrind. Ef fólk á leið til Reykjavíkur þá setur það grindurnar eða körin á kerru og kemur við hjá okkur í Hveragerði og fær þá fyrir ferðinni og gott betur, án auka fyrirhafnar. Og þú ert þá að skila plastinu þínu til innlendrar endurvinnslu með tilheyrandi lægra kolefnisspori og virðismyndun hér heima,“ segir Börkur.

Unnt er að endurvinna nálega allt heyrúlluplast, jafnvel það sem er að hluta eða öllu leyti úr endurunnu plasti. Stór hluti af þeim 2.000 til 2.500 tonnum heyrúlluplasts sem skilað er inn til endurvinnslu árlega er þó vatn og óhreinindi.

„Plastið er oft geymt laust úti, það getur dregið í sig rosalegt magn af vatni, klaka og snjó og svo er bara drulla, mold og gras sem festist inni í filmunni, á milli laga í hinni næfurþunnu filmu sem rúllað er mörgum umferðum um grasið,“ útskýrir Börkur. Kveður hann vatns/óhreinindahlutfallið geta verið allt að 70 prósentum þyngdar ef meðhöndlun er ekki góð. Ná megi hlutfallinu mun neðar, allt að 40 prósentum, sé heyrúlluplasti haldið þurru og það baggað eða pressað rétt. Þannig sparist umtalsverðir fjármunir í flutningum og kolefnisspori. Fyrirtækið hafi því hvatt til bættrar umgengni um notað heyrúlluplast, til hagræðingar fyrir alla aðila í virðiskeðjunni.

Sem dæmi um það sem fundist hefur í heyrúlluplastinu á síðustu árum eru dauðir kálfar og hnausþykkir skiptilyklar. „Atvik sem þessi hafa komið upp en sem betur fer eru þau mjög fátíð, en það er einn og einn sem virðist enn þá vera sama um hvernig gengið er um heyrúlluplastið.“

Umhverfisvænsta endurunna plast í heimi

Pure North endurvann árið 2022 á bilinu 1.200–1.300 tonn af fullunnu plasti, úr heyrúlluplasti og öðrum plasttegundum. Heyrúlluplastið er þó stærsti straumurinn í endurvinnslunni hjá fyrirtækinu.

Frá árinu 2018 til 2021 fór Pure North úr 150–200 tonnum af heyrúlluplasti í endurvinnslu árlega og í yfir 1.000 tonn. Börkur segir fyrirtækið hafa farið í miklar fjárfestingar árin 2019–20 og sett upp nýja vinnslulínu, sérhannaða og þróaða fyrir heyrúlluplast, með því að nýta jarðhitann og jarðgufuna í Hveragerði. Þannig nái fyrirtækið lágu kolefnisspori og góðum gæðum án þess að nota kemísk efni eða annað slíkt.

Börkur segir að færa megi góð rök fyrir að endurunna heyrúlluplastið frá Pure North sé umhverfisvænasta endurunna plast í heimi og bendir máli sínu til stuðnings m.a. á EPD- umhverfisvörulýsingu frá 2022 sem aðgengileg er á vef fyrirtækisins. Pure North hafi fengið mikla athygli erlendis frá vegna þess ferlis sem stillt er upp við endurvinnsluna.

Pure North framleiðir rafmagns- girðingastaura úr endurunnu plasti.
Girðingarstaurar og plastbrúsar

Um eða yfir 90% af endurunna plastinu selur Pure North erlendis, einkum til Bretlands þar sem það fer beint í nýja vöruframleiðslu og sumar af þeim vörum rata mögulega aftur inn á íslenskan markað.

Fyrirtækið hefur jafnframt verið í tilraunavöruþróun fyrir innanlandsmarkað og búið til og selt rafmagnsgirðingarstaura úr endurunnu heyrúllu- og röraplasti. Fleiri verkefni eru í gangi hjá þeim sem tengjast umbúðaframleiðslu úr endurunnu heyrúlluplasti að mestu leyti, t.d. 5 lítra brúsum.

„Okkar hugmyndafræði snýr að því að loka allri hringrásinni hér heima þannig að efni sem koma til okkar fari ekki úr landi heldur verði að vörum sem nýtast aftur innanlands,“ segir Börkur. Hann bætir því við að plastframleiðendur á Íslandi hafi upp til hópa ekki sýnt nægjanlega mikinn áhuga á að nota endurunnið plast í afurðir sínar. Ef til vill vegna þess að það sé krefjandi og flókið að gera tilraunir og vinna að nýsköpun og þegar sé til staðar tækjabúnaður hannaður til að vinna úr nýju hráefni.

Tregða og áhugaleysi

„Við höfum leitt ákveðna þróun á framleiðslu úr endurunnu hráefni en menn stökkva ekki alveg á það, enn sem komið er. Kannski vantar sterkari hvata til að vinna úr endurunnum efnum og þar kemur Úrvinnslusjóður inn í myndina,“ heldur Börkur áfram.

