Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Stöllurnar Bergrós Vilbergsdóttir og Ásborg Styrmisdóttir kynntu hugmyndir ungmenna á tveggja daga íbúaþingi Reykhólahrepps
Stöllurnar Bergrós Vilbergsdóttir og Ásborg Styrmisdóttir kynntu hugmyndir ungmenna á tveggja daga íbúaþingi Reykhólahrepps
Mynd / Kristján Þ. Halldórsson.
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Reykhólahreppi 22.–23. mars sl. og markaði upphaf að þátttöku íbúa í verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.

Aðalmarkmið þessa verkefnis Byggðastofnunar er að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum, en sveitarfélagið Reykhólahreppur telur rúmlega 250 íbúa búsetta á sunnanverðum Vestfjörðum í Austur-Barðastrandasýslu. Heilt á litið er samfélagið kröftugt og samheldið eins og í ljós kom á fundinum og hefur alla möguleika á að styrkjast og dafna þegar fram líða stundir.

Var ákveðið á þinginu að verkefnið hlyti nafnið Fjársjóður fjalla og fjarða en Reykhólahreppur er nú fimmtánda byggðarlagið undir hatti Brothættra byggða.

Reykhólar í blíðviðri.

Ísbúð og auðlindir

Á þinginu komu fram fjölmörg málefni, m.a. sjá íbúar mikil tækifæri í ferðaþjónustu, þörf þykir á að bæta húsnæðismál og aðstöðu til íþrótta, en einnig var bent var á að íbúar töldu að endurskoða þyrfti reglur um nýtingarrétt jarðhita svo hægt væri að nýta þann kost til að styrkja byggð og atvinnulíf í sveitarfélaginu til framtíðar. Til viðbótar var rætt um tækifæri tengd menningu og arfleifð og sérstöðu svæðisins til lands og sjávar en þorpið Reykhólar er fornt höfuðból, talin einhver besta bújörð á öldum áður.

Horft var til þess að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu fyrir gesti, auk þess að efla samgöngur en mikil náttúrufegurð umlykur svæðið sem liggur við vogskorna strönd Breiðafjarðar. Jarðhiti finnst víða, ein helsta auðlind Reykhólahrepps, auk þess sem svæðið er einnig þekkt fyrir ríkt fuglalíf, ekki síst vegna hafarnarins, sem verpir einna helst í Breiðafjarðareyjunum.

Allar skoðanir nytu jafnræðis

Gestir þingsins veittu því sérstaka eftirtekt hve fulltrúar yngri kynslóðarinnar tóku virkan þátt, en ungmennin boðuðu framtíðarsýn nemenda undir yfirskriftinni Reykhólahreppur 2030. Þar komu fram hinar ýmsu hugmyndir, óskir um fjölbreyttari íþróttaiðkun og að aðstaða yrði bætt við sundlaugina svo eitthvað sé nefnt.

Embla Dögg Bachmann, nýskipaður verkefnastjóri verkefnisins til fimm ára, segir virka og jákvæða þátttöku hafa verið á þinginu auk þess sem nálgun Sigurborgar sem fundarstjóra hafi verið til fyrirmyndar – hún gætti þess að allir fengju orðið og allar skoðanir nytu jafnræðis.

„Ég fór annars og heimsótti öll stigin í skólanum einn daginn og fékk frá krökkunum hvaða stefnubreytingar þau sæju fyrir sér á komandi árum,“ segir Embla. „Það var áhugavert að því yngri sem þau voru því einfaldari voru hugmyndirnar, mjög góðar margar, en þau bentu m.a. á að fyrir utan að það vantaði ísbúð þyrfti að gera endurbætur á elliheimilinu!“

Verkefnisstjórn ásamt fundarstjóranum, Sigurborgu Kr. Hannesdóttur, og Sigríði Elínu Þórðardóttur hjá Byggðastofnun.

Að leyfa öllum að fljúga

Voru það stöllurnar Ásborg Styrmisdóttir og Bergrós Vilbergsdóttir sem kynntu svo hugmyndirnar á þinginu fyrir hönd ungmennanna og fórst vel úr hendi.

Aðspurð segir Ásborg meðal annars vonast til þess að samfélagið í heild sinni verði opnara fyrir einstaklingum af öllu tagi með komandi árum. „Mér finnst að það þurfi að taka betur á móti aðkomufólki og að allir í samfélaginu megi vera eins og þeir eru – eða eins og þeir vilja vera. Að leyfa öllum að fljúga, mér finnst það vanta svolítið og mega breytast.“ Hún vitnar í bókina Strákurinn, moldvarpan, refurinn og hesturinn eftir Charlie Mackesy; „Það er dálítið sem ég hef ekki sagt ykkur, sagði hesturinn, ég get flogið en ég hætti því vegna þess að hinir hestarnir urðu afbrýðisamir. Þá segir strákurinn: en okkur þykir vænt um þig hvort sem þú flýgur eða ekki. „Mér finnst þetta vanta svolítið í samfélagið,“ segir Ásborg með festu.

Í aðdraganda íbúaþingsins voru lögð drög að stuttri samantekt á stöðunni í Reykhólahreppi, en áætlað er að sú vinna klárist á allra næstu vikum. Segir Embla að samhliða því verði undirbúin mótun verkefnisáætlunar sem byggð verður á skilaboðum íbúa á þinginu og stöðugreiningunni og vonast er til þess að hægt verði að leggja fram drög að verkefnisáætlun á íbúafundi fyrir tíma sumarleyfa.

„Þegar verkefnisáætlun hefur verið staðfest af íbúum er hægt að huga að umsóknarferli vegna stuðnings við frumkvæðisverkefni í Reykhólahreppi úr svokölluðum frumkvæðissjóði verkefnisins Fjársjóður fjalla og fjarða. Það er því um að gera fyrir íbúa að fara að velta fyrir sér hvernig hver og einn getur lagt lóð á vogarskálar í verkefninu á næstu vikum og mánuðum,“ lýkur Embla máli sínu.

Skylt efni: brothættar byggðir

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...