Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Grágola frá Flögu 1 í Skaftárhreppi er í hópi nýgreindra gripa með T137.
Grágola frá Flögu 1 í Skaftárhreppi er í hópi nýgreindra gripa með T137.
Fréttir 16. apríl 2025

Fimmtíu gripir með T137 finnast í Skaftárhreppi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Áfram finnast sauðfjárbú með arfgerðabreytileikann T137 í hjörð sinni, sem talinn er mögulega verndandi gegn riðuveiki í sauðfé.

Áður var talið að hægt væri að rekja alla gripi með breytileikann niður á átta bú, með engin innbyrðis erfðatengsl, en nú er komið í ljós að þau eru 17.

Á undanförnum mánuðum hefur markvisst verið leitað að gripum með breytileikann, í kjölfar þess að gripir fundust á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit fyrir áramót og höfðu ekki tengsl við aðra þekkta gripi með hann. Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, hefur leitt þessa vinnu og segir hún að einna markverðast við rannsóknirnar að

Karólína Elísabetardóttir.

undanförnu sé sú staðreynd að á bæjunum Jórvík og Snæbýli í Skaftárhreppi, þar sem búrekstur er sameiginlegur, hafi nýlega fundist 50 gripir með breytileikann.

Beiðni hafnað um formlega viðurkenningu

Síðasta sumar var samþykkt ný landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu, þar sem stefnt er að því að ná þessu markmiði með innleiðingu á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum. Aðeins breytileikinn ARR hefur verið viðurkenndur sem verndandi en T137 er viðurkenndur sem mögulega verndandi í þessari áætlun. Í byrjun þessa árs hafnaði matvælaráðuneytið beiðni sem barst frá bændahópnum „Breiðvirkt riðuþol strax“ um formlega viðurkenningu á breytileikanum sem verndandi gegn riðu, en erindið var stutt áliti alþjóðlegs vísindateymis sem hafði unnið að víðtækum rannsóknum á breytileikanum á Íslandi og Ítalíu.

Var beiðninni hafnað á þeim forsendum að ekki hafi verið einhugur um að skilgreina T137 sem verndandi arfgerð að svo stöddu. Óskað var umsagna frá Matvælastofnun, Tilraunastöðinni á Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Mikilvægt að varðveita erfðafræðilegan fjölbreytileika

Karólína segir að niðurstöður umfangsmikilla rannsókna á Ítalíu hafi leitt í ljós að breytileikinn sé verndandi þar. Því sé ljóst að á undanförnu hafi á Íslandi fundist mikilvægar og verðmætar erfðaauðlindir.

„Mikilvægið felst líka í því að erfðafræðilegur fjölbreytileiki sé varðveittur í sauðfjárstofninum okkar og því fleiri góðir kynbótagripir sem finnast með verndandi og mögulega verndandi breytileika, því betra verður að byggja upp riðuþolinn stofn. Áhættan á erfðagöllum minnkar um leið.“

Allir 73 gripirnir með T137 voru neikvæðir

Karólína bætir við að athyglisverðar nýlegar rannsóknir renni frekari stoðum undir verndargildi T137- breytileikans. „Frá 2021 hefur alþjóðlegur vísindahópur rannsakað riðu á Íslandi, meðal annars frá Ítalíu. Breytileikinn er algengur þar en riða er sömuleiðis útbreidd sem skýrist af því að lítið er um markvissa ræktun á þolnum arfgerðum.

Nú er vitað að riðusjúkdómurinn sést fyrst í eitlunum á gripum, löngu áður en hann berst í heilann. Vegna tengsla okkar við ítölsku vísindamennina þá leituðum við eftir því nýlega að við fengjum hjá þeim eitlasýni úr nýlegum riðuniðurskurði á Ítalíu. Eitlar úr 73 kindum úr riðuhjörðinni, sem allar voru með T137-breytileikann, voru riðugreindir hér á Keldum og reyndust þeir allir vera neikvæðir. Þetta eru mjög áhugaverðar niðurstöður þar sem fjöldi sýna er marktækur og þær staðfesta að T137 býr yfir miklu mótstöðuafli gegn sjúkdómnum.“

Skylt efni: riðuveikivarnir

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f