Jafnframt skipti stefna stjórnvalda máli og að farið sé eftir henni. „Framleiðsluiðnaður á Íslandi þarf að komast á þann stað að hann sé að nýta og kaupa inn aðföng og hráefni úr endurunnum efnum. Í lok dags eru það krónurnar sem skipta máli og ef þú hefur valkost um kolefnisspor eða krónur þá munu langflestir fara eftir krónunum, þannig er það bara,“ bætir hann við. Þetta verði að ganga upp viðskiptalega séð. Meðan munurinn sé ekki meiri en raun ber vitni verði erfitt að breyta, og breyta nægilega hratt.

Að sögn Barkar benda lög og reglur, í Evrópusambandinu og víðar, í þá átt að endurvinna skuli og meðhöndla úrgang sem næst uppruna. Árið 2026 sé væntanlegt bann við því að OECD-ríki, þ.m.t. Ísland, flytji efni til endurvinnslu til landa utan OECD. Endurvinnslugeta í Evrópu sé í dag ekki næg til að anna allri eftirspurn eftir endurvinnslu frá ríkjum innan Evrópu og því sé þeim mun mikilvægara að efla innviði í hverju ríki til að hægt sé að ná lögbundnum markmiðum um endurvinnslu. Endurvinnsla á íslensku heyrúlluplasti sem hafi á árum áður sumt endað í Malasíu þurfi að heyra sögunni til.

Stjórnvöld stígi fastar til jarðar

„Sett voru metnaðarfull lög hér á Íslandi fyrir þremur árum síðan, hringrásarhagkerfislögin, og þar var skýrt tekið fram, sem og í nefndaráliti með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, að ef innviðir og aðstaða séu til staðar á Íslandi þá skuli endurvinna hér á landi. Þar með er verið að segja að ekki eigi að flytja plast óunnið úr landi ef hægt er að endurvinna það hér. Til viðbótar hefur einnig verið gerð enn skýrari krafa á Úrvinnslusjóð um að tryggja rekjanleika á úrvinnslu efna og hvaða umhverfisáhrif endurvinnslufarvegir erlendis hafa. Þetta hefur sjóðurinn ekki gert,“ segir Börkur. Í dag sé því í raun farið á svig við lög og reglur og menn skýli sér á bak við að enn sé hagkvæmara að senda plast út til endurvinnslu.

Engan bilbug sé á Pure North að finna. „Við viljum bara sjá stjórnvöld stíga enn fastar til jarðar. Það þurfa allir að láta í sér heyra og setja kröfu á að þeirra plast skili sér í innlenda endurvinnslu,“ segir hann.

Hringrásarhagkerfið snýr að því að geta haldið efnum og verðmætum innan hagkerfisins.

„Í dag er verið að senda út úr landinu þúsundir tonna af hráefnum sem skilja ekkert eftir sig. Við erum komin af stað, lögin tóku gildi fyrir þremur árum síðan en það þarf að spýta í lófana. Styrktarsjóður til uppbyggingar hringrásarhagkerfis kom sterkur inn þarna eftir lagasetningu en hann var lagður niður eftir tveggja ára starfsemi og til hans hefur ekki spurst síðan. Það vantar enn þá skýrari aðgerðir stjórnvalda í að efla hringrásarhagkerfið,“ segir Börkur að endingu og telur landsmenn tilbúna að stökkva á vagninn í hringrásarhagkerfi.

Úr heyrúlluplastinu verða til plastperlur sem notaðar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum.
Notkun bænda á endurunnu heyrúlluplasti

Endurunnið heyrúlluplast er að ryðja sér til rúms í auknum mæli. Er endurunnu rúlluplasti þá yfirleitt blandað saman við nýtt plast í einhverjum hlutföllum, t.d. 25 prósent. Dæmi eru þó um 100 prósent endurunnið heyrúlluplast.

Fóðurblandan selur þrjár tegundir endurunnins heyrúlluplasts; 100 prósent endurunnið plast og með 25 og 30 prósenta hlutfalli endurunnins plasts. Segir Pétur Pétursson sölustjóri 30 prósenta plastið endurvinnanlegt að fullu. Sala gangi ágætlega og alltaf sé að verða meiri áhugi. „Það mætti þó vera meiri áhugi hjá bændum og kannski þarf að auglýsa betur,“ segir hann.

Verðmunur sé nánast enginn á 30 prósenta plastinu og því venjulega úr frumefnum. Jafnframt sé enginn munur á fóðurgæðum. Um 34 prósenta hækkun hefur orðið á innkaupsverði heyrúlluplasts hjá Fóðurblöndunni á sl. fimm árum, að sögn Péturs.

Bústólpi bauð í fyrsta sinn í sumar til sölu heyrúlluplast sem er á bilinu 25 til 30 prósent úr endurunnu plasti. Að sögn Hönnu D. Maronsdóttur markaðsstjóra gekk það ekki sérlega vel í sölu en nokkrir viðskiptavinir voru fengnir til að prófa að nota það og viðbragða er að vænta. Hún segir ekki verðmun á því heyrúlluplasti og öðru.

Hjá Líflandi hefur m.a. fengist 100 prósent endurunnið EcoAgro- heyrúlluplast frá pólska framleiðandanum Folgos. Þetta plast er flutt inn af fyrirtækinu Silfrabergi.

„Þessi vara hefur farið hægar af stað en vonir stóðu til, þrátt fyrir sambærilegt verð við hefðbundið. Rannsókn sem framkvæmd var af Landbúnaðarháskóla Íslands bendir þó til að umrædd vara sé enginn eftirbátur vel þekktra tegunda á markaði þegar kemur að varðveislu heyfengs,“ segir Jóhannes B. Jónsson, deildarstjóri ráðgjafar og vöruþróunar hjá Líflandi. Hvað valdi sé ekki gott að segja. „Það er þó ljóst að notendur eru íhaldssamir þegar rúlluplast er annars vegar enda mikið í húfi þegar heyfengurinn er undir. Það bendir þó allt til þess að EcoAgro plastið sé fyllilega raunhæfur valkostur fyrir íslenska bændur,“ bætir hann við.

Jóhannes segir verðlag á heyrúlluplasti hafa hækkað um u.þ.b. 13-14 prósent sé horft aftur til ársins 2019. „Það hefur á hinn bóginn lækkað um nálega 17 prósent frá vetrinum 2022–2023, þegar plastverð náði hvað hæstum hæðum,“ segir hann enn fremur.

Fullendurunna plastið enn í tilraunum

Þegar leitað var til Landbúnaðarháskóla Íslands varðandi rannsóknir þar á endurunnu heyrúlluplasti kom í ljós að Jóhannes Kristjánsson, kennari við skólann á sviði ræktunar og fæðu, vann samanburðarrannsókn á EcoAgro-plastinu veturinn 2022–2023. „Sú rannsókn kom þokkalega út fyrir plastið en var mjög takmörkuð og myndi nú aldrei geta flokkast sem ítarleg,“ segir Jóhannes.

Sauðfjárbú LbhÍ að Hesti prófaði að nota EcoAcro-plastið í sumar. „Við vorum nú ekki að rannsaka það sérstaklega í sumar en við reyndum að nota það. Reynslan var því miður ekki góð og plastið ónothæft,“ segir Logi Sigurðsson, bústjóri á Hesti, og bætir við að hann vilji trúa því að brettið sem hann fékk hafi verið gallað.

Kemst þótt hægt fari

Unnt er að endurvinna nærfellt allt heyrúlluplast svo fremi sem það er þokkalega hreint og á það við um plast úr eingöngu frumefnum, blandað með endurunnu plasti eða 100% endurunnið plast.

√ Í íslenskum landbúnaði falla á bilinu 1.800 til 2.500 tonn af heyrúlluplasti til árlega. Árin 2018-2021 höfðu á bilinu 1.100 til 1.400 tonn fallið til árlega.

√ Talið er að innan við 3.000 bú stundi heysöfnun hér á landi.

√ Til skamms tíma hefur mest allt heyrúlluplast sem bændur nota verið unnið úr frumefnum.

√ Plastið sem notað er í heyrúllur er að allverulegu leyti unnið úr frumframleiddum plastperlum, fjöletýleni, sem byggt er upp sem teygjanlegar og límkenndar firnasterkar umbúðir með UV vörn sem þolir bæði mikinn hita og kulda.

√ Hvert kg af plasti sem er ekki framleitt úr endurunnum hráefnum hefur í för með sér u.þ.b. 2,6 kg af CO2 kolefnisútblæstri.

√ Að meðaltali þarf um tíu tonn af olíu til að framleiða eitt tonn af plasti.

√ Gróft reiknað þarf um eitt kíló af plasti utan um hverja 400 kílóa rúllu af heyi.

√ Helstu framleiðendur á rúlluplasti eru farnir að bjóða upp á plast þar sem endurunnu rúlluplasti er blandað saman við nýtt plast.

√ Árið 2022 hóf íslenska sprota- fyrirtækið Silfraberg að þreifa fyrir sér með 100 prósent endurunnið heyrúlluplast sem þróað var í Póllandi af fyrirtækinu Folgos. Plastið var gæðaprófað og segja framleiðendur og söluaðilar það sambærilegt að gæðum og hefðbundið heyrúlluplast. Kolefnisfótspor þess sé allt að 80% lægra en af öðru heyrúlluplasti sem ekki er framleitt úr endurunnu plasti, eða 0,52 CO2/kg.

√ Unnt er að endurvinna nærfellt allt heyrúlluplast svo fremi sem það er þokkalega hreint og á það við um plast úr eingöngu frumefnum, blandað með endurunnu plasti eða 100 prósent endurunnið plast.

√ Talið er að um 95 prósent heyrúlluplasts komi til baka í endurvinnslu. Allt að 24 prósent þess eru send erlendis en 76 prósent fara til endurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling í Hveragerði sem er eina plastendurvinnslufyrirtæki Íslands sem fullvinnur hráefnið í plast til framleiðslu á nýjum plastvörum.

√ Árið 2017 gerði Maskína könnun um hversu margir bændur flokka heyrúlluplast (85,4 prósent þá) og skv. Úrvinnslusjóði stendur til að senda út nýja könnun á næstu misserum.

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...